En engill Drottins mælti til Filippusar: Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa. Þar er óbyggð. Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann. Andinn sagði þá við Filippus: Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum. Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?Hinn svaraði: Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér? Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér. En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi:
Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum. Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.
Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan? Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú. Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast? Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann. En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar. En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu. Post. 8:26-40
Við trúum á Guð sem er ekki afskiptalaus um okkur heldur elskar okkur og þráir samfélag við okkur. Um þetta snýst öll Biblían og þetta er kjarninn í fagnaðarerindinu um Jesúm Krist.
Vegurinn sem lá frá Jerúsalem til Gasa var alfaraleið. Þeir sem þurftu að ferðast milli Palestínu og Egyptalands fóru hann, enda helsta samskiptaleiðin milli Afríku og Mið-Austurlanda. Þetta var því leiðin sem afríski hirðmaðurinn, fjárgæslumaður drottningar Eþíópíu, þurfti að fara í heimferð sinni frá Jerúsalem, en þangað hafði hann farið til að biðjast fyrir. Þeir voru ófáir heiðingjarnir sem heilluðust af trú gyðinga, siðferði þeirra og trú á aðeins einn Guð, skapara himins og jarðar, sem léti manninn sig miklu varða.
Það þýddi þó ekki að þeir gerðust allir gyðingar fyrir vikið. Þeir sem létu sér það nægja að sækja samkundurnar og hlýða á ritningarnar voru sagðir guðhræddir og virtir fyrir það. Þegar fjölskylda af heiðnum uppruna ákvað hins vegar skipta um trú og verða gyðingar, urðu fjölskyldumeðlimirnir að gangast undir þrjár kvaðir. Fjölskyldufaðirinn þurfti að bera fram fórn, allir karlmenn urðu að láta umskerast og allir fjölskyldumeðlimirnir þurftu að taka skírn, hvort sem um fullorðna eða ungbörn var að ræða. Í skírninni var trúskiptingurinn þveginn af syndum sínum og var ætlast til að hann héldi lögmálið upp frá því. Skírnir Jóhannesar skírara og kristinna manna eiga rætur að rekja til þessarar gyðinglegu skírnar, en kristnir menn létu sér fljótlega skírn trúskiptinga nægja og höfnuðu vægi umskurnarinnar fyrir alla trúbræður sína.
Eþíópíski hirðmaðurinn hefur án efa verið einn af hinum guðhræddu heiðingjum sem heillast höfðu af trú gyðinga en ekki gengið alla leið. Í Postulasögunni segir að engill Drottins hafi leitt Filippus á fund hirðmannsins þar sem hann var að lesa Jesaja spámann á heimleiðinni. Guð þekkir okkur óháð því hvaðan við komum eða hverrar trúar við erum. Hann veit hvers við þörfnumst og hann vill leiða alla til samfélags við sig sem eftir því sækjast. Og hann vill að við sem kristnir menn séum reiðubúnir að svara öllum þeim sem krefjast raka fyrir þeirri von sem í okkur er. (I. Pét. 3:15.)
Þegar hirðmaðurinn biður Filippus um að útskýra fyrir sér ljóð Jesaja um hinn líðandi þjón Drottins (Jes. 52:13-15, 53:1-12), fær hann tækifæri til að boða honum fagnaðarerindið um Jesúm Krist. Ljóðið um hinn líðandi þjón Drottins er að mati okkar kristinna manna einn af mörgum spádómum Gamla testamentisins um Jesúm Krist og þýðinguna bak við líf hans, krossdauða og upprisu. Þar segir: „Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi uppi munni sínum." (Jes. 53:7.)
Við kristnir menn trúum því að með þessu hafi Guð opinberað okkur kærleika sinn, elsku sína til okkar hvers og eins. Jesús Kristur var og er opinberun kærleika Guðs. Hann fórnaði sjálfum sér fyrir okkur. Guð gerðist maður af holdi og blóði í persónu Jesú Krists og sætti okkur við sig með lífi sínu, dauða og upprisu til þess að við gætum eignast eilíft samfélag við hann. Í ljóðinu um hinn líðandi þjón Drottins segir: „… hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. … hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn …" (Jes. 53:5, 10.)
Fagnaðarerindið lýkst upp fyrir eþíópíska hirðmanninum. Hann hefur sjálfur fengið að reyna kærleika Guðs og handleiðslu. Hann er kallaður til samfylgdar við Guð í persónu Jesú Krists og þess vegna vill hann skírast, verða nýr maður, kristinn. Með skírninni tjáir hann sinnaskipti sín. Sál hans og líkami eru hreinsuð og hann rís upp til samfélags við Guð í Jesú Kristi. Guð mætir honum í skírninni og gefur honum eilíft líf til samfélags við sig.
Þetta gildir einnig um okkur. Í skírninni hefur Guð frelsað okkur, gefið okkur eilíft líf til samfélags við sig. Það er undir okkur komið að þiggja þessa gjöf Guðs og gera Jesúm Krist að leiðtoga lífs okkar, að nánasta vini okkar og lífsförunaut. Guð elskar okkur, hann kallar okkur til samfélags við sig og hann leiðir okkur eftir vilja sínum ef við gefumst honum og hlýðum honum.
Hefðin segir að eþíópíski hirðmaðurinn hafi síðan boðað löndum sínum fagnaðarerindið og hafi það verið upphafið að kristinni kirkju þar í landi, einni þeirri elstu í heiminum. Okkur er einnig ætlað að boða fagnaðarerindið. Það gerum við með þeim hætti að vera tilbúnir til að svara þeim sem leita til okkar, hjálpa þeim sem það vilja, elska náunga okkar og virða þann frjálsa vilja sem Guð hefur gefið okkur öllum. Okkur ber að elska hverja aðra eins og Jesús Kristur hefur elskað okkur. (Jóh. 15:12.) Það er með þessum hætti sem heimurinn kynnist elsku Guðs.
Flutt í árdegismessu í Hallgrímskirkju, miðvikudaginn 30. júlí 2003.