Boðunardagur Maríu

Boðunardagur Maríu

Sunnudaginn 21. mars ber að þessu sinni upp á boðunardag Maríu, en boðunardagur Maríu er frá fornu fari hinn 25. mars.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
20. mars 2010

Sunnudaginn 21. mars ber að þessu sinni upp á boðunardag Maríu, en boðunardagur Maríu er frá fornu fari hinn 25. mars.

Guðspjall boðunardagsins segir frá því þegar erkiengillinn Gabríel birtist Maríu í Nasaret til að flytja henni boð frá Guði.

Um erkiengilinn Gabríel mætti flytja langt mál, en hann er einn aðal-sendiboði Guðs til manna í Biblíunni og þó víðar væri leitað.

María er aftur á móti unglingsstúlka þegar sagan gerist, trúlofuð manni sem heitir Jósef, örugglega ekki eldri en 14 ára ef við miðum við giftingaraldur stúlkna í Ísrael á tímum Jesú.

Boð Gabríels til Maríu eru tvennskonar. Annarsvegar þau að hún njóti náðar Guðs umfram aðra menn. Hinnsvegar að Guð hafi útvalið hana til að fæða son. Hún á að gefa honum nafnið Jesú og hann mun ríkja yfir veröldinni að eilífu.

María verður óttasleginn þegar hún fær boðin og skilur ekki hvernig þetta megi verða – hún sem hefur aldrei verið með karlmanni. En engillin segir henni að óttast ekki, andi Guðs og kraftur hins hæsta muni yfirskyggja hana, og barnið verði því heilagt – sonur Guðs.

Þá segir María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“

Þessa atburða minnumst við sem sagt nú, níu mánuðum fyrir jól, en níu mánuðir eru einmitt meðgöngutími barns, og þess vegna ákvað kirkjan fyrir mörgum öldum að helga þennar dag köllun eða boðun Maríu.

Dagurinn hefur verið haldinn heilagur allt frá 4. öld. Lúter staðfesti hann sem helgidag, enda frásögn helgidagsins kyrfilega staðfest í Biblíunni.

Á boðunardegi Maríu á vel við að fara með hina fornu Maríubæn sem er svohljóðandi:

Heill þér María, full náðar, Drottinn er með þér.

Blessuð sért þú meðal kvenna

Og blessaður sé ávöxtur kviðar þíns, Jesús.

Heilaga María – móðir Guðs.

Bið þú fyrir oss syndugum mönnum.

Bæði nú og á dauðastund vorri.

Vonandi minnast söfnuðir landsins þessa merkilega dags sem víðast.

Guðspjall dagsins er að finna hjá Lúkasi, í fyrsta kafla:

En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María. Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“

En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“

Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“

Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs. Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, en Guði er enginn hlutur um megn.“

Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.