Vorhugur í haustlitum

Vorhugur í haustlitum

Ísland er ekki á hausnum. Þið hefðuð átt að vera með mér í bílnum í dag þegar ég ók út Reykjadalinn. Tún og akrar í haustlitum. Dimmrautt kjarr og lyng á báðar hendur. Svartir hraundrangar stinga höfðum upp úr sinuhafi. Hólmar á hvolfi í spegli vatnsins.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
13. október 2008

Ísland er ekki á hausnum.

Þið hefðuð átt að vera með mér í bílnum í dag þegar ég ók út Reykjadalinn.

Tún og akrar í haustlitum. Dimmrautt kjarr og lyng á báðar hendur. Svartir hraundrangar stinga höfðum upp úr sinuhafi.

Hólmar á hvolfi í spegli vatnsins.

Þrifleg býli heilsa ökumanni.

Á móti mér koma oddaflug tveggja fuglahópa. Þeir eru að kveðja þessa dýrð og alla þessa auðlegð.

Hvaða land tekur á móti þeim næsta vor?

Það Ísland sem við áttum fyrir hálfum mánuði er ekki lengur til.

Næsta Ísland er að fæðast.

Margt á eftir að gerast meðan fuglarnir eru í burtu.

Við þurfum að sigra heila kreppu.

Síðan þurfum við að draga lærdóm af þeim ósköpum öllum. Gera upp fortíðina til að vita hvaða pytti eigi að forðast.

Við þurfum að byggja upp nýtt samfélag. Finna því nýjar forsendur, ný gildi og ný viðmið.

Þegar ég keyrði til baka blasti við gamli Goðafoss vestur af brún Fljótsheiðar.

Þetta er ríkt land. Sá á mikið sem á það. Ísland er verðmæti sem verður að annast vel.

Það er ekki einungis skylda Íslendings við Ísland heldur heiminn allan.

Og í vor þegar fuglarnir snúa aftur til að búa sér hreiður verðum við líka að því.