Aulinn, björninn, Jesús og þú

Aulinn, björninn, Jesús og þú

Þetta er falleg lýsing á samfélagi. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur þótt þú sért á ókunnum stað. Þarna er gott fólk. Einhver mun sjá um þig.

Aulinn Manstu eftir aulanum? Hann vildi vera bestur og mestur í allri veröldinni? Af því hann var þrjótur þá vildi hann vera sá mesti meðal þrjóta. Mesti vondi-kallinn. Hann ákvað því að stela tunglinu. Til að ná markmiðinu þurfti hann á börnum að halda svo hann tók að sér þrjár munaðarlausar stelpur. En þetta gekk ekki alveg upp því þegar þær komu inn í lífið hans tóku þau yfir og hann breyttist. Það kom í ljós að inn við beinið var þrjóturinn bara allt í lagi.

Þekkirðu fléttuna? Myndin heitir Aulinn ég. Aulinn heitir Grú, stelpurnar hans Magga, Agnes og Edit og svo eru það skósveinarnir allir sem sumir segja að séu jafnvel eftirminnilegustu persónur myndarinnar.

Svo kom mynd númer tvö og þá var Grú mildi fjölskyldufaðirinn sem vildi ekki ævintýri heldur bara gera allt gott fyrir stelpurnar sínar. Ábyrgur og myndugur. Hann breytist minna í þeirri mynd en það gera litlu skósveinarnir. Illmennið í myndinni eitrar fyrir þeim og þegar eitrið nær tökum á þeim ummyndast þeir, verða fjólubláir á lit, ómögulegir í skapinu, árasargjarnir og illskeyttir. Það sem var gott er orðið vont.

Prédikun dagsins samanstendur af þremur ummyndunarsögum. Sú fyrsta er reyndar þegar komin. Það er sagan af Grú sem var vondur, varð pabbi, varð góður – og það er sagan af skósveinunum hans sem breyttust og breyttust aftur.

Bangsinn Önnur sagan gerist í London. Ég sá kvikmyndina um Paddington myndina í vikunni. Hún er byggð á gamalli og þekktri barnabók talandi björn sem ferðast frá Perú til Englands og sest að í London. Hann er alinn upp í kurteisi og háttvísi og fær í veganesti mannasiði frá því í-gamla-daga þegar allt var betra. Hvernig birtist háttvísin í þessari kvikmynd? Hún birtist í umhyggju fyrir munaðarlausum. Þegar frænka Paddington sendir hann af stað lætur hún hann fá miða og segir: Þú skalt fara á lestarstöð og hafa þennan miða um hálsinn og þá mun einhver góður taka þig að sér. Því það gerði fólkið í Englandi á sínum tíma. Tíminn sem um ræðir er eftir aðra hvora heimsstyrjöldina - líklega þá fyrri. Þegar fjöldi barna var munaðarlaus vegna mannfalls í stríði. Þetta er falleg lýsing á samfélagi. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur þótt þú sért á ókunnum stað. Þarna er gott fólk. Einhver mun sjá um þig.

Hún kallast á við orð Jesú: „Hungraður var ég og þið ...“ Hún minnir okkur líka á arfleifð Jesú sem kom til að brýna til góðra verka, móta samfélag, til að setja í forgang þau sem minna mega sín. Til að ummynda samfélag.

Paddington þurfti að bíða svolitla stund á samnefndri lestarstöð og allir gengu framhjá honum. Enginn kallaði á félagsmálayfirvöld. En að lokum fann hann fjölskylduna sem varð hans.

Jesús og þú Svo er það þriðja sagan. Það er sagan af Jesú sem við lásum frá altarinu í dag. Í henni eru tvær víddir sem koma í ljós í orðunum sem heyrist úr skýinu:

„Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“

Fyrri víddin er staðfestingin: „Þetta er minn elskaði sonur.“ Sú síðari er erindið sem Jesús er sendur með: „Hlýðið á hann.“

Getum við heimfært þetta á okkur? Hvar fáum við svona staðfestingu? Hvenær opnast himnarnir og rödd segir: Þessi er minn elskaði sonur? Mín elskaða dóttir? Ekki af því að við séum Jesús heldur af því að við erum elskuð börn Guðs?

Það gerist hérna. Við skírnarfontinn. Þar er nafnið okkar nefnt. Sagt: Þú ert minn, þú ert mín. Beðið fyrir okkur. Þar er heitið unnið. Ekki af barninu sjálfu, það er of lítið til að trúa. Þess vegna trúa foreldrarnir trúa fyrir hönd þess. Og söfnuðurinn trúir fyrir hönd þess.

Við skírnarlaugina sést líka hin vídd ummyndunarinnar, þetta með boðskapinn og lífið – því í skírnarathöfninni brýnum við fyrir foreldrum og söfnuði: „Kennið barninu að elska Guð og elska náungann.“ Það var einmitt boðskapur Jesú: Að elska Guð og náungann.

Börnin Nú sjáið þið kannski þemað sem tengir ummyndunarsögurnar. Grú breyttist með dætrunum og vegna þeirra. Skósveinarnir eru barnalegir. Sagan af Paddington er barnasaga. Við berum börn til skírnar.

Frá barnsaldri erum við kölluð til að meðtaka boðskapinn um að við erum börn Guðs, elskuð af Guði, send til að elska heiminn og náungann. Það er þegar allt kemur til alls ummyndunin í okkar eigin lífi – að verða og vera farvegur þessarar elsku.

Guð styrki okkur til þess.