Mannanna börn

Mannanna börn

Sjáum fyrir okkur vígvöll. Fjöldi hermanna berst við uppreisnarmenn. Þungum vopnum er beitt. Byssuskot fljúga. Sprengingar heyrast. Við skiptum um sjónarhorn og förum inn í stóra byggingu þar sem uppreisnarmenn halda til. Sjáum unga konu sem hniprar sig saman með nýfætt barn sitt sem fæddist inn í þessar ótrúlegu aðstæður.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
24. desember 2009

Úr kvikmyndinni Children of Men

Sjáum fyrir okkur vígvöll. Fjöldi hermanna berst við uppreisnarmenn.  Þungum vopnum er beitt. Byssuskot fljúga. Sprengingar heyrast. Við skiptum um sjónarhorn og förum inn í stóra byggingu þar sem  uppreisnarmenn halda til. Sjáum unga konu sem hniprar sig saman með nýfætt barn sitt sem fæddist inn í þessar ótrúlegu aðstæður. Svo byrjar barnið að gráta. Og í einni  svipan er sem tíminn stöðvist. Byssurnar þagna. Sprengingarnar líka. Móðir og barn eru leidd óhult niður tröppur, út á vígvöll götunnar og halda sína leið, gegnum hinar stríðandi fylkingar. Grátur barnsins snertir við hjörtum mannanna. Vekur af svefni þrána til lífsins. Miðlar von. Stöðvar stríðið. Þetta er heilög stund.

* * *

Þetta atriði er að finna í kvikmyndinni  Mannanna börn – Children of  Men. Hún segir frá samfélagi í kreppu. Þar hafa engin börn fæðst um  árabil og það hefur leitt til örvæntingar og vonleysis sem birtist í harðræði og ofbeldi. Svo gerist það að ung kona verður ófrísk. Hún tilheyrir lægstu stéttum samfélagsins sem hafa enga rödd og fá engin tækifæri. Hana þarf að vernda og barnið ófædda þarf að vernda því margir vilja komast yfir barnið og nota það í sína eigin  þágu. Í barninu sjá þeir það sem þá vantar: von um framtíð.

* * *

Bíómyndir geta verið athvarf frá dagsins önn, en þær ögra líka, fá okkur til að hugsa málin upp á nýtt og  birta nýja sýn á veruleikann. Stundum varpa þær nýju ljósi á eitthvað sem við töldum okkur þekkja nokkuð vel. Það gerir Mannanna börn. Myndin sem hún dregur upp af fæðingu barnsins, kallast á við jólaguðspjallið um barnið í Betlehem. Við horfum á myndina og upplifum frið jólanna í gegnum átökin, hávaðann og hætturnar. Virðum barnið fyrir okkur, heyrum grátinn og erum minnt á eigin þrá og von eftir frið og öryggi.

Nú er tími vonarinnar.

Guð gefi okkur gleðileg jól.

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir