Þakklæti, ábyrgð, auðmýkt

Þakklæti, ábyrgð, auðmýkt

Ég er þakklát Guði fyrir að fá að búa í frjálsu landi þar sem konur og karlar eru metin jafnt og hvert barn getur átt möguleika á að nýta hæfileika sína, óháð uppruna og kyni.

Reynslan sýnir að það er mikilvægt fyrir fjölskyldur að halda upp á dagana sína. Það styrkir hjónabandið að gera sér dagamun á til dæmis brúðkaupsdeginum og sömuleiðis eflast fjölskylduböndin þegar við bjóðum ættingjunum í afmæli barnanna. Sama gildir um sérstaka daga í sögu þjóðarinnar. Þegar lýðveldið var stofnað árið 1944 völdum við Íslendingar okkur sem þjóðhátíðardag fæðingardag Jóns Sigurðssonar, sem nefndur var forseti, enda var hann forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags (1851-1879) og líka forseti Alþingis um árabil.

Þakklæti Þrennt kemur upp í huga minn þegar ég hugsa um þjóðhátíðardaginn sem tákn um lýðveldið Ísland: Þakklæti, ábyrðartilfinning og auðmýkt. Ég er þakklát Guði fyrir að fá að búa í frjálsu landi þar sem konur og karlar eru metin jafnt og hvert barn getur átt möguleika á að nýta hæfileika sína, óháð uppruna og kyni. Ég er þakklát Guði að við megum taka til okkar orðin úr þriðju Mósebók 26.19 þar sem Guð segir við þjóð sína: „Ég mun ganga um mitt á meðal ykkar, vera Guð ykkar og þið verðið þjóð mín“ (sjá einnig Jer 32.38-41). Ég er þakklát fyrir að við höfum hér á landi frelsi til að velja okkur trúar- og lífsskoðun því einmitt á því frelsi byggir sönn og óþvinguð trú. Ábyrgð Því fylgir líka mikil ábyrgð að búa við frelsi. Það felur í sér að orð okkar og athafnir, hvers og eins, skipta máli. Við getum til dæmis valið okkur forseta. Kosningaréttinum fylgir mikil ábyrgð og ættum við öll að nýta hann. Þá berum við sem kristið fólk þá ábyrgð að biðja fyrir þjóðinni okkar, ekki síst „öllum þeim sem hátt eru sett“ eins og kemur fram í fyrra Tímóteusarbréfi (1Tím 2.1-4). Það er mikilvægt að biðja Guð að gefa þeim sem taka ákvarðanir fyrir hönd okkar hinna góða dómgreind, umhyggju og æðruleysi.

Auðmýkt Stundum er talað um „þjóðrembu“. Víst er að bilið á milli þess að elska landið sitt og fyllast hroka yfir því að tilheyra ákveðinni þjóð getur verið stutt. Það breytir ekki því að okkur er hollt að láta okkur annt um uppruna okkar, landið sem við búum í og þau sem deila því með okkur. Eins og fjölskyldur þurfa á því að halda að gera sér dagamun á sérstökum dögum þörfnumst við þess líka sem þjóð að fagna okkar sameiginlegu dögum.

Það getum við gert í fullri auðmýkt og af virðingu fyrir öðrum þjóðum, ekki til að hefja okkur upp yfir aðra. Mikilvægt er að við tökum vel á móti þeim sem hingað koma til að deila landinu okkar með okkur með friðsemi og góðum hug því hvað erum við „gömlu Íslendingarnir“ annað en hópur flóttamanna, förufólks og ánauðugra? Við ættum að sameinast í því að sýna hlýju þeim sem hér leita skjóls í fyllstu einlægni svo að þau sem eiga sér aðrar rætur finni líka til hlýju gagnvart landi og þjóð og vilji vera með þeirri uppbyggingu sem mikilvæg er á hverjum tíma með virðingu fyrir þeim gildum sem við byggjum þjóðfélag okkar á. Þau gildi eiga sér rætur í kristinni trú, í boðskap Jesú Krists frá Nasaret sem kom fram af jöfnuði og elskusemi við konur jafnt sem karla, börn jafnt sem fullorðna. Upp, þúsunda ára þjóð Í sálmi eftir Matthías Jochumsson, einn þeirra sem við köllum „þjóðskáld“ (og hlýtur að vera vel að þeim titli kominn þar sem hann orti Lofsöng sem er þjóðsöngur okkar Íslendinga) segir svo fallega:

Krjúp lágt, þú litla þjóð, við lífsins náðarflóð. Eilífum Guði alda þú átt í dag að gjalda allt lánsfé lífs þíns stunda með leigum þúsund punda.
Við erum lítil þjóð en eigum stóran Guð. Felum okkur sjálf í hendi Guðs, landið okkar, forsetann, alþingi og dómstóla ásamt öllum þeim kerfum sem gera mannlífið hér við ysta haf bærilegt. Biðjum þess að við mættum áfram bera gæfu til að búa hér í frelsi og umhyggju fyrir hverju mannsbarni, fyrir landi, sjó og lofti og öllu því sem þar lifir og hrærist. Guð blessi þér daginn, alla daga, og Guð blessi land og þjóð.