Drauma vitjað

Drauma vitjað

Hvað er á bak við drauminn um ríkidæmi, “ógeðslega flotta íbúð,” kaup á fótboltaliði og vonina um að verða vel launaðir lögfræðingar? Draumar unga fólksins á fermingaraldri voru kortlagðir. Í ljós kom að þeir eru stórkostlegir lífsdraumar.

Morgunblaðið birti á baksíðu síðastliðinn fimmtudag mynd af hópi fermingarbarna Neskirkju á leið út í Viðeyjarferju. Yfirskriftin var “Drauma vitjað í Viðey.” Mikið rétt, öll þau sem byrjuðu fermingarfræðslu með sumarnámskeiði fóru í göngu í eynni, svonefnda eingöngu til að hugsa um vonir, hugmyndir um lífið og drauma sína.

Er mikilvægt að vitja drauma, nefna þá og rita niður? Já, en Viðey er enginn sérstakur draumastaður umfram aðra. Þeir eru alls staðar. Fólk sem leyfir sér að dreyma og setur sér markmið – stillir kompásinn sinn – nær oft markmiðum sínum að mestu og stundum öllu leyti. Draumar eru sterkir, þeir rætast, en aðeins í fólki sem vitjar drauma sinna, tjáir þá og vinnur að þeim og úr þeim.

Við viljum gjarnan, að fermingarbörn marki sér stefnu til góðs lífs, setji kúrsinn á gæði, verði sér meðvituð um, að þau geta sjálf sett sér gæðamarkmið, megi ákvarða drauminn til að geta vitjað hans. Þau hafa nú sett sér fermingarmarkmið, sem varðar stærsta já lífsins. Það er mikilvægt að minna sig stöðugt á það. Og við, sem eldri erum, þurfum líka að vitja okkar eigin innri manns reglulega, hugsa um vonir okkar og drauma og endurmeta stöðu og markmið. Að vitja drauma er upp á líf og dauða og hamingju.

Sumarnámskeið Hátt í hundrað fermingarbörn voru að störfum á sumarnámskeiði alla liðna viku. Síðan koma þau hingað í dag og með þeim foreldrar og fjölskyldur. Öll eruð þið velkomin í Neskirkju, nú og ævinlega.

Hvernig var nú þessi stóri hópur? Þau hafa verið vinnufús og snögg. Hlátrar þeirra hafa hljómað, auðvitað líka skrækir og óp, sem og kurteislegar spurningar og svör. Þau hafa gengið inn í þennan helgidóm og fræðslu með opnum huga en líka sjálfstæði. Þau hafa skrúblulaust sungið sálma og leyft bænum að fljúga. Flatirnar í kringum kirkjuna urðu lífsins tún. Hópurinn small saman. Þau, sem voru uppburðarlítil á mánudegi, voru brött á föstudegi. Svo þurfti að slíta nokkrar fjaðrir af þeim sem voru eins og fuglar í tilhugalífsdansi og þörfnuðust mikillar athygli. Auðvitað þurftum við stundum að byrsta okkur og það hvein jafnvel í. Þau lærðu margt. Þau vita að fjórða boðorðið hljóðar ekki svona: Fóðra skaltu föður þinn og móður! Það er um að heiðra, ekki hlýða heldur virða og eiga jákvæð samskipti við. Þau þekkja núna trúarjátninguna og vita að þar er ekki sagt, að Jesús hafi sigið niður til heljar og risið upp á þriðjudegi. Þau hafa flest fengið dýpri skynjun. Það var gaman að vera með þeim á vegferð skilningsins og trúarþroskans.

Friðrik Prússakeisari á að hafa sagt á sínum tíma, að því betur sem hann kynntist mönnunum því betur kynni hann að meta hundinn sinn! Ég segi öfugt við þá yrðingu: Því fleiri ungmennum, sem ég kynnist í Vesturbænum því styrkari verður trú mín á framtíð þjóðarinnar. Þið foreldrar fermingarbarna megið vera stolt af ykkar fólki. Þið fermingarkrakkar eruð frábær - alger draumur.

Þrá fermingarbarna Hvað þrá fermingarbörn hér í Nessöfnuði mest? Þau skrifuðu niður og að óreyndu hefði mátt ætla að svörin yrðu sundurleit. Þau svöruðu flest með einlægni og sýndu, að þau bæði bera virðingu fyrir sjálfum sér og hinu kirkjulega samhengi. Bara tveir sneru út úr. Kannski er það tákn um, að einhver í þessum hópi eru í hættu með að taka hvorki líf sitt né annarra alvarlega?

Auðvitað var margt kúnstugt, sem kom fram. Einn vildi leggja stund á hasaríþróttir og tveir nefndu drauminn um að verða mjóir og sætir. Fjögur vildu verða frægir skemmtikraftar. Óskin um að ná tveggja metra hæð kom fram! Einn vildi feta í fótspor Eggerts og Björgólfs og eignast fótboltalið! En ekki kom þó fram hvaða lið! Hefðbundin draumastörf kynjanna eru á undanhaldi og menntunareinbeitnin skýr. Atvinnumenn og afreksmenn í íþróttum verða 10 í þessu draumaliði Nessóknar. KR þarf ekki að örvænta í framtíðinni. 15 verða læknar ef allt gengur eftir, 4 dýralæknar, 11 listamenn í ýmsum greinum, 1 forseti, nokkrir vellaunaðir lögfræðingar, svo og sálfræðingar, flugmenn, veitingamenn og vissulega er þarna einn sem vill vera prestur. Velkomin í hópinn! Sjö vilja verða góðar manneskjur og er það ekki dásamleg stefna fyrir lífið?

