Að þurfa ekki að rekja upp

Að þurfa ekki að rekja upp

Missið ekki af sýningu Guðrúnar Guðmundsdóttur, Ævispor, í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Henni lýkur 25. apríl.

,Maður verður að vinna þannig að maður þurfi ekki að rekja upp´. Þannig komst hún að orði, hún Guðrún Guðmundsdóttir (f. 1930) sem saumaði þau einstöku listaverk sem nú eru til sýnis í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Konurnar úr kvenfélaginu hér í Hallgrímssókn fóru saman að sjá sýninguna nú á dögunum og þá var það sem ein þeirra spurði Guðrúnu hvað hún gerði þegar hún þyrfti að rekja upp, hvort það væri ekki mikil vinna. Þá kom þetta frábæra svar: ,Maður verður að vinna þannig að maður þurfi ekki að rekja upp´.

Lífsþræðir Er þetta ekki gott veganesti fyrir lífið – að lifa þannig að við þurfum ekki að rekja upp lífsþræðina vegna mistaka sem gætu haft óafmáanleg áhrif á lífsverkið í heild sinni. Það getur kostað okkur ómælt erfiði að bæta fyrir eða bæta okkur upp það sem aflaga hefur farið. Þetta þekkjum við öll, hvort sem við kunnum til verka við fíngerðan og fjölbreyttan útsaum eða ekki. Við höfum væntanlega flest fundið okkur á þeim stað þar sem líf okkar varð eins og götótt prjónles, þar sem eitt lykkjufall verður til þess að ein lykkjan raknar upp af annarri.

Það er vandlifað. Við þekkjum varla nokkra manneskju sem gæti horft yfir líf sitt með stolti og sagt: Hér er ekki eina misfellu að sjá. Okkur verður öllum á. ,Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð´ segir postulinn (Róm 3.23) en lætur ekki staðarnumið þar heldur kemur með góðu fréttirnar: ,og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú´(Róm 3.24). Við erum þess sjaldnast megnug að lifa þannig að ekki þurfi að rekja upp. En Guð tekur upp þráðinn fyrir okkur og lagar misfellurnar í kærleika sínum. ,Kærleikurinn breiðir yfir allt' (1Kor 13.7). Það erum við minnt á alla daga undir skjóli Guðs, á kærleikann sem gaf líf sitt, okkur til lífs. María mey í myndum Ein þeirra mynda sem konurnar úr Hallgrímskirkju tóku sérstaklega eftir á sýningu Guðrúnar Guðmundsdóttur er útsaumur, byggður á fornu handriti, sem sýnir Maríu mey þar sem hún umvefur Jesúbarnið höfuðklút sínum. Umhyggjan í þessu verki snertir djúpt hvern þann sem sér, umhyggja hennar sem verkið vann og hennar sem myndina prýðir. Þess er gott að minnast á boðunardegi Maríu, 9 mánuðum fyrir jól.

Við höfum hér í Hallgrímskirkju (eins og í Háteigskirkju og örfáum öðrum lútherskum kirkjum á Íslandi) Maríumynd yfir hliðaraltarinu hérna norðan megin. Þessi mynd er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal og er undurfögur og litrík. María stendur fyrir miðju listaverksins með síða fjólubláa skikkju yfir höfði. Þrjár manneskjur, karlmaður með skegg og hirðisstaf, ung kona og eldri manneskja, krjúpa við fætur guðsmóðurinnar og rétta upp hendur sínar, ekki móti henni heldur barninu sem hún ber í fanginu. Barnið Jesús breiðir út sínar helgu hendur í blessun og svipurinn er blíður, ástúðarfullur. Auga þess sem horfir á listaverkið leitar ósjálfrátt að andliti Jesú, enda er það í gullinsniði, sem kallað er í listfræðinni.

Hið miðlæga er Kristur Það er sem sagt Jesús Kristur sem er hið miðlæga í Maríumynd Guðmundar frá Miðdal. Þannig er það einnig í guðspjalli boðunardagsins, Lúk. 1.26-38, sem og þeirri virðingu sem Maríu móður Jesú ber. Fyrir fúsleika hennar, sem mætti þeim einstöku aðstæðum að verða þunguð fyrir heilagan anda, fáum einnig við að njóta náðar Guðs í syni hennar Jesú frá Nasaret. Hann ,útbreiddi sínar helgu hendur er hann leið, svo að hann mætti dauðann sigra...og veita oss föllnum hlutdeild í guðdómi sínum´, eins og segir í einni þakkarbæn altarisgöngunnar og færði okkur þar með líf og kraft til góðra verka.

