Aðventuför

Aðventuför

Maðurinn, hundurinn og hrúturinn fóru saman í för á öræfi og eftirvæntingin var bundin við að finna viltar kindur og mikill var fögnuðurinn þegar þær fundust og tekist hafði að koma til síns heima í öruggt skjól. Er aðventuför nútímans eitthvað í líkingu við það?

Jes. 62.10-12. Róm. 13.11-14. Lúk. 4.16-21

Ég opna hlið míns hjarta þér Ó, Herra Jesús, bú hjá mér, Að fái hjálparhönd þín sterk Þar heilagt unnið náðarverk.

Gunnar Gunnarsson, skáld og rithöfundur, sagði frá Benedikt, hrútnum Eitli og hundinum Leó í sögunni, Aðventa. Þessi þrennig fór upp á öræfin um hávetur til að bjarga eftirlegukindum. Hvað kemur það aðventu við? Í sögunni segir svo frá:

“Aðventa...Bendedikt tók sér orðið í munn af stakri varfærni, þetta mikla hljóðláta orð, furðulega annarlegt og þó um innfjálgt, sennilega það orð sem snart hann dýpra en öll önnur. Hverju það bjó yfir var honum að vísu alls ekki ljóst, nema það fól í sér að einhvers væri vant en eftirvænting á næsta leiti, undirbúningur einhvers betra, það fór ekki á milli mála. Eftir því sem árin færðust yfir hann var sem allt hans líf væri orðin ein aðventa. Því hvað var líf hans, rétt á liðið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi, þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða”.

Með aðventunni hefst þessi óþreyjufulla bið með annríki undirbúnings svo þetta stóra og mikla sem helgar biðina megi verða fullkomið þegar í garð gengur. Hvað er það sem er svo mikilfenglegt að verðskuldar slíka fyrirhöfn? Þrenningin, maðurinn, hundurinn og hrúturinn fóru saman í för á öræfi og eftirvæntingin var bundin við að finna viltar kindur og mikill var fögnuðurinn þegar þær fundust og tekist hafði að koma til síns heima í öruggt skjól. Er aðventuför nútímans eitthvað í líkingu við það? Er biðin okkar helguð af von um eitthvað betra, eftirvænting, undirbúningur að þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða?

Við sjáum jól í fjarska, greinum einhvern ljóma af fegurð, góðvild, gleði, vináttu, hátíð. Börnunum finnst þetta svo óralangt í burtu, biðin svo löng framundan, en full af uppákomum og viðburðum sem fanga hug og skapa líf. Margir fullorðnir kvíða, finna að áhyggjur hellast yfir, svo mikið sem eftir er að gera, eru til peningar til að standa undir öllu skrautinu, gjöfunum, tilstandinu, er nægur tími til að koma öllu í verk. En samt hefst þessi undirbúningur með svo innilega einföldum og tákrænum hætti. Við tendrum eitt ljós á kransi sem við kennum við aðventu og nefnum spadómsljós af því að spámaður fyrir löngu síðan spáði fyrir um að fyrirheit um eilíft hjálpræði myndi rætast.

Samt er enn spurt af hverju allt þetta? Hvert er ferðinni á aðventu heitið og hver er tilgangurinn? Maðurinn með hrútinn og hundinn vissi nákvæmlega um sína för, hvert heitið var, tilgang og verkefni. Að bjarga kindum uppi á öræfum. Og þar var nóg af vandræðum og áhyggjum, en eftirvænting, löngum bið ofan í skjóli þröngrar holu fyrir vondum veðrum, allt gjört til að láta gott af sér leiða, þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra.

Erum við einhverju að bjarga með undirbúningi jóla? Undirbúa jól af því bara, af því að dagatalið skipar svo fyrir, fljótum með af því að allir aðrir eru að gera það? Er aðventan okkar ófullkomin þjónusta sem helgast af bið eftir einhverju betra?

“Hjálpræðið er oss nær, klæðumst því hertygjum ljóssins”, skrifaði postulinn Páll í pistlinum sem lesinn var héðan frá altarinu. Og Jesaja spámaður ritar í lexíunni sem einnig var lesin héðan frá altarinu: “Leggið braut. Ryðjið burt grjótinu. Reisið merki fyrir þjóðirnar. Sjá, hjálpræði þitt kemur”.

