Það er góð og holl afþreying að fara með börnum sínum í bíó, enda geta kvikmyndir ætlaðar börnum falið í sér góðan boðskap sem minnir á hið góða og fagra í lífinu. Að fjölskyldan horfi saman á kvikmynd skapar minningar, samfélag og samræður og er því góð forvörn.
Nýlega fór ég í kvikmyndahús í Reykjavík með börnunum mínum og það vakti athygli mína að áður en sýningin hófst var sýnd áfengisauglýsing fyrir léttöl. Ég gerði athugasemd við sýningu auglýsingarinnar og var viðurkennt að mistök hefðu átt sér stað. Þrátt fyrir það var auglýsingin enn þá í sýningu tveimur dögum síðar.
Í lögum sem nýlega voru sett á Alþingi segir að auglýsingar sem geta haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, séu bannaðar á þeim tímum þegar börn eru að horfa. Þessum lögum er ætlað að standa vörð um bernskuna og koma í veg fyrir óæskileg skilaboð á mikilvægum mótunartíma barnsins. Einnig að stuðla að forvörnum og öruggu samfélagi barnanna okkar.
Við sem uppalendur þurfum stöðugt að spyrja okkur spurningarinnar hvernig samfélag viljum við búa börnum okkar. Í viðleitni okkar við að svara þeirri spurningu verðum við að sýna ábyrgð, setja okkur í spor annarra og sýna hvert öðru virðingu. Viljum við að sýndar séu áfengisauglýsingar í fjölmiðlum eða á kvikmyndasýningum á tímum þegar börn yngri en 18 ára eru að horfa? Hér berum við öll ábyrgð. Mikilvægt er að foreldrar og aðrir standi vaktina gegn ágengni auglýsinga sem virða ekki siðræn mörk. Fyrirtæki sem vilja kynna vöru sína sýni vandvirkni og stundi heiðarleg vinnubrögð og eigendur fjölmiðla og kvikmyndahúsa sýni ábyrgð og starfi af fagmennsku. Þannig byggjum við saman upp gott samfélag sem byggist á virðingu og búum börnunum okkar traust og öruggt samfélag.