Ljósmetið okkar

Ljósmetið okkar

„Hver óskar sér þess á banabeðinu að hafa unnið meira?“ Svona hljóðaði spurning blaðamanns í upphafi greinar í Morgunblaðinu nú á dögunum. Umræðuefnið var kunnuglegt: Á það var bent hve miklu máli samverustundir okkar með börnunum okkar skipta og hverju við fáum til leiðar komið í uppeldinu.

Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.

Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.

Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.

Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. Mt. 25.1-13

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér; vaka láttu mig eins í þér. Sálin vaki, þá sofnar líf, sé hún ætíð í þinni hlíf.

„Hver óskar sér þess á banabeðinu að hafa unnið meira?“ Svona hljóðaði spurning blaðamanns í upphafi greinar í Morgunblaðinu nú á dögunum. Umræðuefnið var kunnuglegt: Á það var bent hve miklu máli samverustundir okkar með börnunum okkar skipta og hverju við fáum til leiðar komið í uppeldinu.

Áleitin spurning

Spurningin er áleitin í þessu sambandi því hún snýst ekki bara um það hvernig við röðum verkefnum í forgang í okkar lífi heldur sendir hún okkur skyndilega fram í tímann til þess tíma þegar við erum komin að síðkvöldi ævi okkar og rennum yfir lífshlaupið. Hvaða hugrenningar sækja þá á og hversu sátt ætli við séum við þau svör sem spurningar okkar vekja?

„Valdið gilt“

Innan ramma kristinnar trúar leiðum við stöðugt hugann að lífsháttum okkar og afstöðunni til náungans og í ljósi trúarinnar gerum við upp ævina og kveðjum ástvini. Nánast við hverja útför hér á landi syngjum við sálm Hallgríms Péturssonar Um dauðans óvissan tíma og það hvernig kristinn maður undirbýr sig í öllu sínu lífi til þess að geta gengið á fund skapara síns þegar dagar hans í þessu jarðlífi eru allir. „Dauði ég óttast eigi,“ segir Hallgrímur, „afl þitt né valdið gilt. Í Kristí krafti eg segi, kom þú sæll þegar þú vilt.“ Þessi orð hans þekkjum við og boðskapur þeirra er skýr. Kristinn maður mætir dauða sínum af reisn og trúartrausti. Og hann leitast við að haga lífi sínu með þeim hætti að þegar slátturmaðurinn slyngi sviptir okkur burt úr þessu lífi – á snöggu augabragði – þá erum við reiðubúin.

Hallgrímur talar um það að geta dáið með reisn. Hann horfir til þess hvernig menn geta kvatt þennan heim í sátt við örlög okkar og það hvernig við höfum varið þeim tíma sem okkur hefur verið úthlutaður. Slíkt er í raun spurningin um það með hvaða hætti við lifum þessu lífi okkar.

Hvað hugsum við um á dauðastundinni? Unnum við nóg? Söfnuðum við nógu? Unnum við kannske of mikið og eigum við of mikið af því sem skiptir okkur of litlu og skilar okkur of litlu og gefur okkur svo lítið.

Viska og fávísi

Í guðspjalli dagsins er talað um visku og fávísi. Þar er líka fjallað um undirbúning og óvissu um það hvenær stundin rynni upp sem minnir óneitanlega á sálminn hans séra Hallgríms. Meyjarnar tíu skiptust í tvo hópa eins og segir í sögunni. Fimm þeirra höfðu í fórum sínum forða sem nýttist þeim vel þegar á reyndi. Hinar fimm höfðu engu slíku safnað og tilraun þeirra til þess að bæta þar úr bar því miður ekki árangur því þá var allt orðið um seinan.

Þessi frásögn er margræð og reyndar dæmi um biblíusögu sem talar inn í aðstæður samtímafólks og þær hefðir sem það þekkti til. Meyjarnar höfðu að öllum líkindum það hlutverk að fagna brúðgumanum þegar hann kæmi út úr húsi foreldra sinna og fjölskyldurnar búnar að ganga frá öllum samningum sem lutu að hjúskapnum. Þá gátu veisluhöldin hafist og stóðu þau yfir í nokkra daga. Undanfari þeirra var sá að innan frá húsinu var hrópað að von væri á brúðgumanum og um leið og hann birtist áttu meyjarnar utan fyrir að hefja fagnaðarlætin.

Brúðguminn lætur bíða eftir sér og á meðan sofna þær, blessaðar, fyrir utan dyrnar. Þegar svo hrópið kom um miðnætti reyndust fimm þeirra ekki eiga næga olíu eftir á lömpum sínum. Og eftir að þær höfðu þeyst af stað til þess að kaupa meira ljósmeti birtist brúðguminn og fylgdu hinar fimm honum að húsi hans.

