Ferðasaga

Ferðasaga

Og þetta er ekki fyrsta sagan um sanna mennsku í íslenskum raunveruleika, sem á sér stað rétt fyrir jól, þær hafa með ýmsum hætti birst okkur, verða þó ekki taldar upp hér, en eru ósjaldan í formi ferðasagna er enda í einhvers konar gæsku og vonarglampa. Merkileg tilviljun, eða er það tilviljun?
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
25. desember 2012
Flokkar

Gleðilega jólahátíð!

Yður er í dag frelsari fæddur!

Nafnið fagra Frelsarans fylgi þér og hlífi, ætíð vaki auga hans yfir þínu lífi. Amen.

Ég kann afskaplega vel við aðventu-og jólatímann og prestsstarfið dregur síst úr því. Þá fæ ég að fara með með erindi sem yljar og vekur. Í víðfeðmu Laufásprestakalli á ég ósjaldan gæðastundir í bifreið minni á aðventu, þar sem ég ek á milli staða í umhverfi, sem er í meira lagi jólalegt, með hvítan feld, kjarr og bleikan himinn í dulúðlegri skammdegisbirtunni. Á leið inn í Bárðardal um daginn horfði ég á eina skæra stjörnu á litskrúðugum himni, er vísaði mér að félagsheimilinu á Kiðagili, en þar átti að halda litlujól fyrir leikskólabörn á leikskólanum Bárðargili. Stjarnan var eins og maður sér fyrir sér sjálfa jólastjörnuna og ekki dró úr stemmningunni að í útvarpstæki bifreiðar minnar hljómaði White Christmas með Bing Crosby. Bárðardalsstjarnan gaf svo jólasögunni um Jesúbarn og vitringa enn dýpri tón á litlujólunum, og þá höfðu fleiri fylgt stjörnunni í dalnum, því að sögu lokinni bönkuðu upp á kynlegir kvistir með rjóðar kinnar, ættaðir sjálfsagt úr Ódáðahrauni,og vildu dansa og tralla við jólatré og gefa mandarínur. Allt var þetta til að skapa stemmningu, gleði, eftirvæntingu, og ekki síst bjartar og glaðar minningar. Á fimm aðrar samskonar samkomur hélt ég á aðventunni. Við það komst ég í hreint og ómengað jólaskap, því það er ómögulegt annað þegar fylgst er með ungum opinmynntum andlitum áheyrenda að ævafornri frásögn frá bænum Betlehem. Á öðrum stað sagði klerkur börnunum jólaguðspjallið með loðmyndum. Þar sem loðmyndirnar voru heldur margar tókst honum að týna Jesúbarninu, það hafði fest sig við einhvern fjárhirðinn. Uppi varð fótur og fit, þar á meðal hjá sögumanni, er hélt að honum tækist aldrei að finna þessa aðalsöguhetju kristinna jóla innan um allar hinar loðmyndirnar. Barnið kom þó í leitirnar að lokum og allir viðstaddir gátu andað léttar. En lítið atvik sem þetta á litlujólum í sveitinni vekur hins vegar upp vangaveltur. Fyrir það fyrsta er vert að spyrja hver sé staða Jesúbarnsins í dag. Er það týnt eða er það þarna ennþá? Hefur það eitthvert gildi í lífi okkar? Og ef það er þarna hjá okkur ennþá, hvernig hlúum við þá að því? Ef það er týnt eða snertir okkur ekki með neinum hætti, hvað er það sem gerir það að verkum? Í raun verður hver og einn að svara þessu fyrir sjálfan sig, það er enginn sem svarar því fyrir okkur, og það er enginn sem getur sagt okkur að trúa og þá á hvað. En margvísleg skilaboð trúarleg hljóma í hverju þjóðfélagi og við vinnum misjafnlega úr þeim. Þar hefur uppeldi og uppvöxtur talsvert að segja, sumir fá að vera börn aðrir ekki, sumir hafa gengið í gegnum hindranir og ógnir aðrir síður. Lífsreynsla okkar spilar inn í og það er þekkt að reynsla fólks í lífsins ólgusjó hefur t.a.m. vakið það til trúar og til frekari vitundar um Jesúbarnið, um Orðið sem varð hold, um Guð kærleikans sem vill í fátæku barni þekkja kjör okkar og skilja þankagang okkar. Okkur býðst að bregðast við þeim skilningi, og þá er það spurningin hvernig við gerum það? Svarið við þeirri stóru spurningu hlýtur að gefa okkur einhverja mynd af því hver við erum og hvaða viðhorf við höfum til lífsins, það er jú þannig að sterk tengsl trúar- og lífsskoðana eru ótvíræð. Það hlýtur því að vera mjög brýnt að skilaboðin frá Betlehem forðum fái að hljóma sem víðast í hverri nútímasál, því annars er vart hægt að meta og vita hvað við ætlum að gera með þau nú og í framtíðinni, að því ógleymdu að þau kenna okkur að þekkja og muna eftir menningu og sögu þjóðar okkar. Það er vont að týna menningunni og sögunni, því þá týnum við svo stórum hluta af okkur sjálfum og í þeirri staðhæfingu felst enginn hræðsluáróður heldur bláköld staðreynd. Ég hef tekið eftir því að fyrir jólin dregur síst úr skoðunum fólks á kristni og