Óðurinn til hvíldarinnar

Óðurinn til hvíldarinnar

Gömul bréf eru auðlind, viðfangsefni sagnfræðinga sem fá með þeim dýrmæta innsýn í horfinn hugarheim. Ofgnótt dagsins skilur ekkert slíkt eftir. Það er helst að ómennskur hugbúnaður fari í gegnum þessi býsn sem frá okkur streyma í tölvuheimi til að kortleggja hvernig megi stjórna því hvað við kaupum, hvert við förum og hvað við kjósum.

Flutt 19. nóvember 2017 í Neskirkju

Lífsgæðin eru til umfjöllunar þessa dagana sem aldrei fyrr nú meðan við bíðum átekta hverjir muni stjórna þessu landi okkar næstu árin. Hér takast á hugsjónir, gamlar hugmyndir um réttlæti og velferð en svo auðvitað líka aðstæður sem eru engum öðrum aðstæðum líkar.

Breyttir tímar

Sjálfur er ég alinn upp við tíma þegar helsta ágreiningsmál vinstri og hægri laut að varnarmálum. Átti herinn að fara burt eða vera um kjurt? var stóra spurningin en hún á auðvitað ekki heima í samtali þessara daga. Í dag eru vandamálin önnur og í fljótu bragði virðast þau vera minni en áður. Við njótum kjara sem fyrri kynslóðir hefðu vart þorað að láta sig dreyma um, slík framtíðarsýn hefði þótt vera til marks um draumóra og óhóflega bjartsýni. Jú, margt mætti betur fara og engin ástæða er til að leggja árar í bát en við lifum á ótrúlegum tímum þar sem tölfræðin birtir okkur hverja vísbendinguna á fætur annarri um að mannkynið er á mikilli sigurför.

Aldrei áður hafa hungur og styrjaldir haft eins lítil áhrif á vegferð fólks og nú. Fleiri deyja af völdum óhollustu og ofáts en af skorti og hungri. Telja má upp nokkra svo kallaða lífsstílssjúkdóma sem hver og einn krefst fleiri mannslífa á ári hverju en hryðjuverk og stríð til samans. Já, við erum uppi á tímum þar sem sykur er mannskæðari en byssupúður svo einkennilega sem það kann að hljóma.

Lífið virðist vera í betri höndum en áður hefur verið og þá má ekki gleyma helstu auðlindinni og því sem mestu varðar um gæði tilverunnar. Það er sjálfur tíminn sem meistari Megas bendir á að líði áfram og teymi okkur á eftir sér. Það ber ekki á öðru en við séum að ná ágætum tökum á honum líka, eða hvað? Nú tekur það augnablik að vinna verk sem áður útheimtu miklar tímafórnir.

Svo ég rifji nú aftur upp dæmi úr minni eigin fortíð þá minnist ég þess frá miðjum tíunda áratugnum þegar tölvupósturinn kom mér fyrst fyrir sjónir. Við bjuggum þá í Danmörku og Íslendingum þar syðra var tíðrætt um að ekki þyrfti lengur að skrifa sendibréf, kaupa frímerki og fara með í póst heldur mætti senda þetta á augabragði. Ekki þurfti lengur að bíða í nokkra daga eftir að textinn kæmi fyrir sjónir móttakarans og svarið gætum við fengið um hæl. Þvílíkur tímasparnaður! sögðum við sigri hrósandi yfir þessu nýjast afreki mannsandans. Já, þarna gátum við nýtt betur þessi verðmæti sem andartökin okkar eru!

Ætli margir líti á tölvupóstinn í dag, sömu augum?

Eru spjótin að snúast í höndum okkar?

Og þetta á við um svo margar aðrar nýjungar sem áttu að drýja stundirnar og auka frelsi og svigrúm. Það er eins og sigrarnir séu ekki eins glæstir og í fyrstu mætti ætla. Fáir held ég að skynji líf sitt sem svo, að þeir búi við ofrausn næðis og stunda.

Þvert á móti, þá verða nýjar spurningar sífellt áleitnari: Hvar liggja skilin á milli hvíldar og vinnu, næðis og ónæðis? Hvær erum við raunverulega komin heim og getum lagt frá okkur amstur daganna? Eitt sinn voru þessi mörk nokkuð skýr. Þá var fólk utan þjónustusvæðis þegar það yfirgaf vinnustaðinn, það hafði ekki aðgang að stórmörkuðum þegar vinnudagur var að baki eða vinnuvikan. Það gat vissulega verið hvimleitt ef vantaði sykur eða smjör í helgarbaksturinn en þá bankaði maður upp á hjá nágrönnum og fékk lánað það sem vantaði. Nú rennur þetta allt í eitt. Verslanir eru opnar nánast allar stundir ársins, við getum átt von á því hvenær sem er að hverfa inn í heim starfans.

