Á þessu hausti eru liðin 21 ár frá því að ég bauð fyrst upp á svokallað „Jákvætt námskeið um hjónaband og sambúð“ og þá í Hafnarfirði. Fyrsta námskeiðið var haldið haustið 1996. Þá var ætlunin að bjóða upp á eitt eða tvö námskeið, en vegna stöðugrar aðsóknar og eftirspurnar eru námskeiðin enn í gangi. Til marks um eftirspurnina má nefna að síðustu víku nóvembermánaðar verða að þessu sinni haldin tvö námskeið og er fullt á bæði
Námskeiðin hafa reyndar ekki aðeins verið haldin á Höfuðborgarsvæðinu heldur einnig víða um land og erlendis. Þau hafa þannig verið haldin víða á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík, Grindavík, Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Hveragerði, á Selfossi, í Árnesi, á Höfn í Hornafirði, á Eskifirði, þrisvar á Egilsstöðum, sjö sinnum á Akureyri, á Ísafirði, Suðureyri, Þingeyri, í Borgarnesi, á Akranesi, Seltjarnarnesi, í Osló í Noregi og Gautaborg í Svíþjóð.
Vinsældir námskeiðanna má kannski einna helst rekja til þess að á námskeiðunum gefst þátttakendum tækifæri til þess að skoða sitt eigið samband út frá fyrirlestrum og verkefnum sem hvert par heimfærir upp á sinn eigin veruleika. Þar er líka lögð rík áhersla á sjálfsskoðun og sjálfsrýni. En umfram allt er bent á fjölbreyttar leiðir sem hægt er að fara til að bæta og styrkja hjónabandið og sambúðina í aðstæðum lífsins. Þannig hentar námskeiðið öllum aldurshópum og er ekki síst gagnlegt fyrir þau pör sem vilja styrkja það sem gott er fyrir.
Hjón þurfa þess vegna ekki endilega að vera í einhverjum vanda til að geta nýtt sér aðferðafræði námskeiðsins. Og þó námskeiðið heiti hjónanámskeið er það opið öllum pörum, hvort sem þau eru í hjónabandi eða sambúð.
Þó grunnurinn hafi alltaf verið sá sami hafa námskeiðin og áherslurnar auðvitað breyst í gegnum árin. Undanfarin tvö ár hefur þannig sérstök áhersla verið lögð á leiðir til að styrkja fjölskylduna.
Í tengslum við námskeiðin hafa orðið til tvær bækur, Hamingjuleitin sem kom út árið 2001 og Hjónaband og sambúð árið 2006. Einnig hafa önnur almenn námskeið þróast út frá hjónanámskeiðunum. Þar ber hæst námskeiðið 10 leiðir til lífshamingju sem er ætlað öllum en ekki pörum sérstaklega.
Einnig það námskeið hefur verið haldið um allt land á undanförnum árum fyrir starfsmannahópa, skóla og fyrirtæki.