kirkju. Jólasveinninn fékk reyndar aðeins meira á baukinn fyrir þessi jól heldur en jólabarnið sjálft. En í aðdraganda jóla birtast pistlar, viðtöl og ótal athugasemdir um trú-og kirkjumál, þar er vissulega að finna þá umræðu, sem orðin er nokkuð sígild um samstarf kirkjunnar við aðrar stofnanir í þjóðfélaginu, hvort kirkjuferðir barna séu réttlætanlegar og jafnvel af hverju þau félög, sem standa utan trúfélaga, mega ekki taka krossa af ölturum og hafa sínar athafnir í kirkjuhúsum. Reyndar eru skoðanirnar svo sterkar og beittar á hinum ýmsustu stöðum að margir vita hreinlega ekki hvort þeir eiga að standa eða sitja, já bara svona eins og hefur tíðkast í sjálfum messunum í gegnum tíðina, og slíkt veldur óneitanlega vissu óöryggi er getur hæglega leitt til þess að annars góð og heilnæm skilaboð trúarleg fara framhjá okkur. Öll þessi umræða er góð og gild að því leytinu til að hún sýnir að andleg málefni snerta enn landann og virðast skipta hann máli, trúin er ekki bara eitthvað sem við tökum sem sjálfsögðum hlut, enda á það ekki að vera þannig. Hins vegar getur umræðan líka verið talsvert villandi og dregið athygli frá því sem við þurfum einkum að muna eftir og það eru þau gildi, sem „nota bene“ við þurfum alls ekki að eigna kristinni trú frekar en einhverjum öðrum átrúnaði, en engu að síður birtast þau ljóslega í orðum og æði Jesú Krists, gildi eins og kærleikur, traust, réttlæti, virðing, heiðarleiki, og jafnrétti, þjóðgildi. Óhætt er að fullyrða að umrædd gildi hafi kristallast í viðbrögðum bónda nokkurs og fjölskyldu hans í Hreppunum, sem tóku á móti ungum villuráfandi manni, er var á flótta undan lögum og reglum núna skömmu fyrir jól. Hann mætti þungvopnaður á dyrnar hjá bóndanum seint um nótt, sem samkvæmt fjölmiðlum bað hann vinsamlegast að skilja vopnin eftir úti, bauð honum upp á hangikjöt og jólaköku og hlúði að honum þar til flóttamaðurinn var síðan fluttur í frekara skjól fyrir sjálfum sér og öðrum. Móttökur fjölskyldunnar fólu í sér sanna mennsku, þær sýndu ótvírætt fram á megininntak jóla, það er í raun ekkert jólalegra en þetta, þarna var ófriðnum úthýst en hlúð að mæddri sál, sem vildi ekki einu sinni gera fjölskyldu sinni það að vera ein á flótta um jólin. Og þetta er ekki fyrsta sagan um sanna mennsku í íslenskum raunveruleika, sem á sér stað rétt fyrir jól, þær hafa með ýmsum hætti birst okkur, verða þó ekki taldar upp hér, en eru ósjaldan í formi ferðasagna er enda í einhvers konar gæsku- og vonarglampa. Merkileg tilviljun, eða er það tilviljun? Betlehemsfrásögnin er líka ferðasaga, hún fjallar um ferð með markmið og tilgang og væntingar, hún fjallar einnig um handleiðslu Guðs og mikilvægi þess að á Hann sé hlustað. Hún er leiðarvísir, englar og stjörnur leiða gesti að barninu helga í jötunni, sem er í sjálfu sér skilaboð þess efnis að við tökum við því, hlúum að því og tökum mark á því, sem það stendur fyrir og það fáum við svo að sjá frekar þegar það vex upp og heldur ferð sinni áfram meðal fólksins, meðal þín og mín og kennir bæði í orði og verki þau lífsgildi, sem fá okkur til að hugsa veruleikann upp á nýtt og upplifa þann veruleika, sem er Guðs þ.e. ríki Guðs. Já, til þess er Jesúbarnið í heiminn komið, til að gefa sig heiminum þannig að heimurinn fái litið Guð, að hann kynnist því hvað það er að treysta Guði, það er traust sem leiðir síst til glötunar heldur einkum til lífs er teygir sig lengra en sjálft jarðlífið. Ég segi fyrir mig, þar sem ég get ekki sagt það fyrir nokkurn annan, að ég er ævinlega þakklátur fyrir það að hafa fengið að heyra skilaboð jóla um þetta ástarsamband Guðs við heiminn, ég er ekkert með því að segja að ferð mín í þessu lífi hafi verið og verði eitthvað sléttari og felldari en annarra, en ég hef hins vegar fengið tækifæri til að vega og meta lífið með þessi skilaboð í huga og ekki nóg með það ég hef einnig fengið tækifæri til að miðla þeim áfram til annarra, það er ekki lítið. Þess vegna hef ég m.a. ekið glaður á nýliðinni aðventu á litlujól og aðrar samkundur í fögru umhverfi prestakallsins, sem skemmir nú ekki fyrir, og bið þess að ég geti gert það um þessi jól og í framtíðinni, því það er trú mín að hér sé um að ræða ferð með markmið og tilgang. Yður er í dag frelsari fæddur. Dýrð sé Guði. Amen.