Að láta leiðast og leiða

Að láta leiðast og leiða

Í gegnum ævina hefur mér gengið misvel að skilja ýmislegt varðandi kristindóminn og er víst ekki einn um það. Öðrum þræði er fólk hvatt, í Nýja testamentinu, til að haga sér vel á allan hátt en á hinn bóginn er það ávítað harðlega fyrir að vera upptekið af hegðun sinni og að reyna að gera betur en samferðafólkið.

Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur. Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða. Þá sagði hann þeim og líkingu: Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín? Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. Lk.6.36-42

Í gegnum ævina hefur mér gengið misvel að skilja ýmislegt varðandi kristindóminn og er víst ekki einn um það. Öðrum þræði er fólk hvatt, í Nýja testamentinu, til að haga sér vel á allan hátt en á hinn bóginn er það ávítað harðlega fyrir að vera upptekið af hegðun sinni og að reyna að gera betur en samferðafólkið.

En það er ekki endilega jákvætt að vera laus við heilabrot yfir atriðum sem virðast mótsagnakennd í trúarlærdómunum. Ef slíkur vandi rekur okkur til að hugsa og leita skynsamlegra svara þá verður hann til góðs og eflir skilning okkar og þroska. Kenningar trúarinnar verðum við hvert og eitt að taka til nokkurrar skoðunar ef þær eiga að verða okkur lifandi veruleiki en ekki áhrifalítill utanbókarlærdómur.

Hin líflega kennsla Jesú frá Nasret, eins og hún birtist í guðspjöllunum, hvetur okkur til að skoða og íhuga frá ýmsum hliðum líf okkar og breytni og trúarsamfélag okkar við Guð.

Góð breytni eða Guðs náð En ég var að tala um að því er virðist tvíræða áherslu Jesú á góða breytni. Jú, í orðum guðspjallsins í dag er áherslan á miskunnsemi og góða breytni gagnvart náunganum. Áður en við skoðum þessi vers nánar er rétt að huga að varnaðarorðum um áherslu á rétta breytni. Jesús varar ítrekað við því að fólk byggi guðssamfélag og hinstu lífsvonir á því að standa sig vel. Á því að fylgja alls kyns boðorðum og reglum. Það er einmitt eitt helsta einkenni kirkjudeildar okkar að halda þessum viðvörunum á lofti og benda á að réttlæti okkar frammi fyrir Guði hvílir ekki á góðum verkum heldur náð Guðs og fyrirgefningu.

Þeirri trúaráherslu sem kennd er við verkaréttlæti eða lögmálsverk er hafnað en á það minnt að Nýja testamentið kenni að góð verk skulum við vinna, ekki til að ávinna okkur einhver stig gagnvart Guði heldur í þakklæti fyrir kærleika Guðs sem birtist okkur með margvíslegum hætti.

En hvers vegna megum við ekki vinna góð verk í von um einhvers konar guðleg laun. Jú, sú afstaða grefur undan guðssamfélagi okkar og getur einnig ógnað samskiptunum við náungann. Að byggja á eigin góðmennsku og afrekum leiðir okkur inn í blindgötu. Við lokum fyrir vitundina um að vera háð góðum Guði og kærleika hans. Sjónir okkar beinast frá því að taka við því sem Guð vill gefa okkur en einhliða að okkar mannlegu möguleikum. Þessi vegur liggur frá guðstraustinu og innilegu trúarsamfélagi við Guð og hann liggur niðurá við. Ef við erum heiðarleg gagnvart okkur sjálfum, á þessari sjálfsbetrunarleið, þá sjáum við ýmsa bresti okkar og finnum hve vonlaust það er að sýna þann kærleika sem við og aðrir krefjast af okkur, að ekki sé minnst á samanburð við kærleika Guðs. Við hljótum að brotna niður og enda í einhvers konar vonleysi. Hitt er líka til að fólk í trúarlegri sjálfsbetrun álíti sig ná góðum árangri. Þetta átti við um farísea fyrstu aldarinnar og auðvelt er að finna hliðstæður á okkar tímum. Að finna sig standa sig vel gagnvart vilja Guðs leiðir til hroka sem skemmir samfélagið við Guð og menn og er eitt einkenni þess að vera ekki á réttri leið í andlegum efnum.

