Símon í sólinni

Símon í sólinni

Látum guðspjall dagsins ennfremur kenna okkur kjarna kristindómsins og þann sannleika að við erum öll Guði háð í takmörkun okkar, því sá eða sú sem sér þann sannleika öðlast hæfni til að elska mikið.

Farísei nokkur bauð honum að eta hjá sér, og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís, að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki honum til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, sagði hann við sjálfan sig: Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug.

Jesús sagði þá við hann: Símon, ég hef nokkuð að segja þér. Hann svaraði: Seg þú það, meistari. Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira? Símon svaraði: Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp.

Jesús sagði við hann: Þú ályktaðir rétt. Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið. Síðan sagði hann við hana: Syndir þínar eru fyrirgefnar.

Þá tóku þeir, sem til borðs sátu með honum, að segja með sjálfum sér: Hver er sá, er fyrirgefur syndir? En hann sagði við konuna: Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði. Lk 7.36-50

Þetta var einn þessara sólríku daga sumarsins og ég var stödd niðri bæ ásamt henni mömmu minni. Við sátum við borð fyrir utan kaffihús, sötruðum kaffi latte og snæddum gulrótarköku, óskaplega hugguleg stund og í alla staði vandræðalaus, við áttum stutt samtöl á milli þess sem við virtum fyrir okkur fólkið sem gekk framhjá. Þá gerist það að einn af útigangsmönnum bæjarins sest við næsta borð, mjög þétt upp við móður mína. Hann var illa til reika eins og von var, í götóttum skóm, skítugur frá toppi til táar og blóðgaður í andlitinu. Það líður ekki að löngu uns hann snýr sér að mömmu og tekur utanum hana eins og um aldagamlan vin væri að ræða. Mamma sýndi nú ekkert sérstaklega sterk viðbrögð en þó skynjaði ég að þetta væri kannski ekki sú nánd sem hún væri vön frá bláókunnugu fólki. Ég bað því vininn um að hafa sig hægan og hætta þessu en þar sem ég hafði jú veitt honum þá athygli reis hann á fætur og stikaði til mín eins og hann hefði fundið hina týndu dóttur.

Nú er ég prestur eins og þið kannski vitið og starf presta felst að öllu leyti í því að hafa samskipti við fólk, prestar eiga því ekki að velja sér félagsskap á vinnutíma. Hvort það var að ég væri svona meðvituð um að ég væri í sumarfríi eða það að óhreinar hendur mannsins og matarleifarnar á skyrtunni ógnuðu mér, veit ég ekki, en allaveganna þá brást ég við eins og manneskja sem hefur bara séð sólina frá fæðingu. Ég bægði frá mér hendinni og sagði hvössum rómi, “hættu og láttu okkur í friði.” Auðvitað brá manninum við þessa köldu kveðju svo nýfengið bros hans breyttist í angistarfullan svip, þess sem hvergi finnur sig velkominn. Hann lét sig hverfa en ég kláraði kaffið mitt og kökuna og hélt svo heim í faðm fjölskyldunnar.

Svo gerist það að ég er stödd inn í bókabúð á dögunum og sé þar forsíðu glanstímarits sem skartaði einni af vonarstjörnu íslensk samfélags. Ungri stúlku sem virðist allt til lista lagt, falleg, vel gefin og klár og þar sem ég hef sérstakt dálæti á henni í sjónvarpinu þá ákvað ég að fjárfesta í þessu annars fokdýra blaði og lesa viðtalið við hana. Það er skemmst frá því að segja að viðtalið varð ekki til þess að minnka álit mitt á stúlkunni því þrátt fyrir sorgir æsku hennar hefur henni tekist allt sem hún hefur ætlað sér, með hvatningu föður hennar um að gera alla hluti eins vel og hún getur ellegar sleppa þeim.

Í aðdáun minni yfir áræði og dugnaði stúlkunnar held ég áfram að fletta blaðinu og rekst þar á andlit sem kallar fram aðrar tilfinningar en engilásjóna stúlkunnar. Það er útgangsmaðurinn af kaffihúsinu, í blaðinu er talað við hann og fleiri kollega hans, róna bæjarins eins og við köllum þá, því ég held að innst inni trúum við því varla að þeir eigi nafn.

Það varð þá ekki hégóminn einn sem var fóðraður með kaupum á þessu blaði því viðtalið við rónanna og ekki síst þann sem vildi eiga samfélag við okkur mömmu, fékk mig til að hugsa um smækkun mína þennan dag þegar ég vildi ekki kannast við að vera náungi rónanna. Hann átti nafn, hann átti fjölskyldu, hann átti fyrirtæki og frama, virðingu og vini, allt það sem ég á í dag, nema ég á ekki fyrirtæki, en bakkus bankaði upp á og rændi hann lífinu.