Ég las um daginn að vel mætti líkja saman undri boðunar Maríu og undri hvítasunnudags. María varð þunguð af heilögum anda og fæddi heiminum frelsarann. Hinn fyrsta hvítasunnudag urðu lærisveinarnir fullir af heilögum anda og það leiddi af sér kristniboð, fæðingu frelsarans inn í ólíkar aðstæður heimsins. Og við megum sömuleiðis þiggja heilagan anda Guðs inn í okkar líf og biðja þess að við mættum bera heiminum frelsarann Jesú Krist í orði og verki kærleikans.

Viðhafnarker Í öðru Tímóteusarbréfi er kafli sem ber yfirskriftina: Hæfur verkamaður. Þar erum við minnt á að eiga ekki í orðastælum og forðast vanheilagt hégómatal sem eru dæmi um ranglætisverk sem ekki eru samboðin verkamanni Guðs því að ,Hver sá sem nefnir nafn Drottins haldi sér frá ranglæti´. Og svo kemur líking úr heimilislífinu sem er þess verð að henni sé gaumur gefinn: ,Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til hversdagsnota. Sá sem fær sig hreinan gert af slíkum ranglætisverkum verður ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hentugt til sérhvers góðs verks´ (2Tím 3.20-21).

María móðir Jesú var slíkt viðhafnarker. Hún byggði líf sitt á Guðs styrka grundvelli og var merkt innsiglisorðunum: ,Drottinn þekkir sína´ (2Tím 2.19). Hún er okkur fyrirmynd, já hefur jafnvel verið nefnd ,móðir trúaðra´ því að hún tók á móti því hlutverki sem Guð ætlaði henni af hógværð og festu og það þurfum við líka að gera. Hvort María lifði lífi sínu þannig að aldrei þurfti að rekja upp þráð veit ég ekki. Vinir mínir í rómversku kirkjunni segja að svo sé, að María hafi lifað syndlausu lífi, jafnvel að getnaður hennar hafi verið án syndar. Um það segir Biblían ekkert. Eina sem við vitum er að Guð studdi hana með sínum fúsleiks anda (Sálm 51.14) og fyrir það erum við ævinlega þakklát.

Mynd í orðum Við hófum skoðun okkar á Maríu mey á saumaðri mynd Guðrúnar Guðmundsdóttur. Önnur Guðrún og sú Lárusdóttir (1880-1938) gefur mynd Maríu guðsmóður í orðum:

Fátt er í rauninni um hana sagt, en þó blasir við oss hin fegursta mynd af lundhreinni og ljúfri, auðmjúkri og yfirlætislausri konu... Kveðja engilsins ber það með sér, að María hefur lifað Drottni: “Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs, þú hin sælasta allra kvenna.” María varð óttaslegin og tók að hugleiða kveðju engilsins, þessa fögru, stórfenglegu kveðju, sem síðan hefur um margar aldir hljómað í kirkju Krists, sem heilög minning um miskunnsemi Drottins við fallið mannkyn, en jafnframt til heiðurs beztu konunni, er lifað hefur á jörðunni, og um leið til vegsauka konum yfirhöfuð, því að úr þeirra hópi er Kristi kjörin móðir, og jafntímis er konan kölluð til starfs í ríki Krists... Vér tilbiðjum engan vegin Maríu mey, hún var mannleg vera, eins og vér, en vér skuldum henni óskipta virðingu, - María er og verður hin fegursta fyrirmynd, sem vér konur eigum. Trúin hennar, auðmýktin og hlýðnin við Guð, ætti að vera öllum konum eftirsóknarverð fyrirmynd, ungu stúlkunum hið fegursta dæmi hreinleika og hæversku og mæðrunum mynd móðurinnar, sem leiðir börn sín á fund barnavinarins bezta, og innrætir þeim guðsótta og kennir þeim góða siði.

Með þessa fyrirmynd fyrir augum og í hjarta þurfum við síður að rekja lífssauminn okkar upp.