Róleg jólafasta?

Róleg jólafasta?

Jólafastan okkar í dag er orðin svolítið eins og orðið „rólegt“ hefur þróast í sænskunni
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
23. nóvember 2011

Mikið væri líf okkar nú auðvelt ef allir kirkjugestir væru svona eins og þið. Líklega er leitun að þægilegri og áhyggjulausari viðburði inni í kirkjuskipinu okkar en þessum, þar sem gestirnir taka með sér hljóðfæraleikara og fagfólk sem skipuleggur þetta í þaula. Í okkar hlut kemur að leggja til fáein orð til hugvakningar og er það auðvitað ljúft og gleðilegt að verða við þeirri beiðni.

Að leggja til orð

Einmitt það að leggja til orð, er inntak hugvekjunnar þetta árið. Orðin eru nokkuð sem við megum alveg ræða og velta fyrir okkur. Orðin eru t.d. mikið umræðu á mínu heimili þessar vikurnar. Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn er ekki enn farinn að mæla orð af vörum og er mikil samkeppni meðal okkar hinna að sjá hvert verður hið fyrsta sem frá honum kemur. „Mamma“ væri auðvitað nokkuð fyrirsjáanlegt hjá brjóstmylkingi. „Pabbi“ væri þó ekki alveg út í bláinn, þó ekki nema fyrir það að baugarnir dýpkað talsvert undir augunum á þeim gamla – nema þetta séu bara broshrukkur. Svo vilja systkinin endilega koma sínum nöfnum að. Blessaður drengurinn fær þessi orð yfir sig í sífellu – en sem fyrr er sagt, þá á hann bara ekki orð. Það er þó ekki af undrun eða hneykslan, heldur af þeirri staðreynd að hann er bara sjö mánaða gamall.

Rólegt?

En við eigum orð yfir ýmsa hluti og stundum finnum við það hvernig tíminn tekur völdin af orðunum og þau breytast, fá nýja merkingu eða jafnvel allt aðra. Eitt sinn bjuggum við hjá frændþjóðinni Svíum og þeirra tungumál er jú náskylt okkar. Eitt og eitt orð hefur þó breyst í rás kynslóðanna. Við uppskárum oft furðusvip hjá viðmælendum okkar þegar við töluðum um að eitthvað væri „rólegt“ í merkingunni rólegt en ekki skemmtilegt eins og orðið merkir á sænsku. Við sögðum leigusölum okkar að hafa ekki áhyggjur af því að við yrðum með stanslaust partíhald í húsinu þeirra. Þeir ráku svo upp stór augu þegar við bættum því við að, við værum jú frekar „skemmtilegt“ fólk. Og vegfarandinn úti á götu varð hvumsa jafnvel móðgaður er hann var að segja mér til vegar og ég greip fram í og bað hann um að tala ögn „glaðlegar“. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig mér yrði við ef ókunnugur maður stoppaði mig í miðri frásögn og segði: „fyrirgefðu gæturðu verið aðeins glaðlegri“.

Ég ætlaði jú bara að biðja hann um að tala ögn rólegar.

Og hér erum við stödd rétt fyrir upphaf þessa tíma sem við köllum aðventu, sem er jú erlent orð. Íslenskan á yfir það mjög gott og gegnsætt orð, „jólafasta“. Jólafasta er nafnið á vikunum fyrir jól. Við upphaf jólaföstunnar hefst nýtt kirkjuár – en það er eitt orðið enn sem kann að virðast framandlegt. Kirkjuárið byrjar á fyrsta sunnudegi í jólaföstu og á kirkjuárinu eru árstíðir eins og öðrum árum. Þessar árstíðir hafa sína liti eins og slíkum sæmir. Nema þær helgast ekki af magni sólarljóssins heldur því hvernig hinn innri maður á að mæta hverjum tíma.

Kirkjuárið

Kirkjuárið er grænt lengst af, en græni liturinn táknar gróskuna og vöxtinn sem á að einkenna líf okkar kristinna manna. Sorgin og dauðinn eiga sína daga á kirkjuárin og þeir eru táknaðir með svörtum lit. Heilagur andi er táknaður með rauðu og sá er einnig litur písarvottanna. Gleði og hátíðsdagar eru svo hvítir og loks eru tvö tímabil á kirkjuárinu fjólublá. Það eru fösturnar, langafasta á undan páskum og svo jólafastan ... einmitt.

Hver er hugmyndin að hafa föstur á undan hátíðum? Það er jú gert í því skyni að gera okkur móttækileg í andanum fyrir gleðinni og glaumnum sem hátíðinni fylgir. Jólafasta er ekki hugsuð sem upphitun fyrir jólaveisluborðin, gjafirnar og hóglífið. Hún er miklu frekar andstæðan sem skerpir á eiginleikunum. Rétt eins og ljósin sem lýsa upp næturhimininn gera nú í skammdeginu. Segir ekki klisjan að grænlendingar þekki ekkert orð yfir snjó – því snjórinn er allt í kringum þá? Þetta mun vera fjarri öllum sanni en hugsunin er samt nokkuð góð. Ef við þekkjum ekki andstæðurnar, þá fá fyrirbærin ekkert heiti.

Róleg fasta

En jólafastan okkar í dag er orðin svolítið eins og orðið „rólegt“ hefur þróast í sænskunni. Hún hefur öndverða merkingu. Nú er hún ekki sem andstæðan er kallar fram sérstöðu hátíðarinnar, skapar hjá okkur eftirvæntingu og, já hungur, í gleðina sem bíður okkar á jólunum. Hún er miklu fremur eins og upphitun, jafnvel svo mikil að sumir eru orðnir úrvinda þegar hringt er inn í hátíðina.

Þess vegna er það líka svo gaman að fá þennan góða hóp hingað í kirkjuna því þetta er eitt af fáum tilvikum þar sem við erum raunverulega með jólaföstu. Þið fáið veitingar sem unnar eru í sjálfboðavinnu af kærleika og alúð. En þetta er ekki purusteik eða möndlugrautur, heldur látlaust bakkelsi. Og þið leggið ykkar af mörkum til þess að gleðja fjölskyldur hér í bænum með gjöf þegar jólin ganga í garð.

Þessi jólafasta rétt fyrir upphaf aðventu verður vonandi til þess að minna okkur á það að gæta alls hófs í aðventugleðinni. Þá finnum við jú fyrir þeim takti sem einkennir kirkjuárið með öllum sínum litum og tilbrigðum. Loks þegar jólahátíðin gengur í garð, skínandi hvít sem hæfir – þá göngum við glöð að veisluborðinu og gleðjumst yfir þeirri gjöf sem mannkyni var færð og breytt hefur lífi okkar um alla framtíð.

Ávarp á jólaföstu starfsfólks Reykjanesbæjar í Keflavíkurkirkju