„Dæmið ekki“

Eitt af einkennum andlegs hroka er dómsýki sem oft tengist því sem sálfræðin nefnir frávarp. Það er að fólk yfirfærir á aðra þær skugghliðar og bresti í eigin lífi sem það getur ekki horfst í augu við. Það virðist líka átakaminna að reyna að breyta öðrum heldur en sjálfum sér. Hér erum við víst komin að áhersluatriði í guðspjallinu – viðvörun gegn dómhörku.

Við munum orð guðspjallsins og sams konar áherslu Páls postula í bréfi hans til Rómverja. Jesús segir: „Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða.“ Og ennfremur: „Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín?“

Almennt hættir okkur til að taka betur eftir brestum og mistökum annarra en eigin ávirðingum. En því er við að bæta að þessi hætta eykst þar sem trúarlíf byggir í reynd á því að standa sig vel. Og slík trúarhugsun laumast oft að okkur án þess að við gerum okkur þess fulla grein.

Umhverfi okkar ýtir undir slíka hugsun. Í okkar daglega lífi þurfum við að vinna fyrir öllu – jafnvel kærleikur og umhyggja eru sjaldnast alveg ókeypis. Við fáum sjaldnast meira en við vinnum fyrir. Við þurfum því sífellt að minna okkur á eða fá áminningu um að þetta lögmál gildir ekki gagnvart Guði. Guð elskar okkur að fyrrabragði og vill okkur allt hið besta. Við hvorki þurfum né getum unnið okkur inn velvild hans. Við getum ekki klifrað til hans með góðri breytni.

Þegar reynt er að byggja trúna á betrun þá leiðir það jafnan til samanburðar við aðra því viðmiðin sem Jesús gefur eru svo erfið að freistandi er að þykjast ná árangri með því að benda á aðra sem standi sig ver.

„Verið miskunnsamir“

En þegar betur er að gáð þá hvetur guðspjallið ekki til betrunar með því að fara eftir einhverjum reglum og alls ekki þannig að einhver geti hrósað sér af árangri í hroka. „Verið miskunnasamir“ – segir Jesús. Við erum hvött til kærleika og umburðarlyndis og þar með að varast dómhörku. „Hvort fær blindur leitt blindan?“ Minnumst þess að við getum ekki leiðbeint um þann veg sem við rötum ekki sjálf. Enn er verið að undirstrika að við horfumst í augu við eigin bresti og séum opin fyrir því að þiggja leiðsögn og hjálp Guðs og manna. Við getum ekki leitt nema að því marki sem við erum leidd um réttan veg.

Annars er almennt mikillar gætni þörf við að leiða aðra í trúarefnum og leiðbeina í persónulegum málum. Því miður getur slík leiðsögn orðið að skaðlegri drottnun yfir fólki sem beinlínis hindrar þroska þess og skaðar guðsmyndina. Dæmi um það væri auðvelt að finna í fortíð og nútíð.

Hér er í sumar verið að minnast 900 ára afmælis biskupsstóls á Hólum en árið 1106 fengu Norðlendingar sérstakan biskup, Jón Ögmundarson sem kallaður var hinn helgi, en þetta biskupsdæmi hefur nýverið verið látið ná yfir Austurland einnig. Margir góðir biskupar hafa héðan leitast við að leiða fólk um réttan veg í trúarefnum og telja kjark í þjóðina á erfiðum tímum. Dæmi um góða leiðsögn þar sem áherslan hefur ekki verið á drottnun heldur að styðja fólk til að auka þekkingu á hinum góða vegi er t.d. hin mikla og góða útgáfustarfsemi Guðbrands Þorlákssonar biskups sem hér gaf út Biblíuna árið 1584 og einnig margt annað uppbyggilegt. Nefna má af handahófi hinn sérstæða biskup hér Guðmund Arason á 13. öld er kallaður var hinn góði og Gvendarbrunnarnir eru kenndir við. Hann, þó umdeildur væri, lagði verðuga áherslu á kærleika og þá sérstaklega í garð þeirra sem minnst máttu sín. Kirkjusýn hans var kirkja sem gengur með hinum smáu og smáðu.

