Jólafrásagnir, helgisögur og raunveruleiki

Jólafrásagnir, helgisögur og raunveruleiki

Jólafrásagnirnar eru tvær í Nýja testamentinu. Jólaboðskapur Lúkasar sem er vel kunnugur en svo er frásaga Matteusar. Þar höfum við frásöguna um Betlehems-stjörnuna og vitringana sem hefur yfir sér helgisagnablæ. Hvernig getur helgisaga átt við raunveruleikann?
Mynd
fullname - andlitsmynd Guðmundur Guðmundsson
24. desember 2019
Flokkar

Gleðileg jól!

Við eigum tvær jólasögur í Nýja testamentinu. Það er jólaboðskapur Lúkasar. Svo er það jólaboðskapur Matteusar. Þær fléttast nokkuð saman í huga okkar og jólasálmunum sem við syngjum. Matteus talar um Betlehemsstjörnuna og komu vitringanna. Sumir telja þetta helgisagnir um yfirnáttúrlega hluti. En á jólum leyfum við okkur að lesa þær og velta þeim fyrir okkur.

Fólk flest er meira fyrir helgisögur eða draumaveröld en við áttum okkur alltaf á. Söngvasveigur er kvikmynd um töframátt tónlistarinnar gegn ofurvaldi harðstjóra. Fóstran kemur með frelsandi söng inn í fjölskylduna sem var föst í sorginni og þau bjargast frá yfirvofandi lífshættu. Annað dæmi er Ronja ræningjadóttir sem hefur nýlega verið sett á svið hér á landi. Astrid Lindgren, höfundurinn, lætur hana byggja brú yfir helvítisgjána, sem gamall flokkadráttur útlaga hafði myndað. Það er sameiginlegt þessum sögum og sálmi Brorsons sem sunginn er um jól: „Hin fegursta rósin er fundin“, að þær fást við djúpa þrá eftir lausn á gátu lífsins, þjáningunni, sársaukanum og neyðinni, sem lífið hefur í för með sér. Myndin af rósinni með þyrnunum, er talandi dæmi um lífið eins og það er í raun og veru.

vitringarnir_ravenna

Það er til helgimynd í Ravenna á Ítalíu frá ca. 550 af vitringunum þremur. Það er mósaíkmynd þar sem þeir koma Kaspar, Melkíor og Gaspar, eru þeir nefndir, með gjafir sínir gull, reykelsi og myrru. Jólaboðskapur Nýja testamentisins geymir báðar þessar hliðar lífsins, helgimyndina og raunveruleikann. Betlehemsstjarnan fjallar ekki um siglingafræði stjörnuspekinga heldur að í visku trúarbragðanna er ljós sem vísar okkur til Krists. Og að mannkynið geymir djúpa þrá eftir ljósi og leiðsögn í lífinu. Í jólakveðju skrifaði ég nokkur erindi sem ég leyfi mér að fara með. Fyrsta erindið er svona:

Falleg helgimynd mig minnir á
að mannkyn geymir í sér djúpa þrá
eftir lausn á lífsins gátu og neyð
að leiðin áfram reynist fólki greið.

Við erum leidd áfram í þessari torskildu veröld. Auðvitað höfum við náð nokkrum skilningi á henni. Það er ekki þannig að trúarbrögðin víki þar sem þekkingin eflist. Kristnum mönnum með öllum öðrum er gefin skynsemi til góðra hluta. Það er nauðsyn að við nýtum hana lífinu til framdráttar. Við sjáum óttalega framtíð fyrir okkur mörg hver. Þjóðirnar leggja á ráðin að stöðva hömlulausa græðgi og rányrkju. Það vitum við af náttúrunni, veröldinni, sem við lifum í, að það verður að bregðast við. Það eru raunverulegir þyrnar í veröldinni okkar. Kannski finnst einhverjum rödd kirkju og kristni hjáróma sem bendir á leiðarstjörnu í þessum stóru málum en líka í persónulegu lífi. Guð leiðir okkur áfram. Það þýðir ekki að honum er ætlað að bjarga málum fyrir okkur og við getum látið reka á reiðanum, heldur að við erum ábyrg, ekki aðeins gagnvart komandi kynslóðum, heldur gagnvart Guði sjálfum. Orðið Guð er nefnilega að mínu viti samskiptaorð. Þá er Guð kjarninn í trausti okkar sem öll samskipti okkar byggjast á. Guð þinn er sá eða það sem þú setur traust þitt á. Guð er handan við veröld okkar, ofar stjörnum og sólkerfum, í hendi hans er alheimur allur. Hann er skaparinn og hugur minn er hluti af veröldinni sem ég er að reyna að höndla en þegar ég rekst á þyrna í samskiptum reyni ég að skilja, út frá Guði, reyni að sjá rósina, ljósið og himininn ofar þessari jörð, þó að þyrnarnir stingi. Það reynir þá á trúna. Þá reynir á það hvort ég treysti því að algóður Guð leiðir mig áfram veginn til góðs eða jafnvel um ófæran veg.