Nokkur kvíða Hagaskólanáminu og um fjórðungur óskar að veran þar verði skemmtileg og til góðs. 

Gæðin

Og hvað svo með hin dýpri gæði, sem boðuð eru á sumarnámskeiði, í starfi kirkjunnar, prédikun og á kyrrðarstundum sálgæslunnar? Þau voru 24 sem nefndu, að þau vildu verða rík. 15 vildu eignast stórt og gott hús eða “ógeðslega flotta íbúð” eins og stóð á einu blaðinu. Hið merkilega er, að samfara fjársókn kemur líka fram hjá börnunum sterk umhyggja gagnvart öðrum börnum þessarar jarðar. Nánast sami fjöldi og sækir í ríkidæmi vill, að allir hafi nóg og geti sinnt grunnþörfum sínum, að stríð hætti og börn jarðar fái notið friðar. Náttúruvernd var oft nefnd. Siðferðis-vitund og áhersla er því greinileg. 

Fjölskyldan og hamingjan En hvað skyldi vera það, sem oftast er skrifað? Svarið er: Hið góða líf, góð fjölskylda, góður maki, góð menntun, börn og hamingja. Hver miðinn á fætur öðrum, tæplega 70%, tjáir þær langanir að fjölskyldan verði hamingjusöm, öllum líði vel og að í framtíðinni verði góður maki og gjöful fjölskylda. “Mig dreymir um góða fjölskyldu.” “Mig dreymir um að vera glöð í framtíðinni.” “Mig dreymir um góða menntun og góða fjölskyldu.” “Mig langar í hamingju og börn.” “Mig dreymir um að vera hamingjusöm til æviloka.” “Mig dreymir að eignast góðan mann.” “Mig dreymir um að finna fyrir þeirri umhyggju og ást sem ég finn fyrir núna allt mitt líf.” Er þetta ekki undursamlegt?

Æfum elskuna – iðkum hamingju Fermingarbörnin 2008 eru fjölskyldu- og hamingju-fólk. Draumarnir eru raunverulegir og draumablöðin, sem voru skrifuð af fullri alvöru út í Viðey á miðvikudaginn var, voru lögð á altarið áðan. Fyrir þeim mun sr. Örn Bárður biðja í almennu kirkjubæninni. Sem foreldrar þurfum við að staldra við og spyrja um þarfir, stöðu og stuðning. Við þurfum að staldra líka við og hætta að hafa áhyggjur af dótinu, sem markaðssamfélagið vill dengja yfir okkur öll.

Unglingurinn þinn þráir góða fjölskyldu, góða menntun, góða framtíð, návist, umhyggju, hamingju en ekki dót. Kannski er það íhugunarvirði þennan vetur. Æfðu þig í elskunni. Iðkaðu hamingjuna heima fremur en að úthella þér í að vinna fyrir útgjöldum vegna fermingar. Taktu tíma til að sitja við eldhúsborðið til að hjala og spjalla, tíma fyrir flæði elskunnar. Það eru mestu og bestu gjafirnar, sem barnið þitt þráir. 

Miðjan

Við spyrjum fermingarbörnin gjarnan hver sé miðjan í kirkjunni. Þau hugsa hratt og svara snarlega að það sé kross og borð. Já, borð er miðja kristinnar kirkju. Veruleiki borðsins er, að fólk kemur saman, að elskan teygir sig til annarra, að þeim er boðið inn í hringinn, meðteknir, viðurkenndir sem eru boðnir til veislu og til borðs. Þannig er veruleiki Guðs. Guð býður elsku sína, býður viðurkenningu sína, býður til sambands við sig. Guð hefur tíma, ber í sér þessa elsku, kann að hlusta á þig og vill stuðla að því að draumur þinn rætist. Draumar þessa stóra hóps hér í dag eru merkilegir. Bandarískur háskólakennari sló fram fyrir skömmu, að sá veruleiki sem við upplifðum væri kannski ekkert annað en sýndarveruleiki fullkominna tölvukerfa. Þetta er gömul hugsun í nýjum búningi. Við erum hluti af draumum, sem eru í vitund Guðs.

Guð dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður verði hamingjusamur, njóti elsku, njóti allrar þeirrar spennu elskunnar, sem möguleg er. Þess vegna störfum við hér, bjóðum þér til þessarar himnesku veislu, sem við köllum altarisgöngu. Þar gengur þú inn í draum Guðs um elskuna, um hamingjuna, um vonina, trúna. Þar gengur þú inn í drauminn þar sem allt er mögulegt og þú ert elskaður og elskuð. Þar er magnaðasta draumaverksmiðja raunveruleikans og framtíðarinnar.

Amen

Hugleiðing við lok sumarnámskeiðs fermingarbarna í Neskirkju 19. ágúst 2007.