Ísland – best í heimi?

Ísland – best í heimi?

Aðeins 40% íslenskra ungmenna eiga reglulegar samræður eða spjallstundir við foreldra sína. Í samanburði við 27 önnur lönd, nýtur Ísland þess vafasama heiðurs að vera í fimmta neðsta sætinu á listanum, einungis foreldrar í Þýskalandi, Rússlandi, Lettlandi og Ísrael gefa sér minni tíma til viðræðna við börn sín.

Við Íslendingar erum þess fullvissir að hér land okkar séu í hópi þeirra bestu hvað varðar búsetuskilyrði. Mengun er hér lítil, vatnið tært, þjóðin góð, börnin glöð og svo mætti lengi telja. Yfirleitt er þessum fullyrðingum skellt fram án frekari rökstuðnings og oft byggðar á tilfinningum eða þjóðerniskennd einum saman. Það er því gott og gagnlegt þegar hlutlausar rannsóknir eru gerðar á stöðunni hér á landi og þær bornar saman við stöðuna í nágrannaríkjum. Í síðasta mánuði kynnti Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna nýja skýrslu þar sem er að finna niðurstöðu slíkra rannsókna sem tóku fyrir stöðu barna í ríkustu löndum veraldar.  Þegar Ísland er skoðað sérstaklega í samanburði við önnur er land er margt merkilegt sem kemur í ljós. Við getum að mörgu leyti verið stolt af þeim aðstæðum sem við bjóðum unga fólkinu upp á, íslensk börn eru mjög heilsuhraust miðað við börn samanburðarlöndunum, tíðni ungabarnadauða er langlægst hér, menntun hefur aukist frá fyrri árum og níu af hverjum tíu íslenskum unglinum neyta oft í viku máltíðar með foreldrum sínum. Þar eru okkar ungmenni í öðru sæti, á eftir Ítölum sem eru einmitt þekktir fyrir sterk fjölskyldutengsl.

Hins vegar birtir skýrslan okkur einnig nokkra neikvæða þætti, sem eru verðir umhugsunar. Aðeins 40% íslenskra ungmenna eiga reglulegar samræður eða spjallstundir við foreldra sína. Í samanburði við 27 önnur lönd, nýtur Ísland þess vafasama heiðurs að vera í fimmta neðsta sætinu á listanum, einungis foreldrar í Þýskalandi, Rússlandi, Lettlandi og Ísrael gefa sér minni tíma til viðræðna við börn sín. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur einnig fram að mun fleiri 15 ára ungmenni eru einmanna hér á landi og ,,utangátta” en jafnaldrar þeirra í samanburðarlöndunum. Það má gera ráð fyrir að orsakasamhengi sé á milli þessara tveggja þátta, þær fáu stundir sem foreldrar verja með börnum hafi áhrif á hvernig börnunum líður í daglegu lífi.

En hverjar skyldur orsakir vera fyrir því að börn og foreldrar hér á landi verji svona litlum tíma saman í spjalli og skemmtun? Það er jú ljóst að íslenskt þjóðfélag hefur breyst á undanförnum árum og áratugum. Byggðaþróun og breyttir atvinnuhættir hafa breytt meir en margan grunar. Af þeim sökum hafa orðið talsverðar breytingar á fjölskylduháttum og fjölskyldugerð á þann veg að tengsl foreldra og barna eru mun minni og flóknari en í gamla sveitasamfélaginu. Keppni eftir veraldlegum gæðum hefur aukist, íslenskir foreldrar vinna meira en flestir aðrir og því er tíminn takmarkaður til samskipta og góðra stunda inni á heimilinu. Einn angi þessara breytinga birtist svo í aukinni tækni- og tölvunotkun barna og ungmenna sem hefur geysileg áhrif á samskipti innan fjölskyldna. Þrátt fyrir alla jákvæða þætti sem tölvur og tækni bera með sér, skapa þau ákveðin vandamál eins og fréttir síðustu misseri um netfíkn unglinga hafa sýnt okkur.

Í ljósi stöðunnar er eðlilegt að velta upp mögulegum lausnum á vandamálinu, því það hlýtur jú að vera hagsmunamál allra að atlæti og líðan íslenskra barna og unglinga sé sem best. Hér væri auðveldast að segja að foreldrar þyrftu einfaldlega að fækka vinnustundum og nýta tímann til að hlúa betur að börnum sínum. Það er þó hægara sagt en gert, enda eru fáir sem ráða sjálfir sínum vinnutíma og oft er erfitt að segja nei við yfirvinnu, bæði af fjárhagslegum ástæðum og eins gagnvart vinnufélögunum þar sem einhver þarf jú að sinna vinnunni. Fyrir nokkrum árum setti Þórhallur Heimisson fram athyglisverða og jafnvel vel framkvæmanlega hugmynd um úrlausn. Lausnin felst í því að móta jákvæða fjölskyldustefnu á hverjum vinnustað. Með því væri hægt að brjóta upp neikvæðan vítahring vinnu og fjölskyldu sem kemur niður á öllum þegar til lengdar lætur. Íslenskir foreldra eiga það sammerkt með foreldrum um allan heim að börnin eru dýrmætustu gjafir þeirra og þeir vilja gera þeim allt hið besta. Foreldrar og fyrirtæki ættu því að taka höndum saman til að vinna að slíkri stefnu, samfélaginu til heilla, börnunum til blessunar.