Ég er staddur í stórum hópi fólks sem komið hefur saman í ákveðnum tilgangi, örsmátt peð í aragrúa. Í mannfjöldanum ríkir mikill samhugur. Söngurinn ber með sér gleði og væntingar. Stundin er tilfinningaþrungin og ekki annað hægt en hrífast með. Hegðun hópsins er óþvinguð en greinilega fylgt ákveðnu formi, ritúali. Fólkið kemur úr ýmsum áttum. Hér eru fastagestir sem hafa jafnvel „átt“ sín sæti um langt árabil. Sum okkar hinna eru hér í fyrsta sinn, komin til að sjá og reyna, skoða og sannfærast – eða ekki.
Við höfum mismikið vit á því sem fram fer. Fyrir framan mig situr fólk sem virðist ekki alveg átta sig á því sem staðurinn og stundin snýst um. Örlítið fjær er samhent og samtaka lið sem gerir allt „rétt“, hreyfir sig á viðeigandi hátt á réttum augnablikum og fylgir öllu sem gerist. Líkamstjáningin er á hreinu. Sá svartklæddi stjórnar athöfninni. Sumum þeirra hættir til að vilja vera miðpunktar athyglinnar. Öðrum í þeim sporum hefur lærst að best fer á því að nærvera þeirra sé sem minnst áberandi. Þeir eru þjónar þess sem fram fer, ekki herrar.
Þetta er sterkt samfélag og óhugsandi annað en taka þátt í gleðinni, söngnum, stemmningunni. Við erum á sama báti, erum hluti af sama samfélagi. Ókunnugir fallast jafnvel í faðma því þrátt fyrir allt sem sundurgreinir erum við eitt: Við tilheyrum sama liði. Að stundinni lokinni heldur fögnuðurinn áfram. Um mig hríslast vellíðun og ég hlakka strax til að fara aftur, seinna. Það skiptir svo miklu máli að hitta annað fólk sem er á sömu línu, finna eininguna, eiga samfélag við þau sem eiga sömu hugsjón og þrá. Þetta er trúarleg upplifun, að vissu leyti eins og megaguðsþjónusta, dæmigerð fyrir þörf alls mannkyns að tilheyra og finna samsvörun og samsömun. Líklega hefur sú þörf aldrei verið eins æpandi og áberandi og einmitt í firringu samtímans.
* * *
Lýsingin hér á undan gæti átt við um fjölmenna útiguðsþjónustu eða kristilega vakningarsamkomu. Þó var lýst hughrifum af því að vera áhorfandi á knattspyrnuleik í útlöndum. Knattspyrnuleikurinn verður eins og helgiathöfn með formi, leikreglum, framvindu og niðurstöðu. Innan hans rúmast einnig trúarleg hugtök eins og von og vonbrigði, réttlæti og ósanngirni, sigur og ósigur.Þannig er knattspyrnan eins og táknmynd lífsins en hún er ekki veruleikinn heldur hliðarveruleiki. Knattspyrnuáhuginn er til marks um þörf okkar og þrá. Við sækjumst eftir góðum gildum en það er ekki nóg nema traustið, upprisan og lífið fylgi með.