Frásögnin breytir um svip

Skyndilega verður frásagnarmátinn kaldur og fjarrænn. Frá því þegar talað er um eftirvæntinguna og himnaríkið sem í vændum var endar sagan á harðneskjulegum nótum: „Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.“ segir brúðguminn við þær fávísu sem þær höfðu þó beðið eftir svo lengi. Í einni svipan skynjum við þá ónotakennd sem grípur um sig þegar allt er um seinan. Stundin er runnin upp og hinn sígilda afsökun að tíminn hefði ekki verið nægur, hugsunarleysið slíkt og annríkið með þeim hætti að ekki var unnt að gera allar ráðstafanir – hrekkur skammt.

Áminningin

Hvernig ber að túlka þessa sögu? Vissulega er niðurlagið nöturlegt og brúðguminn vísar þeim út í nóttina. Hann skilur þær eftir í myrkrinu. Niðurlagið er sett fram í áminningartóni: „Vakið, því þér vitið ekki daginn né stundina.“ Orðin beinast að okkur. Verið stöðugt viðbúin því sem kemur. Vertu reiðubúinn stundinni þegar hún rennur upp því þú veist ekki hvenær hún verður. Meyjarnar og ólík hlutskipti þeirra leita á hugann við lesturinn. Og það sem skildi að þær fávísu og þær hyggnu, sem viðbúnar voru: Olían á lampanum, sjálft ljósmetið. Er það ekki sá sarpur sem við höfum sankað að okkur, lífsgildin sem við búum að hugarþelið sem við höfum tamið okkur?

Með þessum hætti hefur kristin kirkja leitast við að miðla þeim boðum til umhverfis síns að stunda af natni þá list sem lífið er. Þar má ekki kasta til höndunum, hvort sem það lýtur að því hvernig við verjum dögunum sem okkur eru úthlutaðir eða hverju við miðlum áfram til þeirra sem eru á upphafsreitum sinnar ævigöngu. Er það ekki að ástæðulausu. Og eftir því sem aðrir áhrifavaldar sækja inn á þau svið sem kirkjan hefur svo lengi höfðað til skynjum við hve hætt er við því að illa sé farið með þessa dýrmætu auðlind.

Ljósmetið okkar

Olían á lampana er sjálft ljósmetið og ljósið sem upp af því sprettur er það sem einkennir líf okkar. Er boðskapur sögunnar ekki sá að af gildismatinu, trúnni og því hvernig við höfum lagt rækt við þá þætti – af þeim sprettur kærleikurinn sem lýsir upp nóttina og lætur okkur í sátt skilja við þennan heim? Þetta vill kirkjan rækta og koma á framfæri til umhverfis síns.

Uppeldið er þar ekki lítill þáttur og hefur framlag kirkjunnar til þess að miðla góðum fyrirmyndum, heilbrigðri lífssýn og jákvæðum lífsgildum inni í einstaka grunnskólum landsins mætt hörðum viðbrögðum hjá fámennum hópum. En þetta starf skilar árangri enda er þar talað inn í hóp sem þyrstir í skýr skilaboð þar sem með afdráttarlausum hætti er miðlað og uppbyggilegum boðskap er komið á framfæri.

Listin að deyja

Á miðöldum var heill bókaflokkur helgaður þessari lífsspeki: Listin að deyja var hann kallaður byggði á því að hvetja lesandann til þess að lifa lífinu með þeim hætti sem bestur var – að nýta tíma sinn hverfula til fullnustu. Og enn í dag kemur það fyrir að áminnandi rödd spyr okkur hvernig við erum undir þann tíma búin: Hver spyr sig á dánarbeðinu hvort hann hafi eytt nógu löngum tíma í vinnunni? Líklega eru þeir fáir sem gera það. Líklega eru það aðrar spurningar sem sækja á. Hvernig lífi hef ég lifað? Hverju hef ég breytt? Hvernig skil ég við mig? Hverju hef ég miðlað?

Aðventan

Nú er næstsíðasti sunnudagur kirkjuársins og aðventan er framundan. Kristnir menn hafa nýtt þá tíð til þess að undirbúa sig að kostgæfni fyrir komu frelsarans. Sú bið er sama marki sprottin og svo margur annar undirbúningur sem við leggjum fyrir okkur í lífinu. Oft er það svo að við verjum honum illa eða einbeitum okkur að þáttum sem eru sannkallað aukaatriði. Við eigum að taka á móti frelsaranum á fæðingarhátíð hans vel byrg ljósefni.

Fyrir kristnum manni verður dauðinn ekki ósigur hrörnunar og myrkurs. Fyrir kristnum manni verður hann frekar eins og þegar brúðguminn birtist og byrðir okkar af ljósmeti eru engu nær þrotnar. Líkt er um himnaríki og þeim viðburði. Rétt eins og Hallgrímur bauð dauðann velkominn á þeim óvissa tíma sem honum hentaði að vitja hans eigum við að lifa svo lífi okkar að við getum gert það upp í sátt. Eilífa lífið fyrir Hallgrími er það að Kristur hefur tekið í burtu dauðans bitra brodd og unnið þann sigur sem er hverjum manni fagnaðarefni.