Hver tekur ákvörðun um heimild samkynhneigðra til hjúskapar?

Hver tekur ákvörðun um heimild samkynhneigðra til hjúskapar?

Frá því forsætisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingar á réttarstöðu samkynhneigðra hafa margir kveðið sér hljóðs um efnið. Einkum hefur réttur samkynhneigðra til hjúskapar verið ræddur. Athygli skal vakin á að það orð getur jafnt náð yfir sambönd sam- og gagnkynhneigðra. Hér verður vikið að formlegri hlið þessa máls.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
02. mars 2006

Frá því forsætisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingar á réttarstöðu samkynhneigðra hafa margir kveðið sér hljóðs um efnið. Einkum hefur réttur samkynhneigðra til hjúskapar verið ræddur. Athygli skal vakin á að það orð getur jafnt náð yfir sambönd sam- og gagnkynhneigðra. Hér verður vikið að formlegri hlið þessa máls.

Fjórar leiðir

Við fyrstu umræðu á Alþingi má segja að hugmyndir um ferns konar útfærsluleiðir hafi komið fram til að leiða málið til lykta: (1) Að samkynhneigðum verði ekki veitt heimild til vígslu nema vilji þjóðkirkjunnar standi til þess. (2) Að hjúskaparlögum verði breytt þannig að þau trúfélög sem samþykkja að gefa saman samkynhneigða fái heimild til þess. (3) Að heimildarákvæði samkv. lið 2 verði einnig látið ná til einstakra presta og loks (4) samhljóða álit og í lið 3 að öðru leyti en því að þeir sem ekki nýttu sér heimildina „yrðu að taka afleiðingunum af því hverjar sem þær svo gætu verið" eins og einn þingismaður komst að orði. Hér vekja ummælin um afleiðingarnar sérstaka athygli. Hljóta spurningar að vakna um til hvers sé vísað. Afleiðingarnar gætu vissulega orðið lagalegar og falist í því að réttur viðkomandi trúfélags til að framkvæma hjónavígslur yrði felldur niður. Svo kann einnig að vera að aðeins sé átt við afleiðingar sem þjóðkirkjan er að taka þessa dagana. Í janúar s.l. sögðu 165 sig úr þjóðkirkjunni á móti 54 í janúar 2005. Af þeim gengu 50 í Fríkirkjuna í Reykjavík á móti 1 í janúar í fyrra og 12 í Ásatrúarfélagið á móti 7 fyrir ári. Þessi trúfélög hafa lýst því yfir að þau mundu gefa saman samkynhneigða væri þeim það heimilt.

Ábyrgð trúfélaga

Af ofangreindum fjórum leiðum er sú númer 2 ein ásættanleg að mínu mati. Heimild til handa einstökum prestum til að veita samkynhneigðum vígslu eða synja þeim um hana mundi leiða til að stjórnskipan þjóðkirkjunnar leystist upp. Í söfnuðum þar sem aðeins einn prestur eða forstöðumaður starfar gæti framkvæmd innan trúfélagsins eða safnaðarins í þessu efni breyst við prestaskipti. Lýðræðisleg ákvarðanataka yrði takmörkuð og einstaklingum falið óeðlilegt vald í viðkvæmu máli.

Einstök trúfélög verða að marka sér stefnu um hjónavígslu samkynhneigðra á ábyrgan hátt og grundvalla hana á trúverðugri túlkun á trúarhefð sinni með tilliti til aðstæðna í nútímasamfélagi. Vegna þeirrar ábyrgðar sem hvert trúfélag ber á því að ígrunda hjónavígsluskilning sinn er fyrsti kosturinn sem nefndur var hér að framan, þ. e. að láta þjóðkirkjuna eina ráða ferðinni, ekki ásættanlegur. Þjóðkirkjan getur ekki tekið að sér þá guðfræðilegu lögsögu sem henni er þar með ætlað. Með því mundi hún binda hendur annarra trúfélaga þar til hún hefur afgreitt málið fyrir sitt leyti. Í landinu ríkir trúfrelsi og þrátt fyrir þjóðkirkjuskipanina er ekki mögulegt að fela þjóðkirkjunni forræði yfir öðrum trúfélögum í kenningarlegum efnum. Slíkt yrði henni sjálfri heldur ekki til heilla.

Útfærsla í lögum

Í valkosti tvö hér að framan felst að löggjafinn breyti lagarammanum um hjúskap þannig að stofnun hans verði ekki lengur bundinn kyni. Með tilliti til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 sem veita henni sjálfsstjórn í kenningarlegum efnum og enn meira sjálfræðis annarra trúfélaga getur Alþingi þó ekki framkvæmt breytinguna einhliða. Þvert á móti yrði að fara líka leið og Guðrún Ögmundsdóttir hefur mælt fyrir en samkvæmt henni hlytu þau trúfélög sem slíkt samþykkja heimild til að gefa saman samkynhneigða. Vera má að erfitt sé að koma ákvæði þessa efnis fyrir í hjúskaparlögum þar sem búið væri að breyta orðunum „karl og koma" í „einstaklingar". Auðveldara væri að breyta lögum um staðfesta samvist í þessa veru. Um leið mætti breyta heiti þess sambúðarforms í hjúskap. Vegna ummæla Kristins H. Gunnarssonar hér í blaðinu 16/1 s.l. skal það tekið fram að vel er mögulegt að veita trúfélögum sjálfræði í þessu eina atriði án þess að heimila þeim að kvika frá öðrum hjónavígsluskilyrðum.

Að lokum

Spurningin um heimild til handa samkynhneigðum að stofna til hjúskapar hefur bæði lögfræði- og guðfræðilega hlið. Löggjafinn verður því að skapa lagaramma sem veitir slíka heimild. Trúfélög verða síðan hvert um sig að marka sér guðfræðilega stefnu um það hvernig þau höguðu stofnun hjúskapar innan þess ramma og taka afleiðingunum!

Það tekur tíma að snúa stóru flutningaskipi. Það tekur líka tíma að breyta ævafornum hjónabandsskilningi sem þjóðkirkjan og ýmis önnur trúfélög búa að. Það þjónar vart hagsmunum nokkurs að beita þvingunum í því efni. Meðan samkynhneigðir og stuðningsmenn þeirra bíða ætti þjóðkirkjan þó að stíga skref til móts við þá sem hún getur áhættulítið stigið. Það er að taka þegar upp verðuga og virðulega athöfn þar sem samkynhneigðir hlytu blessun yfir þann ásetning sinn að lifa saman í kærleika og gagnkvæmri tryggð sem og fyrirbæn um að sá ásetningur þeirra mætti vara þeim og öðrum til heilla og hamingju.