Ræfildómur?

Ræfildómur?

Annar opinberaði dramb - hinn baðst miskunnar og fór heim með lífsdóm. Annar var með bólgið egó en hinn útflatt. Annar var hrokagikkur, en hinn í rusli. Mynd af þér?

Vinkona okkar hjóna er fimmtug í dag. Ég hef gert að venju minni að nota tímamót til íhugunar og stórafmæli eru sannarlega mikilvægir áfangar. Hvað einkennir vinkonu okkar og minningar um hana þyrluðust upp. Ein var um tónleika, sem hún og vinahópurinn sótti. Hljómsveitin var stórkostleg og söngvararnir á heimsklassa. Eitthvað var þó að og eftir tónleikana fórum við að ræða líðan okkar á tónleikunum. Flest sögðu, að aðalsöngvarinn hefði ekki staðist væntingar. Af hverju? Þá kom að vinkonu okkar sem er best að sér í músíkfræðunum. Hún sagði með íhugul: “Getur verið, að söngvarann hafi skort auðmýkt?”

Og þá small allt saman, þar var skýringin komin. Söngvarinn hafði belgt sig, hann söng sjálfum sér til dýrðar. Hann hafði ekki útgeislun heldur inngeislun! Hann var sér ekki meðvitaður um að hann hreykti sér á annarra kostnað, leit niður til samverkafólksins, tónlistarinnar og okkar áheyrenda. En afstaðan kom fram í líkamsbeitingu og hljómnum og hafði óþægileg áhrif á okkur öll. Þessi reynsla af hógværðarlausum söng lifir í minningunni – og þeim mun sterkar því afmælisbarn dagsins, konan sem greindi vandann, er sjálf holdgervingur andlegrar heilbrigði, auðmýktar og hófstillingar. Orð hinnar heillyndu voru sannleikur. Það þarf andlegan þroska til að þjóna því, sem er meira en maður sjálfur. Tvenns konar afstaða, til sjálfsins, annarra og samfélagsins. Annars vegar dramb og hins vegar auðmýkt, inngeislun og útgeislun. Er það eitthvað sem varðar okkur?

Tvenns konar lífshættir Guðspjallstexti þessa sunnudags er um tvo menn í mismunandi erindagerðum og með ólíka nálgun. Annar opinberaði stöðu sína og dramb. Hinn baðst miskunnar og fór heim með lífsdóm. Annar var með bólgið egó, en hinn útflatt. Annar var hrokagikkur, en hinn í rusli. Þeir fóru á sama staðinn til að vinna með tilvist sína. Annar kom til að fá staðfestingu þess, að hann væri hinn fullkomni maður. Hinn kom til að vinna með bresti sína og fá, það sem heitir á máli Biblíunnar, fyrirgefningu syndanna. Allir vissu, að farísearnir voru vel meinandi góðborgarar. Það var líka öllum ljóst, að skattheimtumennirnir gengu erinda Rómverja. Enginn neyddi þá til starfa, þeir voru frjálsir til fjárplógsins og voru sumir hinir verstu svíðingar.

Drembilátir líta niður á aðra, gera grín að fólki, benda á veikleika, missmíði, áföll og hefja sjálfa sig upp á kostnað annarra. Hinn hrokafulli talar niður til fólks, rýrir málstað annarra, gildi og stefnur sem ekki henta honum. Hinn hrokafulli lítur niður á aðra því hann horfir ekki upp, sér ekki hærra en eigin topp, eigin stöðu og dýrð. Faríseinn í texta dagsins var slíkur maður. Um hann þarf ekki að fjölyrða, svo vön erum við að hreinni mynd drambsins. Um hana ætla ég ekki að tala frekar í dag.

Hógværð og auðmýkt En það er hins vegar ímynd auðmýktar, sem mig langar til að við íhugum stuttlega. Tollheimtumaðurinn í Jesúsögunni kemur algerlega blankur fram fyrir Guð, þorir varla að biðja um hjálp, en stynur upp miskunnarbæninni, svipaðri þeirri og við báðum áðan og höfum yfir í messunni alla sunnudaga.

Kristnin ræðst gegn hrokanum – það vitum við. En er tollheimtumaðurinn hin hreina mynd hins kristna manns? Bæði já og nei. Vissulega er tollheimtumaðurinn ímynd þeirra, sem hafa skrapað botninn, skilja að lengra verður ekki haldið á lastabrautinni. Tollheimtumaðurinn getur verið fyrirmynd fyrir fíkla og þau, sem hafa misst allar festur og fóta. En mörgum reynist örðugt að samsama sig atferli hans og afstöðu. Og þá erum við komin að auðmýktinni. Er tollheimtumaðurinn ímynd auðmýktarinnar?

