Fæða, ferðalag, snerting

Fæða, ferðalag, snerting

Í morgunlestri dagsins (1Kon 19.1-8) eru þrjú stef sem við skulum íhuga saman. Þetta eru jafnframt þrjú meginstef þessarar viku sem hefst á fjórða sunnudegi í föstu. Þau eru: Fæðan sem gefur kraft, fjörtíu daga ferðalög og snerting Guðs og köllun.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
24. mars 2004

Í morgunlestri dagsins (1Kon 19.1-8) eru þrjú stef sem við skulum íhuga saman. Þetta eru jafnframt þrjú meginstef þessarar viku sem hefst á fjórða sunnudegi í föstu. Þau eru: Fæðan sem gefur kraft, fjörtíu daga ferðalög og snerting Guðs og köllun.

* * *

En engill Drottins kom aftur öðru sinni, snart hann og mælti: Statt upp og et, því að annars verður leiðin þér of löng.

Elía var kallaður á fætur til að þiggja næringu til ferðalagsins framundan. Og hann át og drakk og fæðan entist honum í fjörtíu daga og nætur sem var sá tími sem ferðalag hans tók.

Hvert var ferðinni heitið? Að fjallinu Hóreb, fjalli Guðs, staðnum þar sem Guð er að finna. Elía neytti fæðunnar sem gaf kraftinn til að halda áfram göngunni til móts við Guð. Fæðan gefur kraft til ferðarinnar til móts við Guð.

* * *

Stóð hann þá upp, át og drakk og hélt áfram fyrir kraft fæðunnar fjörutíu daga og fjörutíu nætur ...

Við erum einnig í fjörtíu föstu-daga ferðalagi. Árlegu föstu-ferðalagi. Rétt eins og Elía forðum daga erum við kölluð - kölluð til samfundar við Guð og kölluð til að standa upp, eta og drekka. Ekki aðeins eldbakaðar kökur eða vatn úr krúsum heldur brauð og vín við borð Guðs.

Á hverjum sunnudegi föstunnar – og reyndar hverjum sunnudegi ársins – er okkur boðið til slíkra veislu, á hverjum miðvikudagsmorgni í þessari kirkju, er okkur boðið til borðsamfélags: Að standa upp til að eta og drekka og meðtaka náð Guðs.

* * *

En engill Drottins kom aftur öðru sinni, snart hann ...

Og eins og Elía erum við snert – og við erum jafnframt kölluð til að snerta aðra – okkur er boðið til borðsins og okkur er jafnframt boðið að bjóða öðrum til þessa sama borðs. Þannig erum við bæði kölluð til fjalls Guðs og kölluð til að vera englar – sendiboðar – eins og sá sem snerti við Elía á leið til Hóreb-fjalls.

Kannski er það verðugt verkefni á föstunni: Að vera englar, útdeila eldbökuðum kökum og vatni úr krúsum og kalla alla sem vilja heyra að borði Guðs. Láta tíðindin góðu berast út: Það er veisla á sunnudaginn kemur – og þér er boðið!