Óttinn og þakklætið

Óttinn og þakklætið

Þau systkinin, óttinn og þakklætið, eru bæði nauðsynlegir ferðafélagar í ólgusjó lífsins. Spurningin er hins vegar þessi: Hvort þeirra viljum við hafa í stafni eða nýta sem áttavita á ferðinni? Er það óttinn sem á að ráða för og stjórna viðhorfum okkar? Nei, látum frekar þakklætið verða yfirsterkara.
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
09. júní 2015

Ótti er að vissu marki nauðsynlegur öllum manneskjum. Rökrétt hræðsla hjálpar okkur að vera á varðbergi gagnvart hættum og hvetur okkur þannig til að vernda okkur sjálf og okkar nánustu eftir því sem við getum. Þannig má jafnvel segja að slysavarnir og öryggisbúnað, t.d. í umferðinni eða á hafi úti, megi þakka ótta okkar við óhöpp.

En svo hræðumst við auðvitað ótalmargt og ótti okkar er ekki alltaf rökréttur. Sumt viðurkennum við fullum fetum og gerum jafnvel grín að því, t.d. ótta við mýs eða kóngulær eða myrkur. Svo getur verið annars konar kvíði eða hræðsla sem við gröfum djúpt í hjartanu og deilum ekki með neinum. Guð einn þekkir það sem þar býr.

Kannski hræðumst við oftar en ekki hreinlega okkur sjálf - okkar eigin viðbrögð eða mistök, að valda sjálfum okkur vonbrigðum, líta illa út eða eyðileggja fyrir öðrum. Óttinn getur nefnilega hæglega tekið af okkur völdin og farið að stjórna því sem við segjum, gerum eða jafnvel hugsum.

Þakklætið er eiginlega eins og systir óttans. Sumt af því sem ég hef óttast mest í lífinu hefur einmitt verið það sem ég hef orðið þakklátastur fyrir, eins og til dæmis að herða upp hugann og gera hosur mínar grænar fyrir eiginkonunni á sínum tíma! Þakklæti getur sprottið af kærleika, sem rekur út ótta. Það er svo vel orðað í 1. Jóhannesarbréfi (4.18): „Ótti er  ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann.“

Í liðinni viku sýndi Kastljósið viðtal við Helgu Steffensen brúðuleikara í tilefni af því að Brúðubíllinn er að hefja sýningar 35. árið í röð. Sjálf er Helga orðin áttræð en heilsugóð og enn að störfum og það var gaman að hlusta á hana segja frá ævistarfi sínu og lífsspeki. Hún sagðist byrja hvern dag á að fara út í dyr, þakka Guði fyrir nýjan dag og signa sig. Þannig tæki hún á móti deginum og gengi til móts við verkefni hans.

Stundum fyllist hjarta okkar eins og sjálfkrafa af þakklæti, til dæmis þegar við á góðri stundu skynjum fegurð og mikilfengleik náttúrunnar eða erum stolt af börnunum okkar. En við þurfum líka að minna okkur á að vera þakklát, temja okkur eins og Helga það viðhorf og venju í daglegu lífi að þakka Guði fyrir hvern dag og gjafir hans.

Þau systkinin, óttinn og þakklætið, eru bæði nauðsynlegir ferðafélagar í ólgusjó lífsins. Spurningin er hins vegar þessi: Hvort þeirra viljum við hafa í stafni eða nýta sem áttavita á ferðinni? Er það óttinn sem á að ráða för og stjórna viðhorfum okkar? Nei, látum frekar þakklætið verða yfirsterkara. Látum það móta lífsviðhorf okkar og tökum undir orðin úr Davíðssálmum (107.1):

„Þakkið Drottni því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.“