Stjarna lýsir fögur fjöllin há
og ferðalangar þrír þau halda á,
þeir um ófær skörð þó komast skjótt
í skini hennar helga jólanótt.

Bæði jólaboðskapur Lúkasar og Matteusar er óþægilega raunsær, svo að maður veigrar sér við að rifja hann upp á jólanótt. En það væri að láta undan freistingunni að lifa í helgislepju og eintómum draumórum. Það er eins og með fallegu rósina og þyrnana sem stinga í augu. Guð hefur með sannleikann að gera. Guð er sannleikur, raunverulegri en við getum gert okkur í hugarlund, langt í frá að vera hugarburður manna. (Ef við hugsum sem svo að hann er skaparinn og við sköpun hans, þá er hann raunverulegri en við.) Eina leiðin er að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru þegar við erum að fást við Guð. Það er í bæn og tilbeiðslu sem það gerist. Bæn er ekki að hjala við drauma og að sefja sjálfan sig við erfiðar aðstæður heldur að takast á við raunverulega neyð sína og annarra. Þar er Guð. Þannig lifum við í veruleikanum með Guði sem gefur og við þiggjum allt af.

Þá komum við að því að það er okkur ekki eðlilegt að hugsa þannig. Vitringarnir sem tilbáðu Guð eru táknmynd um undantekninguna. En Heródes konungur með fulltrúum trúarbragðanna í Jerúsalem verða okkur raunsönn lýsing á veröldinni sem við lifum og sjáum af fréttaflutningi nánast á hverjum degi. Ágústínus keisari rómverska herveldisins var nefndur af Lúkasi. Börn líða skort, konur er ofsóttar, mannkyn er ennþá í hernaðarbrölti og veldur meðbræðrum og systrum og börnum ómældri þjáningu. Viska Guðs birtist í jólaboðskapnum sem er á skjön við mannlega visku og bregður þessu óþægilegu ljósi á veröldina okkar.

Valdafólk í veröld ekki sér
að viska Guðs af manna speki ber,
þó að státi sinni þekking af
hún sælu trygga þeim þó enga gaf.

Sömuleiðis eru þeir Lúkas og Matteus sammála um að himnagláp er ekki hlutverk okkar. Stjarnan vísar vitringunum leiðina. Þrísvar sjá þeir stjörnuna, fyrst þegar þeir leggja af stað, svo þegar þeir losna úr höll Heródesar, en síðast yfir húsinu þar sem Jesús var. Þar ganga þeir inn og sjá barnið hjá móður sinni og tilbiðja Jesú. Færa honum gjafir. Lúkas segir frá hirðunum sem sjá himininn opin og engla flytja þeim gleðilegan boðskap. En hvað áttu þeir að gera? Fara til Betlehem og finna barnið sem þeir gerðu. Sem sagt frá himni til barnsins í jötunni, í lágum stalli.

Hvað er Guð að segja þér með þessum dásamlegu helgisögum? Þarna hætta þær að vera helgisögur og snúast alfarið um Guð. Það gerir þær einstakar. Í barninu í Betlehem sérðu Guð sjálfan eins og hann er. Algjörlega umkomulaust ósjálfbjarga reifabarn í ógnvænlegum heimi. Með því kallar Guð fram föður eða móður tilfinningar þínar, sem er vafalaust kærleikurinn mesti í mannlegri tilveru. Hann kallar fram kærleika manna á milli. Helgisagan flytur þér þann boðaskap að Guð er í þeim minnstu bræðrum okkar og systrum, Guð stendur með þeim smæstu okkar á meðal. Þau eigum við að elska eins og Guð elskar og gerir öllum vel. Guð er í hrópandi andstöðu við allt ofbeldi og þvingun. Það er jólaboðskapurinn.

Öfgarnar í frásögunni koma fram þar sem vitringarnir frá austurlöndum tilbiðja barnið. María móðir Jesú tilbiður einnig barnið sitt sem frelsara heimsins. Um það snúast sálmarnir sem við syngjum á jólanótt um Jesús-barnið sem fæddist í raun og veru á tilsettum tíma og stað, til að birta okkur kærleika Guðs, sem er ofar mannlegum skilningi, en við megum finna samastað hjá syni Guðs, hjá og með okkar nánustu og öllum meðbræðrum okkar og systrum.

Visku Guðs þau hjartahreinu sjá
sem hylla barnið móður sinni hjá,
með þeim smæstu stendur Guð á jörð,
Guðs syni færum lof- og þakkargjörð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.