Fyrstu vitranir voru Múhameð á margan hátt erfiðar og lýsti hann því síðar svo að það hefði verið eins og sálin væri rifin burt úr líkamanum þegar Gabríel birtist honum og honum þótti sem hann væri að kafna. Því það var nefnilega Gabríel erkiengill sjálfur sem hafði vitrast honum, eða Gabríl eins og hann heitir á arabísku. Í fyrstu vissi Múhameð ekki almennilega hvað hann ætti að gera við þessa trúarreynslu sína og fór leynt með hana, sagði aðeins konu sinni og nánustu fjölskyldu frá henni. Kom þar margt til. Bæði var það að í þessum boðskap sem Gabríl flutti honum, var ráðist harkalega á hvers konar fjölgyðistrú og þar með á undirstöðu þeirra trúarbragða er höfðu gert Mekku volduga og ríka. Í Mekku var að finna steininn heilaga, Kaba, helgasta stað araba og sóttu menn hann heim ár hvert. Eins og fyrr var sagt ríkti fjölgyðistrú á Arabíuskaganum fyrir daga Múhameðs. En steinninn í Mekka var eins konar sameiningartákn allra þeirra goða og vætta sem menn lögðu trú á. Mekkubúar höfðu síðan góðar tekjur af helgistaðnum ekki síst vegna þess að bannað var að bera vopn nálægt honum og þannig sköpuðust góðar aðstæður fyrir verslun. Allar leiðir araba lágu því til Mekku og þangað streymdu úlfaldalestir hlaðnar varningi og pílagrímar með fullar hendur fjár, að nokkru leyti eins og túristar dagsins í dag. En öll gagnrýni á fjölgyðistrúna var álitin gagnrýni á Kaba. Múhameð leit reyndar þannig á að hann væri ekki að rjúfa tengslin við forna menningu araba með kenningu sinni, eða réttara sagt, kenningunni sem Gabríl gaf honum. Þess vegna hélt Múhameð sjálfur áfram að heimsækja helgistaðinn við Kaba, ganga sjö sinnum kringum steininn svarta í miðju helgiskríninu, kyssa hann og framkvæma þær helgiathafnir aðrar sem Kaba tilheyrðu, meðal annars að færa fórn á síðasta degi heimsóknarinnar til Kaba. Árið 622, samkvæmt okkar tímatali, var Múhameð boðið til borgarinnar Medínu til að koma á friði en þar hafði um tíma ríkt upplausnarástand og vonuðust heimamenn til að kenning Múhameðs gæti lægt öldurnar. Var ástandið þá orðið þannig í Mekku að hann varð að flýja borgina um miðja nótt. Múslímum þykir þessi atburður marka svo mikil tímamót að þeir miða upphaf tímatals síns við hann. Borgin hét reyndar upphaflega Yathrib en fékk síðar nafnið Medína, sem merkir Borgin eina, því þar kom Múhameð á fót fyrsta múslímska samfélaginu sem gat um frjálst höfuð strokið og átti eftir að verða fyrirmynd annarra. Frá Medínu hóf hann vopnaða baráttu gegn íbúum Mekku og árið 624 sigraði hann borgarbúa þótt hann væri nokkur ár að ná sjálfri borginni á sitt vald. Einnig barðist hann gegn ættbálkum gyðinga sem studdu andstæðinga hans í Mekku leynt og ljóst. Múhameð hafði lagt á ráðin um að gera innrás í Sýrland er hann féll frá árið 632.
