Ég á systur sem er hjúkrunarfræðingur með sérmenntun í svæfingarhjúkrun. Hún hefur starfað í heilbrigðisgeiranum mest alla sína starfsævi, byrjaði sem sjúkraliði á gjörgæsludeild, fór síðan í hjúkrunarnám, starfaði sem almennur hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu og bætti síðan við sig svæfingarhjúkrun fyrir nokkrum árum. Allan tímann hefur hún unnið við aðstæður þar sem mínútur og sekúndur skipta máli fyrir líf og dauða fólks. Í síðustu viku sagði hún upp starfi sínu á Landspítalanum. Hún var búin að fá nóg. Maðurinn hennar er líka svæfingarhjúkrunarfræðingur og einn af þremur sérfræðingum á landinu sem sjá um hjarta- og lungnavélina á Landspítalanum. Það er vél sem er notuð til að tengja fram hjá hjarta – og lungnastarfsemi við stórar aðgerðir, t.d. hjarta- og lungnaaðgerðir, þar að auki hefur hún bjargað mannslífum við drukknanir, og í fleiri tilfellum. Af sérfræðingunum þremur eru tveir lífeinda-fræðingar í grunninn, og einn svæfingar-hjúkrunarfræðingur, með tveggja ára sér-hæfingarnám erlendis á bakinu til að geta sinnt starfi sínu. Þau eru öll að íhuga að segja upp, mágur minn búinn að ákveða sig, en ekki búinn að skila inn uppsögn. Þau gáfu mér bæði leyfi til að nota sögu sína hér í dag.
Það er ekki lítil ákvörðun að segja upp starfinu sínu án þess að hafa eitthvað annað fast í hendi. Það gerir fólk ekki nema af tveimur ástæðum. Annað hvort er það búið að fá nóg af núverandi aðstæðum, eða þá að það hefur séð einhverja þá möguleika á öðrum vettvangi sem sannfærir fólk um að það sé þess virði að snúa baki í sitt núverandi líf og leggja aftur út á veginn.
Sennilega hafa báðir þessir hópar fólks verið í lærisveinahópi Jesú. Sumir fylgdu honum kannski vegna þess að allt var betra en þær aðstæður sem þeir flúðu. Aðrir fylgdu honum kannski vegna þess að það var alltaf eitthvað spennandi að gerast í kringum hann. Því miður virðumst við á Íslandi í dag standa frammi fyrir því að fólk fer ekki í burtu vegna brennandi ævintýraþrár, eða þarfar til að láta gott af sér leiða á öðrum vettvangi en heima, heldur aðallega vegna þess að það er búið að fá nóg. Og ef áfram heldur sem horfir, þá óttast ég að það verði þannig á Íslandi að hinir dauðu þurfa að jarða sína dauðu, á meðan ráðamenn þjóðarinnar rífast á Alþingi eða horfa á fótbolta.
Jesús er á ferð. Hann er á leið til Jerúsalem. Og hann er einráðinn í að fara þangað. Með honum er sennilega stór hópur fólks, fólk sem hefur jafnvel yfirgefið allt til að fylgja honum. Og hann mætir fleira fólki á leiðinni. Einn segist ætla að fylgja honum hvert sem hann fer og við hann segir Jesús: Refir eiga greni og fuglar himins hreiður, en mannssonurinn á hvergi höfði sínu að halla. Annar segir við hann: Leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn. Við hann segir Jesús þessi orð sem okkur finnast örugglega mjög harðneskjuleg: Látið hina dauðu jarða sína dauðu. Og við þann sem vill kveðja fjölskylduna sína fyrst segir Jesús, sá sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er ekki hæfur í Guðs ríki.
Okkur finnst Jesús áreiðanlega hrikalega kröfuharður. Það er annað hvort allt eða ekkert hjá honum. En ég held að Jesús sé fyrst og fremst að undirstrika ákveðinn raunveruleika. Því að það koma stundir í lífinu, þar sem fólk þarf að taka ákvarðanir. Erfiðar ákvarðanir. Ákvarðanir sem leiða fólk kannski út í óvissu, þar sem það mun hvergi eiga höfði sínu að halla, svona eins og mannssonurinn. Og það koma stundir í lífinu þar sem við þurfum að ganga í burtu úr aðstæðum, og láta hina dauðu jarða hina dauðu, jafnvel þótt það valdi okkur og öðrum sársauka. Og það er ekkert gagn af okkur ef við horfum sífellt til baka. Í gamla daga skildu menn líkingu Jesú um plóginn, plógfarið verður auðvitað ekki beint ef menn horfa aftur fyrir sig þegar þeir plægja, ekki frekar en við getum keyrt bílinn okkar beint ef við horfum bara í baksýnisspegilinn.
Hefur þú staðið frammi fyrir því í lífinu að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Ákvarðanir sem breyta lífi þínu, og jafnvel fjölskyldu þinnar? Ákvarðanir sem leiða þig kannski út í óvissu? Þar sem þú hefur jafnvel þurft að skilja ,,hina dauðu” eftir? Það þurfa ekki að vera ákvarðanir varðandi búsetu eða starf. Þau ykkar sem hafið t.d. skilið við maka ykkar þekkið þennan raunveruleika. Eða þau ykkar sem hafið ákveðið, eða standið frammi fyrir þeirri ákvörðun að breyta um lífsstíl. Hætta að drekka, nota eiturlyf, snúa baki við hvers konar öðrum fíknum, í mat, spil, kynlíf, eða hvað annað. Þau ykkar sem hafið ákveðið að losa ykkur úr óheilbrigðum samböndum, hvort heldur við vini eða ættingja. Þá vitið þið að það getur verið nauðsynlegt að sleppa því algjörlega að líta í baksýnisspegilinn. Að horfa fram á Veginn. Svona eins og Jesús horfði til Jerúsalem.
Og þið getið verið fullviss um að Jesús er með ykkur á þeim vegi. En rétt eins og Jesús lofaði mönnunum þremur sem hann mætti hvorki öryggi né því að leiðin yrði auðveld eða greið, þá lofar hann okkur heldur engu slíku. Það eina sem hann lofaði okkur var það að hann gæfi okkur heilagan anda,einmitt til þess að hafa kjark til að taka erfiðar ákvarðanir. Til þess að við gætum sem myndugar, frjálsar manneskjur tekið ákvarðanir um okkar eigið líf. Og það er eitthvað sem ég held að stjórnvöld og atvinnurekendur þessa lands þurfi að fara að átta sig á.
Dýrð sé Guði, sem gengur með okkur á veginum.