Tákn sem enginn skilur

Tákn sem enginn skilur

Það tók mig smá tíma að átta mig á því í Aubane í Frakklandi að ég var ekki á hersýningu heldur á tilfinningaþrunginni samveru sem var haldin til að minnast þess hvað sameinaði hópinn og ítreka að allir væru mikilvægir.
Mynd

Það ýrði aðeins úr lofti en veður var að mestu þurrt þá þrjá tíma sem við vorum á vellinum. Sátum í áhorfendastúku og reyndum okkar besta til að fylgjast með. Það var tónlist en enginn söng, látinna var minnst og eldri maður í hjólastól hélt á tréhönd sem átti sér mikla sögu - hún var sannur helgigripur fyrir þennan hóp. Stundum átti að standa upp, stundum ekki - þetta virtist á reiki - "þetta er eins og í kirkjunni" hvíslaði maðurinn minn og ég kinkaði kolli því að ég hafði einmitt verið að hugsa það sama. Standa upp, setjast niður - þetta getur vafist fyrir óvönum í kirkjunni og það sama gilti hér - á hersýningu frönsku útlendingaherdeildarinnar í Aubane rétt utan við borgina Marseilles í suður Frakklandi. 

 

Þegar boðið barst okkur hélt ég að þetta yrði sýning þar sem hermenn marseruðu um innan um skriðdreka og brynvarða bíla - allt til að sýna máttinn. 

 

En hjá útlendingaherdeildinni voru engir skriðdrekar. Þar voru hins vegar herdeildir með rauða dúska á öxlum, menn með hvíta háa hatta, aðrir með alpahúfur, sumir í hefðbundnari hermannabúningi og mislita háa hatta. Og svo var það sveitin með leðursvunturnar. Þeir héldu allir á öxum. Mér varð sérlega starsýnt á þennan hóp við komuna. Var þetta til að minnast einhverja axarmorða? Eða sáu þessir um að slátra dýrum og elda? Hver var eiginlegina skýringin?

 

Athöfnin hjá útlendingaherdeildinni var kölluð Camerone. Hún er aðalhátíð þessarar deildar og er til minningar um það þegar 60 manna könnunarherdeild á vegum Frakka, mætti óvænt 3000 manna liði Mexíkóa, i Mexíkó, árið 1863. Þetta var ójafn leikur. Flestir Frakkanna létu lífið, nokkrir voru teknir til fanga. Þeir gáfust upp með því skilyrði að hlúð yrði að særðum. Foringinn féll. Hann var með tréhendi. Hún fannst og skilaði sér til baka til hersins. Þessi tréhönd er borin um á hverri Camerone hátíð. Mér þótti þetta allt dálítið skrítið. Fagna ekki flestir sigrum? Af hverju að halda upp a tapið? Af hverju er aðalhátíðin til að minnast atburðar þar sem Frakkar fengu svo hrapallega útreið? Hápunktur athafnarinnar var þegar ungur hermaður fór með söguna um ófarirnar við Camerone - hann talaði af tilfinningu og mun hafa flutt orðrétt söguna - helgisöguna vil ég segja - um þennan atburð. Hljómsveitin lék undir hluta til að auka áhrifin. 

 

Milli þess sem ég reyndi að skilja hlutverk hinna ýmsu hersveita sem birtist aðallega í mismunandi klæðaburði - já og standa upp og setjast á réttum stöðum þá komst ég ekki hjá því að sjá að seremóníurnar snérust í raun allar um eitt: Að sýna virðingu. Að heiðra. Fallinna og látinna var minnst, orrusta var minnst, nokkrir fengu æðsta heiðursmerki, þar á meðal maður sem hóf herþjónustu sína árið 1942 þegar hann gekk í frönsku andspyrnuhreyfinguna. Hann var í hjólastól þegar hann tók við orðunni, en virtist merkilega ern. Allt sem fram fór hafði einn tilgang - að skapa og viðhalda samfélagi. Samfélagi sem á sögu, sem þekkir bæði sigra og ósigra. Ef ég ætti að benda á skilaboð þessarar athafnar eins og þau birtust mér, þá væru þau til ungu hermannanna: Við sjáum þig - þú skiptir máli. Og til þeirra fjölmörgu sem voru eldri, jafnvel komnir á eftirlaun: Við gleymum þér ekki. Og til allra jafnt: Þið eruð hluti af samfélaginu okkar. 

 

Það voru engir skriðdrekar eða byssur á hjólum en flugsveit flaug yfir í oddaflugi og myndaði liti franska fánans. Þetta er útlendingaherdeildin sem þýðir að hermennirnir koma víða að. Margir hafa yfirgefið fjölskyldu og heimaland. Þess vegna voru skilaboðin um samfélagið svo mikilvæg. Við höfðum reyndar nokkrum dögum áður skoðað sveitasetur þar sem einstæðir hermenn á eftirlaunum og þeir sem eru fatlaðir búa og rækta vín, vinna í keramík og fleiru - setur sem gaf þau skilaboð að deildin hugsi um sitt fólk, enginn þurfi að vera einn þegar æfistarfi lýkur. 

