Jarðeldur, krókusar, mannsbarn

Jarðeldur, krókusar, mannsbarn

Tíðindi berast. Eldgos er hafið. Jörðin hefur opnast og hún lætur lausan eld og brennistein. En jörðin leysir fleira úr viðjum en eyðandi eld.

Eldgos á Fimmvörðuhálsi

Ræðuna er hægt að lesa hér fyrir neðan. Einnig er hægt að hlusta á hljóðupptöku af ræðunni með því að smella hér.

Tíðindi berast okkur af Suðurlandi. Eldgos hófst, í Fimmvörðuhálsi milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls, rétt fyrir miðnætti í gær. Jörð hefur opnast og logandi hraun rennur. Viðbragðsáætlun yfirvalda er í fullum gangi og allt undir góðri stjórn og allir óhultir og á öruggum stað. Jarðvísindamenn hafa búist við tíðindum af þessu svæði um hríð og verið með tól sín og tæki á staðnum til að hlusta jörð og það sem á sér stað í iðrum hennar.

Stórtíðindi hafa áður verið boðuð hér á landi og úti í hinum stóra heimi. Stærri og minni tíðindi eru boðuð alla daga.

Í gær var vorjafndægur. Fjórðungur ársins 2010 er þegar liðinn og nú eru u.þ.b. þrír mánuðir til Jónsmessu og sex mánuðir til haustjafndægurs. Á fimmtudaginn kemur, 25. mars, verður Boðunardagur Maríu en þann dag verða nákvæmlega níu mánuðir til jóla. Boðunardagur Maríu er haldinn þann dag með sérstakri messu í mörgum kirkjum en sé það ekki gert er 5. sd. í föstu, dagurinn í dag, tekinn undir þema þessa merka messudags.

Boðunardagur Maríu er dagur stórtíðinda, stærstu tíðinda veraldarsögunnar. Við minnumst Maríu, konunnar sem hlaut mestan heiður allra kvenna, á öllum tímum. Hún er einstök í sögu mannkyns, konan sem tók því sem að höndum bar af æðruleysis og auðmýkt, axlaði ábyrgð sína og gekk hinn erfiða veg sem henni var markaður af því valdi sem öllu ræður og stjórnar.

María er okkur fyrirmynd á svo margan hátt. Hún hefur verið kölluð móðir trúaðra, sú fyrsta sem trúði á Jesú. Hún sýndi ótrúlegt úthald og stóð með syni sínum í öllu aðstæðum. Hún ól hann upp, kenndi honum siði og menningu Ísraelsþjóðar, sá hann vaxa úr grasi, verða að unglingi og fullorðnum manni sem var sjálfum sér samkvæmur, heill og óskiptur í afstöðu sinni til alls sem lifir. Hún sá hann hæddan af skammsýnum mönnum, negldan á kross af níðingum.

En hún sá líka kirkju hans verða til, sá hvernig boðskapur hans leysti fólk úr fjötrum og gaf því nýja sýn á veruleikann, nýja von og trú á framtíðina, á möguleika heimsins á vegi réttlætis og sannleika. Hún missti aldrei trúna á mátt þeirra orða sem sonur hennar mælti.

Við heiðrum hana hér í dag, heiðrum Maríu sem naut náðar Guðs og Drottinn blessaði á svo margan hátt. En blessun hennar var ekki bara með þeim hætti að hún væri borin sem ofdekrað barn á bómullarhnoðrum. Nei, hún fann sorgina nísta hjarta sitt, fann hvernig illska manna gat orðið algjör, eyðandi, blind – hún sem naut náðar Guðs! Hún reyndi nístandi harm í hjarta þegar hún stóð við krossinn á Golgata. En hún hafði áður reynt og séð elskuna í sinni skærustu mynd, elsku Guðs í syni sínum, elsku himinsins, elsku eilífðarinnar í afstöðunni til lífsins, til mannlífsins, til barna, til kvenna og karla, yngri sem eldri, hárra og lágra. Já, Guð auðsýnir okkur elsku sína. Boðskapur hans snart fólk þá og gerir enn vegna þess að hann hefur sannað sig að vera einstakur að dýpt, hæð og breidd. Enginn þekkti þessa elsku betur en María, móðir Guðs á jörðu.