Boða þessi orð eitthvað betra? Klæðumst hertygjum ljóssins af því að hjálpræðið er að koma. Já, mikið er kallað eftir hjálpræði um þessar mundir. Vandi blasir víða við og margir sýnast ráðviltir. Efnahagshrun kom yfir þjóðina eins og skelfing á einni nóttu eftir ímyndaða gósentíð þar sem flestir þóttust sjá gull drjúpa af hverju strái. En gildismatið féll á þeirri nóttu af því að hjálpræði fjárins beið skipbrot andspænis græðginni. Og eftir sat þjóð í sárum eins og svikin af sjálfri sér og því vilja nú margir leggja nýja braut, ryðja grjótinu burt og er tíðrætt um réttlæti, siðvæðingu og heiðarleika, reisa til vegs hjálpræði sem dugar, hjálpræði á bjargi fest. Hvað myndi trúin geta sagt á þeim tímamótum: Hrunið átti ekki að koma neinum á óvart. Guðs orðið varaði við, reyndi allt til að opna blindu augun og sagði allt um það þegar maður reisir sér Bablesturna úr gulli. Þeir hrynja allir alltaf. Það segir heilagt orð, og reynsla sögunnar staðfestir aftur og aftur. Þegar maðurinn hreykir sér hæst, þá verður fallið stærst.

Sr. Jón Steingrímsson, eldklerkur, segir frá því, að messufall hafi orðið hjá sér níu sinnum í röð fyrir hamfarir eldanna 1783 af því að enginn maður lét sjá sig og þó veður hefði verið gott. Sá eldur lagði mannlíf á Íslandi í rúst. Þá var þjóðin óviðbúin og kirkjan afskipt, og “menn lifðu í sælgæti matar og drykkjar”, uppteknir af sjálfum sér í sællífi, að fólki fannst Guð engu geta bætt við öðru en að trufla dansinn í kringum gullkálfinn. En kirkjan varð að lyktum bjargráðið eina þegar til kastanna kom. Þá sannaðist að sú byggðastefna hefur best reynst að rækta helgidóma þjóðarinnar sem Guð hefur blessað og menn hafa helgað í þjónustu sinni með heilögu orði í búsetu sinni og lífsbaráttu um aldir. Og svo er enn.

Í guðspjallinu á fyrsta sunnudegi í aðventu segir Jesús Kristur: “Andi Drottins er yfir mér. Af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins”. Og bætti svo við: “Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar”.

Þetta er hjálpræðið sem staðist hefur tímans tönn og breytir engu um gildi þess þótt menn reynt að útrýma því með valdi kúgunar eða núna með tilraunum til að veikja það í brölti Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar. Þeir krossfestu Jesú Krist á Golgata, en Guð sneri þeirri för upp í sigur lífsins. Ritningin hefur ræst og er staðreynd. Af því að Guð er hér mitt á meðal okkar nálægur og gefst aldrei upp á að kalla manninn til samfélags um hjálpræðið þar sem trú, von og kærleikur umvefur lífið í réttlæti og staðfastri von.

Þess vegna er aðventan heilög för í hertygjum ljóssins til móts við hjálpræðið sem boðar fyrirgefningu syndanna og eilíft líf, að elska Guð og náungann og kallar til þjónustu um að láta gott af sér leiða og gera lífið betra hvort sem farið er á fjöll í leit að eftirlegukindum eða tendrað ljós á kerti sem minnir á hjálpræðið sem jólin helgast af og felur allt hið góða, fagra og fullkomna í sér. Það er heilög þjónusta við Guð og menn, þjónusta sem boðar réttlæti sem elskar náungann.

Þetta er aðventuförin. Að rækta hjálpræðið sem dugað hefur manni best og er gjöf frá Guði. Þá verður aðventan eins og eftirvænting með tilgangi af því að við erum að undirbúa heilagt tilefni, að Guð varð maður á jólum, frelsari fæddur, hjálpræðið í raun og sannleika. Þetta hjálpræði heitir kærleikur. Ryðjum því braut í orði og verki í undirbúningi jóla á aðventu. Kærleikur sem treystir Guði og ræktar hið góða, fagra og fullkomna í vináttu sem þykir vænt um lífið, glæðir vonina til góðra verka, hlúir að menningunni sem virðir manngildin og lætur sér annt um afdrif samferðafólks. Þá verður aðventuförin þjónusta sem helgast af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi, - þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.

“Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf sinn einkason svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Amen