Í mörg þúsund ár hefur auðmýkt verið lofsungin. Í Orðskviðum segir vel: “Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall. Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum” (Ok. 16.18-19). Svipaðar setningar og áherslur má finna víða í ritum forn-Grikkja. Jesús lagði einnig áherslu á auðmýkt og hógværð. Síðan spunnu kristnir spekingar í þessar uppistöður með ýmsu móti. En sumir kirkjujöfrarnir fóru þó offari í túlkun sinni á auðmýkt og eðli hennar og spilltu auðmýktarhugtakinu.

Dæmi: Klaustraforkólfurinn Benedikt frá Núrsíu, sem uppi var um 500, talaði um tólf skref auðmýktar og að toppnum væri náð þegar menn gerðu sér grein fyrir að maður sé aumastur allra. Þessi túlkun er yfirdrifin, að mínu viti. Síðar skrifaði annar merkur klaustramaður, Benedikt frá Clairvaux (á f. hl. tólftu aldar) líka um tólf skref auðmýktar. Hann taldi auðmýktina vera þá dyggð, sem kenndi mönnum að sjá sjálfan sig með réttum hætti og þá með því móti að menn fyrirlitu sjálfa sig. Er þetta góð kenning, er auðmýkt að eðli til sjálfsfyrirlitning? Nei, ég held ekki, þessi kenning eða hugsun er fráfall frá kristinni mannsýn og mannelsku.

Auðmýkt aðeins fyrir karla? Fyrir mörgum árum heyrði ég guðfræðing halda fram, að auðmýktarsiðfræðin væri fyrir karla en alls ekki fyrir konur! Þið konur í kirkjunni í dag, hvað sýnist ykkur? Viljið þið að karlarnir verði auðmjúkari en auðmýkt ykkar minni? Boðskapur um auðmýkt hefur verið predikaður fyrir fólki lengi. Hin trúarlegu skilaboð runnu á öldum áður inn í karlstýrt þjóðfélags- og menningarkerfi. Og í því kynjaða stjórnkerfi var auðmýktaráherslan notuð til að skilgreina stöðu kvenna skör lægra en karlanna og halda þeim þar með niðri. Sem sé trúarleg túlkun og eiginlega misskilningur nýtt til að réttlæta og viðhalda valdakerfi.

Að athuguðu máli þykir mér ótækt að auðmýkt sé aðeins mál okkar karla en ekki kvenna líka. Vissulega þurfa konur að leggja sig eftir styrkleika og sjálfstæði, berjast fyrir jafnrétti og jafnstöðu á við karla – og þá baráttu styð ég. En ég held ekki að þær þurfi að berja af sér auðmýkt til að vera sterkar. Vænlegra sýnist mér að endurskilgreina aumýktina, endurlífga, setja hana í endurvinnsluna. Kíkjum aðeins á sögu hugtaksins.

Auðmýktin sjálfshatur? Vestrænir hugsuðir, guðfræðingarnir ekki síst, hafa því miður “ræfilvætt” og undirlægjuskilyrt auðmýktarhugtakið. Síðari alda heimspekingar hafa brugðist við þeirri aumingjaútgáfu hugtaksins og farið háðuglegum orðum um auðmýktina. Spinoza (á 17. öld) hafði t.d. litla trú á gildi auðmýktar og taldi hana yfirvarp annars. Hann taldi líka, að auðmýkt væri löstur ásamt með hrokanum. David Hume (á 18. öld) taldi auðmýktina, ásamt klaustradyggðum, ganga gegn góðum lífsmarkmiðum og beinlínis skadda menn. Margir hafa síðan fylgt í kjölfar þessara rýnenda. En gagnrýni þeirra hittir kannski ekki auðmýkt heldur fremur undirlægjuháttinn, aumingjaskilninginn og kúgunarþátturinn. Ég held við ættum að gera upp við og segja skilið við sjálfsfyrirlitningarskilning klaustramanna. Við þurfum hins vegar að endurvekja þá skynjun, að við þiggjum allt að láni, njótum alls vegna elsku, erum ráðsmenn í þjónustu kærleikans og til gagns fyrir fólk og sköpun veraldar. Það er guðsþjónusta.

Styrkur persónu – forsenda auðmýktar? Það er mikilvægt að hugsa um eðli auðmýktar og greina veru og hlutverk manna í samhengi og skilgreina mennskuna í ljósi hinna stóru gilda. Mér sýnist að auðmýkt sé samsett. Frumþáttur auðmýktar kristins manns er fólgin í vitund um, að manneskjan er af Guði, lifir í ljósi Guðs, þiggur af Guði líf og gæði, egó og aðstöðu. Kristinn maður verður þakklátur og lítillátur - ekki vegna ræfildóms og sjálfsfyrirlitningar heldur af því að hann eða hún viðurkennir að allt er frá Guði komið. “Allt gott kemur frá Guði.”