Guð kom til okkar í Jesú Kristi. Við megum þakka fyrir það að mynd Maríu birtist í frásögnum Nýja testamentisins. Guðs sonur fæddist af konu eins og önnur börn. Hann átti móður sem bar hann undir belti, í myrkum móðurkviði. Fyrstu hljóðin sem hann nam sem fóstur voru taktfastur trumbusláttur móðurhjartans. Hið sama á við um þig og mig. Við erum eins og Jesús hvað þetta varðar. Fæðing er ferð frá myrkri til ljóss. Maðurinn stígur úr djúpi móðurkviðar, grípur andann á lofti undir vökulu auga ljósmóður og er svo lagður á brjóst móður – og jarðar. Hann kom til jarðar, vegna jarðar og íbúa hennar. Hann var í senn jarðarbarn og himinsbarn. Jesús kom sömu leið og við öll, hann á sama uppruna og við, kom frá myrkri til ljóss – hann sem var og er Ljós heimsins. Hann samsamaði sig algjörlega okkar mannlegu tilveru og varð einn af okkur. En við fáum aldrei skilið það til fulls að hann sem er Guð og skapari himins og jarðar skuli hafa hvílt í örmum jarðneskrar móður, hjálparlaus og mylktur af móðurbrjóstum. Guð þáði verndina sem hendur Maríu veittu. Guð þurfti þess með sem barn að um hann væri hugsað. Er það ekki hrein fásinna og fjarstæða að setja slíkt fram? Jú, vissulega hljómar þetta sem hrein firra ,en eins og engillinn sagði við Maríu, sem undraðist: „Guði er enginn hlutur um megn.“ (Lk 1.37) Þetta eru góð orð til að festa sér í hug og hjarta og taka með sér héðan í dag. „Guði er enginn hlutur um megn“. Taktu þessi orð með þér inn í þínar aðstæður: „Guði er enginn hlutur um megn“.

Jesús var í mynd Guðs og leit ekki á það sem forréttindi sín að vera Guði líkur. Hann lagði það allt til hliðar og gekk inn í hlutverk þjónsins og varð sem aðrir menn. Hann lægði sig og gekkst undir það hlutverk sem honum var falið og uppfyllti það allt til enda með því að deyja á krossi. Þess vegna hóf Guð hann upp og gaf honum hið æðsta nafn. Í nafni hans býr kraftur og lausn. Guð ætlar öllum mönnum að þekkja þetta nafn, nafnið Jesús. Hann stefnir að því og að sérhver tunga játi fyrir Guði þá staðreynd að Jesús Kristur er Drottinn eða m.ö.o. að Jesús hafi verið Guð á jörðu, Guð holdi klæddur og að hann ríki að eilífu (sbr. Fil 2.6-11).

Hann kom til jarðar, lifði og dó á jörðu, var lagður í jörð en jörðin lét hann aftur lausan. Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu skaltu aftur upp rísa. Í síðustu setningunni af þessum þremur eru boðuð stórtíðindi um að jörðin verði að láta laust það sem dauðinn krafðist. Af jörðu skaltu aftur upp rísa. Guð hefur í Kristi rofið hringrás örlagahyggjunnar og opnað leið til nýrrar framtíðar.

María undraðist boðskap engilsins en allt kom það fram og uppfylltist síðar. En tökum eftir því að María hafði engar sannanir fremur en aðrir. Hún varð að trúa. Hún varð að lifa í trú og trausti til þess sem hún heyrði og skynjaði djúpt í hjarta sér. Hún varð að treysta eins og aðrir. Hún treysti orðum engilsins og geymdi þau í hjarta sér, geymdi þau í níu mánuði og öll þau ár sem sonur hennar lifði jarðnesku lífi. Og lengur! Hún trúði eftir dauða hans og upprisu. Samkvæmt helgisögninni lifði hún lengi í skjóli Jóhannesar guðspjallamanns, lærisveinsins sem Drottinn elskaði. Hún á að hafa dáið í hárri elli í Efesus sem nú er í Tyrklandi en líklega var hún ekki nema 14 eða 15 ára þegar hún fæddi Son Guðs í þennan heim.

Tíðindi berast. Eldgos er hafið. Jörðin hefur opnast og hún lætur lausan eld og brennistein. En jörðin leysir fleira úr viðjum en eyðandi eld. Ég sá krókusa í gær á vorjafndægri sem kíktu upp úr moldarbeði með litskrúði sínu. Það var eins og opinberun! Tré og runnar eru farnir að bruma. Lífið er allt að vakna.

Jörð opnast. Krókusar kíkja. Börn fæðast af móðurlífi. Undur gerast alla daga og við fáum fregnir af slíku. Einhver boðar okkur tíðindi.

Er kannski engill á ferð með tíðindi til þín? Hvað undur eru að gerast í lífi þínu núna? Hvað segir engill Drottins við þig í dag? Hver er boðskapur hans til þín og mín? Þú kemst að því hvað engill Drottins boðar. Í bæn og trú fær hjarta þitt skilning á boðskap engilsins. Hlustaðu á hann. Hann er nærri.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum og frelsara. Amen.

- – -

Textaröð: A Lexía: Mík 5.2-3

Því verður þjóðin yfirgefin þar til sú hefur fætt er fæða skal. Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans snúa aftur til Ísraels lýðs. Hann mun standa sem hirðir þeirra í krafti Drottins, í mætti nafns Drottins, Guðs síns, og þeir óhultir verða. Þá munu menn mikla hann allt til endimarka jarðar.

Pistill: Opb 21.3-7

Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Sá sem í hásætinu sat sagði: „Sjá, ég geri alla hluti nýja,“ og hann segir: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ Og hann sagði við mig: „Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. Sá er sigrar mun erfa þetta og ég mun vera hans Guð og hann mun vera mitt barn.

Guðspjall: Lúk 1.26-38

En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“

En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“

Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“

Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja en Guði er enginn hlutur um megn.“

Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni