Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur. Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.Þá sagði hann þeim og líkingu: Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín? Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. Lk.6.36-42
Velkomin til þessarar fyrstu kvöldguðsþjónustu sumarsins hér í Keflavíkurkirkju ágætu kirkjugestir. Samkoma þessi var ákveðin fyrir tveimur mánuðum og þá hafði enginn rænu á því að kanna hvort eitthvað merkilegt væri annað í gangi um þetta leyti. Víst hefðum við fundið okkur einhvern annan tíma ef við hefðum gert okkur grein fyrir því að nú stendur yfir viðburður sem einn milljarður manna situr límdur yfir út um allan heim!
Fótboltinn og lífið
Sumir halda því fram að leikur þessi sé eins og smækkuð útgáfa af lífinu. Það kann að skýra vinsældirnar og reyndar er ekki flókið mál að finna hliðstæðurnar. Þar sækja menn fram að ákveðnu marki en á leiðinni þangað er annar hópur sem stefnir í gagnstæða átt og svo beita liðsmenn öllum þrótti, klókindum og brögðum sem þeir kunna og geta til þess að klekkja á andstæðingum sínum.
Já, er þetta ekki lífsbaráttan í hnotskurn? Þróunarkenningin yfirfærð á mannlífið í einfaldaðri mynd. Þeir sem hæfastir eru, flinkastir og duglegastir að sigrast á hindrunum komast á leiðarenda. Þetta sjáum við allt í kringum okkur í lífríkinu og sumir vilja meina í mannlífinu einnig. Víst nægir ekki öllum að setja átökin upp með táknrænum hætti á iðjagrænum vígvelli knattspyrnunnar. Þeir eru margir sem hafa, allt frá því að kenningar Darwins litu dagsins ljós um miðja 19. öld, viljað nýta þær einnig sem mælikvarða á mannlegar athafnir eða hver er þess umkominn að draga í efa þessa miklu og óhrekjanlegu reglu alls þess lífs sem lifir?
Hinir hæfustu
Þessi hugsun var gegnumgangandi í kapphlaupinu um nýlendurnar. Þeir kölluðu hlutskipti sitt „byrði hvíta mannsins“ og þóttust hafa sönnur fyrir því að sá húðlitur hefði sannkallaða yfirburði yfir aðra og því væri það hlutverk þeirra að drottna yfir þeim kynþáttum sem dekkri voru og óæðri. Nasisminn er skilgetið afkvæmi þessarar hugsunar og verður ekki skilinn nema með hliðsjón af henni. Og vist hugsa margir með svipuðum hætti einnig á okkar dögum.
Og í boltanum eru línurnar skýrðar – búningarnir greina að samherja og andstæðinga, leikreglurnar eru einfaldar og allar blekkingar, allt ofbeldi og látalætin öll sem við sjáum kempurnar sýna á vellinum eru vegin og metin eftir því hver árangurinn er. Að endingu er það sigurinn sem skilur á milli feigs og ófeigs. Sigurvegarinn hampar titlinum og þegar hann höndlar bikarinn skiptir engu máli hvaða brögðum hann beitti. Hér gildir það eitt að sigra.
Bara ein regla og eitt markmið – eins og í lífinu sjálfu. „Þeir hæfustu lifa af,“ sagði merkur maður. Margir hafa etið þau orð eftir honum og yfirfært á mannlegt samfélag. Þetta er allt sami frumskógurinn, sama eyðimörkin, sami fótboltavöllurinn. Hver sigrar? Sá sem lifir af og hefur hina undir í baráttunni hörðu.
Andstæð hugsun
Þessar hugrenningar sækja að nú þegar texti dagsins er hugleiddur. Andstæðurnar skerpa segjum við stundum og hér kemur ein hugsun sem er með öllu frábrugðin þeirri sem að ofan er lýst.
„Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða.Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“
Hér er enginn leikvangur með tveimur mörkum, leikreglum og kempum í takkaskóm. Þær grænu grundir sem Biblían talar um eru af öðrum toga en leikvangurinn sem milljarður manna mænir á nú í kvöld. Á þeim grundum er hvíld. Kristur talar með sönnu um markmið. Allt hans starf og allur hans boðskapur byggir á því að menn eigi sér keppikefli, takmark til að stefna að. En Jesús var friðarhöfðingi. Hann kom ekki á sínum tíma inn fyrir borgarmúrana á hesti – sem í þá daga var sigurtákn stríðsherra. Nei, hann kom á asna, hógvær og lítillátur – enda boðaði hann frið og sátt.
Kempan og barnið
Í orðum sínum bendir Kristur upp til æðri veruleika. Hann bendir okkur á Guð og hann sýnir okkur í eigin lífi hvernig Guð er og starfar. Sú mynd er að sönnu frábrugðin þeim hugmyndum sem menn höfðu í hans daga og raunar hafa enn á okkar dögum. Hann boðar Guð sem sækist þegar allt kemur til alls ekki eftir því að við ávinnum okkur velþóknun hans með verkum okkar og dáðum. Það var öndvert við hugmyndir margra. Lærisveinar hans sáu hlutverk sitt í því sama ljósi. „Hver okkar verður æðstu í himnaríki?“ spurðu þeir hann.
Kristur tók barn í faðm sér og sagði engan þeirra standa því framar. Raunar kæmi enginn til Guðs nema sem barn. Frammi fyrir Guði erum við öll dýrmæt. Það er útgangspunkturinn stóri. Það er fagnaðerindið. Guð lítur til okkar og sér eitthvað ómetanlegt, eitthvað einstakt og heilagt. Hver einstaklingur hefur slíka velþóknu frammi fyrir hinum æðsta.
Hver dæmir?
Slíkt er óhugsandi – segja margir. Hvað með villidýrin á vígvöllunum í Júgóslavíu forðum, í Rúanda, í Zaire, og þeim óteljandi stöðum á jarðarkringlunni þar sem fólk sýnir hvert öðru skelfilega grimmd? Eru slíkir menn helgir fyrir Guði? Skynjar Guð einhverja fegurð í sálum þeirra, eitthvað dýrmætt í sjúkum huga þeirra?
Ég skal ekki segja. Og þó heyrir maður og les frásagnir af því ferli sem á sér stað þegar venjulegt fólk er fært inn í atburðarrás sem rænir það mennskunni. Á lokadögum þriðja ríkisins safnaði SS foringi hópi eldri þjóðverja saman og skráði þá með flýti í herdeild sína. Er þeir voru komnir í einkennisbúningana lét hann þá raða sér upp. Hann sagði þeim frá því að nú ættu þeir að taka af lífi saklausa borgara í þorpi einu í Frakklandi og bauð þeim sem vildu ekki taka þátt í aðgerðinni að stíga fram. Þarna voru skraddarar, skrifstofumenn, kennarar og aðrir borgarar. En enginn þeirra sté fram. Af hverju ekki? Óttuðust þeir um líf sitt? Höfðu þeir ekki manndóm í sér?
Hver er ég til að dæma það? Þó eru þeir ekki saklausir, því fer fjarri. Orð Krists ná ekki til mannlegra dómstóla enda þurfum við lög og rétt. Kristin kirkja þarf að geta starfað í umhverfi þar sem lögum er framfylgt. En hvernig dæmir Guð þá? Það er ekki mitt að svara því.
Réttlæting af trú
Páll postuli segir: „En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.“ Það er ekki hlutskipti okkar að ráða í huga hins æðsta þar sem engin takmörk eru til staðar. Verk okkar og samskipti við náungann miðast ekki við það að ávinna okkur sess frammi fyrir Guði. Þar lúta önnur lögmál í kristinni siðfræði.
Hér er stór þversögn sem stríðir gegn svo mörgu sem fangar huga okkar mannanna – rígheldur okkur og höfðar til einhvers kjarna djúpt í sálu okkar. Hér stöndum við frammi fyrir takmörkum skilnings okkar. Hér mætir hugsun okkar endimörkum sínum.
En samt greinum við í henni ákveðna fegurð og greinum í henni djúpan sannleika. Þekktur vísindamaður og boðberi trúleysis var hér á landi á ráðstefnu. Í viðtali sem tekið var við hann mátti fljótt skynja að hann hafði megnustu óbeit á öllum trúarbrögðum og fann hann þeim allt til foráttu. Þó gat hann ekki á sér setið og tilgreindi þennan texta – Fjallræðuna – sem dæmi um fagran boðskap kristninnar og framlag hennar til mannkyns.
Góðu verkin
Í hverju felst erindi hennar til okkar? „Dæmið ekki“ Jú, þau minna okkur á það að einblína ekki á sökina hjá öðrum. Horfa í eigin barm og gæta að því sem við sjálf getum lagað þar og betrumbætt. Kristin trú er af öðrum toga en önnur trúarbrögð mannkyns. Hún boðar ekki að siðareglurnar sjálfar ryðji mönnum brautina að Guði. Gagnvart Guði er lífið ekki leikvangur þar sem menn þurfa að fylgja reglunum, yfirstíga hindranir og vinna sér svo af harðfylgi leiðina að Guði.
Kristur tók barnið sér í faðm og sagði að það væri æðst í himnaríki. Barnið kann að þiggja. Barnið kallar fram kærleika. Guð birtist okkur í jólafrásögninni sem barn. Á þeim grænu grundum þar sem kristnir menn lifa lífi sínu stunda þeir ekki átök við náungann til þess að komast leiðar sinnar. Þeir hafa í brjósti sér þá fullvissu, þá trú, að þeir séu umluktir kærleika Guðs. Og í krafti þess kærleika – vegna trúarinnar – reyna þeir að ala önn fyrir náunga sínum. Þeir sýna kærleika sem sprettur af trú þeirra – því er ekki öfugt farið.
„Dæmið ekki og þér munið ekki dæmdir verða“ Þetta er afleiðingin af því að skynja kærleikann í lífi sínu. Og í framhaldi af því greina menn náunga sinn sem dýrmæta sköpun Guðs. Um leið skynja menn það hvernig gleðin vex og umhyggjan og upplifa þann frið að sem því fylgir að sýna náunganum miskunn og sátt.
Predikunin var flutt á sama tíma og vítaspyrnukeppni fór fram í úrslitaleik HM!