Já ´”kleppur er víða” og það er Símon farísei líka. Þegar umræðan um heimili fyrir útigangsmenn á Njálsgötunni stóð sem hæst horfði ég með vanþóknun á hræðslusvip íbúanna sem töldu öryggi sínu já eða peningum ógnað með nýju nágrönnunum. Ég hugsaði með mér “ósköp eru þau smá” og það er vissulega enn skoðun mín en sannleikurinn er sá að ég er líka smá, hvað með þig? Hvað fer í gegnum huga þinn þegar þú gengur Laugaveginn eða Austurvöll og horfir á róna bæjarins drekka kardimommudropa við hliðina á Jóni forseta? Ég veit ekki hvað þú hugsar en þeir vita það, þeir segjast sjá fyrirlitningu í svip okkar þegar við göngum framhjá, “best að stíga ekki í hlandið eða æluna á nýju Prada skónum.”

Það er viðeigandi í þessu samhengi ljóðið hans Hannesar Péturssonar, það gæti átt sér stað í kvosinni þar sem mannlífið er margbreytilegast.

Takið eftir börnum hjá tjörninni hérna sunnan við!

Þau námu skyndilega staðar og stara nú hingað. Grafkyrr. Orðlaus. Eitthvað sjá þau, lostin furðu.

Bjálkann? Er bjálkinn svona greinilegur? Skjagar hann út úr augum okkar hvers um sig?

Í pistli dagsins segir

Ef vér segjum: Vér höfum ekki synd, þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.. Og ef vér segjum, vér höfum ekki syndgað, þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss. 1.Jh. 1:5-10

Þetta er áminningin sem öllu skiptir þegar við tökum afstöðu til náungans. Vegna þessarar staðreyndar og þeirrar að Kristur dó fyrir okkur til þess að frelsa okkur frá andlegum dauða erum við öll á sama báti. Skaparinn hefur þegar kveðið upp sinn dóm, sá dómur er velþóknun hans á hverju og einu okkar. Eins og það er eftirsóknarvert og gott að ná árangri í lífinu og svamla á yfirborðinu er ekkert sem breytir þeirri staðreynd krossins að Guð elskar rónann og þig jafn heitt. Símon Farísei, maður vandur að virðingu sinni, vel lesinn og virtur, taldi sig lánsamann að fá að iðka trúna í styrkleika sínum, en hvað varðar Guð um það? Ekki er Hann í guðfræðilegri samkepni við sköpun sína. Símon var vissulega vel lesinn eins og við mörg erum en hann skildi samt engan veginn kjarna kristindómsins, kjarna sem við virðumst eiga svo auðvelt með að skilja sem börn en helst illa í hugsun okkar þegar við eldumst. Sá kjarni snýst um að manneskjur eru heilagar, ómetanlegar, myndir Guðs í þessum heimi. Þegar ég skrifa þessi orð finnst mér ég einmitt vera að segja svo einfalda hluti, barnslega, já nánast einfeldningslega, fer nánast hjá mér að skrifa svona með 5ára háskólamenntun að baki. En samt gat ég engan veginn munað þennan einfalda lærdóm, daginn sem að róninn með nafnið vildi tala við mig. Nunna sem vann á heilabilunardeild á Landakoti og var spurð hvort starf hennar væri ekki hræðilega erfitt, svaraði, “ nei, því í hvert sinn sem ég hlúi að sjúklingi og horfi í andlit hans sé ég ásjónu Jesú.”

Ef þú heldur að þú þurfir að ganga í klaustur til að öðlast þessa trú, þessa sýn þá er það misskilningur, þú þarft bara að vera manneskja sem gerir sér grein fyrir því að virðingarstigi samfélagsins er gerður af mönnum en ekki Guði. Þegar við finnum að við eigum ekkert til að gefa hvort öðru nema neikvæðar tilfinningar, andúð og fyrirlitningu þá ættum að sjá náungann sem nýfætt barn í móðurarmi, það er jú upphaf okkar allra og enginn getur haft andúð á nýfæddu barni. Við berum þvert á móti lotningu fyrir nýfæddu barni, tölum hljóðlega í kringum það, af virðingu og nærfærni. Þannig er upphaf mannlegrar tilveru, látum það upphaf verða mynd hverrar manneskju, hvar sem hún er stödd í lífinu. Látum guðspjall dagsins ennfremur kenna okkur kjarna kristindómsins og þann sannleika að við erum öll Guði háð í takmörkun okkar, því sá eða sú sem sér þann sannleika öðlast hæfni til að elska mikið. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.