Síminn er allaf í seilingarfjarlægð, tölvupóstarnir berast í miklum mæli á augabragði og þegar innihaldið varðar ekki þær kröfur sem vinnumarkaðurinn gerir til okkar þá eru það alls kyns erindi sem oftar en ekki eru skrifuð með allt öðrum hætti en gömlu sendibréfin. Þá vandaði fólk orðaval og setti niður það sem mestu varðaði. Gömul bréf eru auðlind, viðfangsefni sagnfræðinga sem fá með þeim dýrmæta innsýn í horfinn hugarheim. Ofgnótt dagsins skilur ekkert slíkt eftir. Það er helst að ómennskur hugbúnaður fari í gegnum þessi býsn sem frá okkur streyma í tölvuheimi til að kortleggja hvernig megi stjórna því hvað við kaupum, hvert við förum og hvað við kjósum.

Eru spjótin að snúast í höndum okkar?

Þið sem erfiðið

Í guðspjalli dagsins er sannarlega talað um lífsgæði og þar er að finna yfirlýsingu um auðlindir og hugsjónir sem varða okkur öll. Þar talar Jesús til okkar sem eigum drauma og væntingar og háleitar hugmyndir um hið ákjósanlega líf. Þetta var á öðrum tímum og áskoranirnar voru margar en það er nánast eins og orðunum sé beint til samtíma okkar mitt í þeirri óreiðu sem fangar hug okkar og lífið sjálft:

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

Þegar Jesús boðar okkur langþráða hvíld, talar hann inn í samhengi Biblíunnar. Þar skipar næðið og friðurinn svo stóran sess að jafnvel sjálfri sköpunarsögunni lýkur með yfirlýsingu um að Guð almáttugur tók frá tíma til hvíldar. Syndafallinu er lýst með þeim orðum að Drottin vísaði skötuhjúunum Adam og Evu út úr aldingarðinum er því lýst svo að þau þurfi að strita í erfiði sínu, friðlaus og eirðarlaus. Paradísin í því tilviki er einmitt hvíldin. Og í frásögninni í Exódus af för Ísraelsmanna til fyrirheitna landsins segist Guð vera með þjóðinni á þeirri eyðimerkurgöngu: „Auglit mitt mun fara með þér og ég mun veita þér hvíld.”

Í sömu bók lesum við um það þegar Boðorðin tíu eru opinberuð þessum hrakta lýð og þar segir í þriðja boðorði: „Halda skaltu hvíldardaginn heilagan”. Árþúsundum síðar þegar prestar útskýra boðorðin fyrir fermingarbörnum er lítið mál að fjalla um það sem bannar fólki að myrða, stela, ljúga og drýgja hór. En þetta með hvíldardaginn vefst mjög fyrir börnum samtímans. Dagarnir verða jú hverjir öðrum líkir og þá sjaldan gefst tóm til hvíldar er það óðara fyllt með ókyrrð af skjánum sem ertir skilningarvitin og rænir stundum. Ekki skyldi undra að það sé farið að bera á auknum vandamálum hjá þeim hópi sem okkur ber að nesta fyrir lífið. Skyldi vera að boðskapur Biblíunnar um mikilvægi þess að geta notið endurnæringar í hvíldi sé vitrænni en þau ósköp sem samtíminn hellir yfir okkur af hávaða og ljósum?

Óðurinn til hvíldarinnar

Óðurinn til hvíldarinnar, þess að geta hafið sig yfir gang tímans, er á sinn hátt, tímalaus. Hann talar til kynslóðar sem hraktist um í óbyggðum og vissi ekki hvað beið. Hvíldin varð ekki eitthvert hangs heldur í raun mikilvægur þáttur í sjálfsmynd þeirra sem trúðu á Guð. Hún er jafn mikilvæg og sköpunin, uppbyggingin og vinnan. Sjálfur hvatti Jesús lærisveina sína einatt til að draga sig út úr skarkalanu, rétt eins og við þurfum öll að anda að okkur til að geta andað frá.

Leitin að fyrirheitna landinu er okkur öllum hugstæð. Hún birtist í pólitíkinni þar sem markmiðin ættu að vera þau sömu þótt leiðirnar séu ólíkar. Hún birtist í áreynslufullri leit mannsins að því að bregðast við vandamálum, setja sér áskoranir og reyna með tækni og hugviti að færa tilveruna til farsældar. Vissulega hefur þar mörgu verið áorkað en ógnin birtist okkur líka, friðleysið er ekki vænlegur kostur. Þótt við sjáum árangurinn víða birtast okkur ný vandamál sem mörg hver kalla á algera endurskoðun á því hvernig við lifum og nýtum hinar dýrmætu stundir.

Kristur býður okkur að leggja frá okkur okið sem á herðum okkar hvílir og kallar okkur til samfélags í því sem Biblían kallar líf með Guði. Þar þarf engar græjur og ekkert amstur. Aðeins að kyrra hugann og opna hann fyrir fagnaðarerindi Krists um fyrirgefningu og líf í kærleika.