Að ganga með fólki

Að ganga með fólki er einmitt líkingin sem notuð er um „andlega leiðsögn“ aldagamla hefð sem endurvakin hefur verið síðustu hálfa öldina á Vesturlöndum. En í hraðfara fjölhyggjuþjóðfélagi nútímans er vaxandi þörf fyrir leiðsögn sem veitt er af virðingu fyrir fólki og skilningi á því að hver og einn vex best og þroskast með því að vinna úr eigin reynslu. Höfð er í heiðri leiðsögn Jesú sjálfs sem fordæmdi ekki fólk sem til hans leitaði, hvernig sem verkum þess var háttað, og laðaði fólk til hins góða en þvingaði ekki. En megin forsenda þess að geta leitt aðra á einhvern hátt hlýtur alltaf að vera að njóta þess að vera sjálfur leiddur. Njóta handleiðslu Guðs og góðra manna og leyfa orði Guðs að tala til sín.

Fyrst minnst var á hefð andlegrar leiðsagnar má geta þess að innan þeirrar hefðar er ekki einhliða áhersla á orð Guðs sem úrskurðarvald um rétt og rangt þó sannarlega sé ekki dregið úr áherslunni á kærleika, miskunn og réttlæti. En mikið er lagt upp úr því að íhuga Guðs orð, gjarnan í tengslum við bæn, þannig að það tali inn í reynsluheim viðkomandi, tali til tilfinninganna og stuðli að innri sátt og veki löngun til hins góða í vitund um kærleika Guðs. Og vitundin um kærleika Guðs nærist á því að skynja hann að starfi í lífi okkar og í hans góðu sköpun þrátt fyrir allt sem miður fer. Það er mikils virði að líta stundum til baka í lífi sínu – yfir liðinn dag eða tímbil í ævi okkar og spyrja eftir handleiðslu Guðs og þakkarefnum. Og hér verður í sumar, með ýmsu móti, litið til baka yfir sögu liðinna alda og horft eftir handleiðslu Guðs í blíðu og stríðu.

Þessi svokallaða andlega leiðsögn tengist gjarnan kyrrðarstarfi sem er einn af vaxtarbroddum kirkjulífs í landi okkar og nágrannalöndum. Kyrrð og íhugun efla dómgreindina en í kyrrðinni koma líka upp í hugann mál sem tekist hefur að bæla niðri í önn hversdagslífsin, mál sem gott er að geta rætt við einhvern sem kann að hlusta fordómalaust - mál sem kunna að hefta þroska okkar og lífsfyllingu ef ekki tekst að vinna úr þeim.

Ekki óskyld hinni andlegu leiðsögn er starfshandleiðsla og einhvers konar sálgæsla kirkjulegs starfsfólks sem lengi var Akkilesarhæll kirkju okkar en farið er að sinna á síðari árum þó betur megi ef duga skal.

Að kirkjan okkar njóti leiðsagnar orðs Drottins, þannig að það verði ritað á hjörtu manna og rækti með sér næmleika á vilja Guðs, ætti að vera bænarefni okkar. Aðeins þannig getur hún með Guðs hjálp verið vekjandi og leiðbeinandi rödd í samtíð okkar og megnað að leiða nýjar kynslóðir eftir hinum góða vegi sem liggur til eilífs lífs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.