 

Þegar ég stóð á áhorfendapallinum á Camerone hátíðinni reikaði hugurinn hingaði í Neskirkju. Ég horfði á öll táknin sem ég skildi ekki og velti fyrir mér hve margir komi í kirkjuna og skilji ekki táknin þar. Af því að kirkjan og messan eru fullar af táknum. Hvað verður um tákn sem enginn skilur? 

 

Mig langar nú hafa þögn stutta stund og bjóða öllum hér inni að skoða þau tákn sem hér eru, bæði sýnileg og í orðum og hefðum. Er eitthvað sem þið skiljið ekki? Eitthvað sem er óþægilegt? Eitthvað sem skiptir ykkur máli? 

Ég ætla ekki að kalla eftir hugsunum núna - held ekki að við séum á þeim stað að fólki þyki slíkt þægilegt - en það væri gott að leyfa þeim að lifa með okkur og kannski mætti spjalla um þær í kaffinu á eftir.

 

Viku fyrir föstulaginn langa nú í vor var skopþáttur í sjónvarpinu þar sem grínistinn gekk með kross um Kringluna og spurði fólk um merkingu þessara daga. Þetta olli nokkrum titringi af því að krossinn er mörgum mjög dýrmætt tákn. Eitt af því sem mér þótti skemmtilegt í kjölfarið er að margir komu fram og lýstu því hvers vegna krossinn skipti máli í lífi þeirra. Og það er einmitt svo mikilvægt að átta sig á því að eitt tákn getur haft ólíka merkingu hjá fólki, því að allt sem við sjáum, heyrum og lesum það túlkum við í ljósi eigin reynslu. Og fólk lýsti mikilvægi krossins í þeirra lífi:  - krossinn sem merki um að Guð þekki þjáninguna, gangi í gegnum hana með okkur - krossinn sem merki um sigur yfir dauðanum - krossinn sem styrkur - krossinn sem tákn um bænasvar. 

 

Bænasvar - já í dag er einmitt einn af þessum sérstöku dögum - Hinn almenni bænadagur. Eitt af svo mörgu sem hafði kannski einhvern tíman merkingu í kirkjunni, eða hvað? Dagurinn heitir Rogare á latínu sem þýðir "að biðja". Í kjölfar hans komu svo til forna þrír dagar bæna og föstu fram að uppstigningardegi. Sem er á fimmtudaginn. 

Í kirkjunni er líka flutt hin almenna kirkjubæn. Er einhver hér sem hefur velt þessu nafni fyrir sér? Hin almenna? Af hverju? Þar er beðið almennt fyrir kirkjunni, landinu og þeim sem leiða það, heiminum og fólki, veikum og syrgjandi, þeim sem búa við erfið kjör og fleirum. Almenna bænin kemur ekki í veg fyrir að við, hvert og eitt, gerum hana sértæka með því að bæta við þeim sem við viljum sérstaklega fela Guði, en hún minnir okkur á að kirkjan er bænastaður og þaðan stíga bænir fyrir heiminum öllum. Þannig hefur það alltaf verið. Hin almenna kirkjubæn er þannig ákveðið tákn líka. 

 

Hvað verður um tákn sem enginn skilur? Kemur fólk hingað og sér ekki að messan snýst fyrst og fremst um samfélag? Samfélag við Guð og samfélag við hvert annað? Þar sem við tölum við Guð og hlustum á orð Guðs, þar sem við biðjum saman, syngjum saman og borðum saman - því að altarisgangan er tákn máltíðar. Við nærumst og göngum svo út með þessa næringu til að takast á við verkefni vikunnar. Og fyrsta stopp er reyndar oft kirkjukaffið, sem er mjög gott. Messuformið er ópersónulegt og það er til að við getum öll tileinkað okkur það. Sett okkar skilning í það, vanist því og fundið hvernig endurtekningin og kunnugleikinn hjálpar okkur að slaka á og hlusta - á Guð, á aðra, á okkur sjálf.

Það tók mig smá tíma að átta mig á því í Aubane í Frakklandi að ég var ekki á hersýningu heldur á tilfinningaþrunginni samveru sem var haldin til að minnast þess hvað sameinaði hópinn og ítreka að allir væru mikilvægir. 

Það tók tíma að ráða í táknin í Aubane. Og kannski réði ég ekki rétt í þau öll. Ég held samt að ég hafi náð því veigamesta. Að þetta var samfélag. Og það gladdi mig því að ég er satt að segja meira fyrir samfélag sem heiðrar fólk og hlúir að, heldur en hersýningar. Mín von og bæn er að þau sem hingað koma nái að lesa nægilega í samveruna til að sjá að hún snýst um samfélag.

 

En það þurfti að segja mér að þessir með leðursvunturnar og axirnar voru gamla sérsveitin sem sá um að höggva leið í gegnum frumskóga. Axirnar til að höggva og leðursvunturnar til að verja þá þegar þeir skriðu um skógarbotninn.

Sum tákn eru þannig að það verður að útskýra þau. Líklega bæði þar og hér.