Svo er hin hliðin að enginn verður auðmjúkur á því að sjálfið, persónan brotni. Auðmýkt er ekki hið sama og vanmáttarkennd. Auðmýkt verður aðeins til í persónueigind sterks sjálfs. Til að auðmýkt vaxi og beri ávöxt þarf góðan skjólgarð hið innra. Auðmýkt krefst heillar, sterkrar persónu sem ber virðingu fyrir reynslu sinni, gildum, stefnu og eigindum. Jesús Kristur er besta dæmið. Hann var ekki sundurknosaður auli, heldur hafði heila, sterka vitund og mótað sjálf. En hann var auðmjúkur framar öðrum. Hann lifði í þessari samsettu vídd, að lúta föður sínum, sjá líf sitt og hlutverk í elskusamhengi, bera virðingu fyrir sér og köllun sinni og vera óttalaus í þjónustu gagnvart gildum, mönnum, verkefnum og þar með líka dauðaógn og skelfingarmálum.

Eitt sinn var sagt um íslenskan biskup: “Hann þóttist vera góður.”Það var meinlega sagt. En auðmýkt er ekki viljamál. Auðmýktin er dyggða erfiðust því um leið og menn verða sér meðvitaðir um eigin auðmýkt byrjar hún að deyja. Ákvörðuð auðmýkt er því miður ein gerð hroka. Í tengingu hroka og auðmýtar var Spinoza glöggur. En tileinkun auðmýktar er æviverkefni.

Marteinn Lúther minnti menn á, að auðmýkt er algerlega hulin hinum auðmjúka. Hinn auðmjúki veit ekki og sér ekki eigin auðmýkt. Það hefur löngum verið kunnugt að dýrlingur veit ekki af að dýrðardómi sínum. Um leið og menn vilja vera dýrlingar verður þeim það ómögulegt. Góðverk eru auðvitað góð en verða stórkostleg, þegar fólk gerir þau án vitundar um hversu góð þau eru. Auðmýkt er ómeðvituð lífslist.

Viskan Líkist einhver hér í kirkjunni farísea guðspjallsins? Ég held ekki! Ég veit ekki heldur hvort einhver er með svo sundurknosaðan anda sem tollheimtumaðurinn. En það er brot af báðum í okkur öllum. Við megum gjarnan muna að Jesús yddaði sögur sína til að skerpa vitund okkar um að við lifum ekkert hlutleysi - heldur erum ávallt í nánd og frammi fyrir Guði. Sagan um mennina tvo er saga um alla. Fyrir augliti Guðs er ljósið skarpara en í mannheimi, þar sjást lífshrukkurnar algerlega, brestir og brot. Þar verður hrokinn fáránlegur. Ekkert annað en auðmýkt er við hæfi, því þar er upphaf og samhengi alls. Þann vísdóm megum við síðan fara með út í mannlífið, því þar er Guð líka. Hvert sem við förum erum við í musterinu frammi fyrir Guði. Í lífi okkar, á tónleikum, í afmælum, í kirkjunni, á heimilum, já alls staðar þarf að vera auðmýkt til að lífið fólk verði glatt, öllum verði þjónað, talenturnar verði nýttar, hljómsveitin spili fallega og söngvarar syngi með útgeislun og hafi áhrif á tilfinningar okkar. Þegar við lærum að tjá: “Guð vertu mér syndugum líknsamur” þá verður undrið, við lærum jafnvel að elska hrokagikki.

Amen

Neskirkja 15. ágúst 2010. 11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. A-röð.

Lexían Jes 2. 11-17 Hin drembilegu augu mannsins skulu lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera. Sannarlega mun dagur Drottins allsherjar upp renna. Hann kemur yfir allt það, sem dramblátt er og hrokafullt, og yfir allt, er hátt gnæfir, það skal lægjast og yfir öll hin hávöxnu og gnæfandi sedrustré á Líbanon, og yfir allar Basanseikur, og yfir öll há fjöll og allar gnæfandi hæðir, og yfir alla háreista turna og yfir alla ókleifa múrveggi,og yfir alla Tarsisknörru og yfir allt ginnandi glys. Og dramblæti mannsins skal lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera.

Pistillinn Rm 3. 21-26 En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls. Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur:Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú. Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir,til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.

Guðspjallið Lk. 18.9-14 Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður. Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast. En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.