Skiptir það umhverfið máli hver ég er?

Skiptir það umhverfið máli hver ég er?

Eins og við háskólanemar vitum eru mislitar ruslatunnur í Hámu, matsal stúdenta. Nemendur, kennarar og gestir þurfa að hugsa sig um áður en þau henda ruslinu svo það hafni í réttum tunnum.
fullname - andlitsmynd Díana Ósk Óskarsdóttir
24. janúar 2015

Eins og við háskólanemar vitum eru mislitar ruslatunnur í Hámu, matsal stúdenta. Nemendur, kennarar og gestir þurfa að hugsa sig um áður en þau henda ruslinu svo það hafni í réttum tunnum. Flokkun sem þessi hefur einnig færst yfir á heimilin en þar má til dæmis finna bláar tunnur ætlaðar fyrir pappír. Í mínu umhverfi hefur fólk andvarpað yfir þessu og fundist þetta óþarfi. Samt sem áður tekur þetta sama fólk andköf þegar það hlustar á eða les fréttir um umhverfismálin, um loftslags- og hitabreytingar og afleiðingar þeirra. Í þeirri andrá eru langflestir til í að leggja sitt af mörkum til að stuðla að verndun lofts, vatns, náttúru og ósonlags.

Samkvæmt skýrslum frá Sameinuðu þjóðunum vofir nú vá yfir heiminum, vistkerfi jarðarinnar virðist ekki þola mannmergðina og neysluna sem henni fylgir. Umhverfisspjöll, ágangur mannsins í auðlindir jarðar, bráðnun jökla, hækkandi yfirborð sjávar, hækkað hitastig, súr höf, svifryk, útblástur og losun mengandi lofttegunda, allt hefur þetta áhrif á veðurfar, fæðuskort, vaxtaskilyrði og búsvæði lífvera sem eru háðar ákveðnum umhverfisskilyrðum. En hvað getur ein manneskja gert til þess að sporna við svo yfirþyrmandi þróun?

Einstaklingshyggjan sem hefur ýtt undir að manneskja leiti inn á við og skoði flest mál út frá sjálfri sér er tvíbent hvað umhverfismálin varðar. En í ljósi hennar getur hver og einn einstaklingur gert það upp við sig hvað hann vill og/eða getur lagt af mörkum.

Í nýjustu bók sinni, Blessed Are the Consumers, spyr Sallie Mcfague lesandann hvað það þýði að vera kristinn á 21. öldinni þar sem markaðshyggja, spilling, einstaklingshyggja og neysla ríkir. Á tímum þar sem kristin guðfræði er talin, í auknum mæli, óviðeigandi og þar sem neytendur eru orðnir svo vanir lífstíl sínum að það er álíka erfitt að biðja þá um að anda minna eins og að biðja þá um að minnka neyslu sína. Þrátt fyrir áreiðanlegar upplýsingar um að það er neysla fólksfjöldans sem veldur umhverfisógninni sem nú blasir við. Samkvæmt Mcfague er óhófleg neysla orðin að eðlilegu menningar mynstri sem hjálpar fólki að finna tilgang og fullnægju í gegnum neyslu á vörum og þjónustu. Þannig má segja að neysluhyggja sé orðin eitt af stærstu trúarbrögðum heims. Mótsvar hennar er að leggja áherslu á að manneskjan fari úr neysluhyggju yfir í sjálfbærni. Stíga skref úr einstaklingshyggjunni og fara leiðir sem eru ekki endilega vinsælar. Mcfague fær lesandann til þess að taka afstöðu til þess hvort það skipti máli hver hann er og hvort þarfir hans, langanir og trú hafi eitthvað að segja þegar umhverfismálin eru skoðuð.

Að mati Mcfague er þörf á nýrri guðfræðilegri hugmyndafræði og sterkum aðgerðum í kjölfarið þar sem sköpunin og samfélög eru í útrýmingarhættu. Hún leggur til að kenótíska guðfræði. Sjálfsfórn eða öllu heldur fórn egósins. Sjálfið fær þá rými á kostnað eigingjarns hugsunarhátts. Það er sterk biblíuleg sýn að til þess að geta átt eigið líf þarf fyrst að gefa það upp. Birtingarmynd egósins gæti verið hugsunin um að geta ekki eða vilja ekki breyta eigin þægindum og ríghalda í þau þó það drepi hluta af sköpuninni. Birtingarmynd sjálfstæmingar gæti verið viljinn til þess að gefa upp ákveðna hluti lífsins, þ.e. þægindin til þess að stuðla að lífi eða betra lífi fyrir sköpun Guðs.

4Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. 5Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. 6Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. 7Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, 8lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.

Eigingjörn viðhorf um að hver og einn eigi rétt á hamingju sama hvað, er hluti af vanda nútímans. Ég er þeirra skoðunar, að naflaskoðun hvers og eins borin saman við opinbera framsetningu annarra, til dæmis á Facebook, stuðli að lágu sjálfsmati og skakkri sjálfsmynd en það gerir langvarandi kúgun og ofbeldi líka. Fólk leitast svo við að styrkja sjálf sitt með ýmiskonar neyslu.

Mcfague segir neysluna vera manneskjunni jafn eðlileg og andardrátturinn og leggur fram sögur dýrlinga til þess að sýna fram á að með einbeittum vilja geti hver og einn umbreytt lífi sínu. Ég tek undir með henni en tel jafnframt að hluti leiðarinnar sé falin í sjálfsstyrkingu þar sem sjálfið er styrkt með sjálfsmati sem kemur innan frá. Að einstaklingurinn meti sig ekki útfrá hlutum eða áliti annarra. Markaðsöflin leita sífellt nýrra leiða til þess að leggja viðmiðin sem fólk eltir, hvernig það á að líta út, hvað þarf að eiga, hvaða störf og stöður eru flottar og hvaða merki og áhugamál eru vinsæl.

Í orðræðunni tel ég mikilvægt að fjalla um blekkingu markaðsaflanna sem hafa eigin hag í huga en ekki mannlega reisn eða hið almenna góða. Það er mín trú og mannskilningur að í kjarna flestra okkar búi þrá eftir því að gera það sem rétt er. Jafnvel þó það sé ekki alltaf þægilegt að þá leiti meðvituð manneskja frekar eftir því að leggja sitt af mörkum frekar en að eltast við hégóma, þetta sjáum við til að mynda í einu dýrmætasta hlutverki mannsins, foreldrahlutverkinu.

Fréttir af sveiflum í veðri, hækkandi sýrustigi sjávar, holum í ósonlagi og því að tegundir eru nú þegar að deyja út ætti að vekja fólk til umhugsunar um að nú er tími til framkvæmda. Hver og einn getur gert sitt og verið fyrirmynd nokkurra. Smám saman breiðast athafnirnar og hugmyndafræðin út og þannig gerir margt smátt eitt stórt.

Það má því segja að hugmyndir okkar um það hver við erum, hvaða þarfir við höfum og hver trúarafstaða okkar er hafi töluvert að segja þegar kemur að umhverfismálunum.