En hvernig tengjast kristni og íslam? Múhameð var, að því er heimildir múslíma segja, mikilhæfur pólitískur og hernaðarlegur leiðtogi, snjall og óhræddur að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Í augum múslíma er hann hin hreina fyrirmynd og þótt þeir telji synd að tilbiðja hann sem Guð, fylgja þeir boðum hans nánar og oft betur en margir kristnir menn fylgja Jesú Kristi sem þeir þó játa sem son Guðs. Múhameð virðist hafa orðið fyrir djúpri trúarlegri reynslu, sem entist honum ævina út og varð hvatinn að boðskap hans og starfi. Hann taldi sig fá vitranir beint frá Guði og það voru þessar vitranir sem hann vitnaði um. Vitnisburði hans söfnuðu fylgendur hans síðar saman í Kóraninum, sem er ritaður á klassískri arabísku. Kóraninn varð undirstaðan að ritmáli og bókmáli araba. Þegar Múhameð lést átti eftir að raða ritsafninu saman í heilsteypt verk. Erfitt var að raða orðum hans og sýnum saman í rétta tímaröð og því tekið til bragðs að raða þeim í kaflaröð eftir lengd. Sjálft orðið kóran þýðir upplestur og vildi Múhameð með því undirstrika að hann læsi bókina beint úr hendi Gabríels engils. Fyrir múslímum hefur Kóraninn í raun svipaða stöðu og Jesús hjá hinum kristnu þótt mörgum kunni að þykja það undarlegt að bera þannig saman mann og bók. Kóraninn er samkvæmt íslam opinberun Guðs á jörðinni, hann er guðdómlegur, guðdómleg hugsun og lögmál Guðs sem birtist mönnum í rituðu orði. Því gefur að skilja að í þeirra augum er hann óskeikull og allt sem hann segir er guðdómlegt. Hann er hafinn yfir alla gagnrýni og bókmenntalega greiningu eins og þá er tíðkast á Biblíunni. Þó eru að sjálfsögðu til margar túlkunarhefðir. Múslímar segja að Múhameð hafi verið sá síðasti í óslitinni röð spámanna, allt frá Abraham, Móse og Jesú, sem birti þetta guðdómlega orð Guðs. Vissulega hafði Guð talað til mannkyns í gegnum ofangreinda spámenn en aðeins á takmarkaðan hátt. Múhameð sagðist vera hinsti spámaðurinn og að Kóraninn væri hin fullkomna opinberun hins fullkomna vilja Guðs. Ekkert myndi heldur framar bætast við. Engir fleiri spámenn myndu koma í heiminn. Múhameð var því innsigli spámannanna, khatm al-anbiya. Þannig vildi Múhameð sýna að boðskapur hans ætti sér fornar rætur og stæði á grunni spámannlegrar hefðar eingyðistrúarinnar. Ef Kóraninn er borinn saman við Biblíuna kemur í ljós að þar eru margar sömu sögur, en sagðar á mjög ólíkan máta. Sem dæmi má nefna sögu Nóa, Abrahams og ættferðanna, Móse, Davíðs og Salómons, Maríu meyjar og Jesú. Múhameð svaraði gagnrýni á þann hátt að hans kenning væri fullkomnun alls þess er á undan hafði komið. Það væri ekki hann sem hefði misskilið hlutina. Biblía gyðinga og kristinna væri því byggð á misskilningi en ekki Kóraninn. En hvað sem því líður þá virða múslímar kristna menn og gyðinga, þótt þeir um leið haldi því fram að hinir sömu hafi snúið út úr kenningu Guðs. Kristnir menn og gyðingar eru fylgjendur bókarinnar. Á móti hafa kristnir og gyðingar bent á að þeirra bækur, sem Biblían geymir, séu mun eldri Kóraninum og því upp- runalegri heimild sem Kóraninn sé unninn úr. Og þannig hafa menn deilt um langan aldur. Hinn almenni múslími hefur þó ekki miklar áhyggjur af slíkum vangaveltum. Hann veit sem er að Kóraninn hefur algert vald yfir múslímum og því er öll gagnrýni á hann runninn undan rifjum hins illa. Hann er ekki einu sinni sannur nema á frummálinu, arabísku. Hægt er að nota þýðingar til að öðlast grunnskilning á trúnni en frummálið eitt er rétt því að þannig og aðeins þannig opinberaðist Kóraninn Múhameð.
Í næsta og þriðja pistli munum við líta á þróun samskipta íslam og kristni eftir daga Múhameðs.