Hver vill vera vitur - og hvað er nú það?

Hver vill vera vitur - og hvað er nú það?

”Hvað er kjörorð, mamma?” spurði dóttir mín á sjöunda ári um daginn. ”Mottó, einkunnarorð”, varð mér á að hugsa upphátt, en barnið skildi það auðvitað enn síður. Nærtækast var þá að taka dæmi úr Orðskviðunum; orð sem birtir þann veruleika er mann langar að tileinka sér. Eða, sagt á einfaldari hátt: Hvernig langar þig að vera?

Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.

En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum. Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg. Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.

En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.

En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja. (Jak 3:13-18)

”Hvað er kjörorð, mamma?” spurði dóttir mín á sjöunda ári um daginn. ”Mottó, einkunnarorð”, varð mér á að hugsa upphátt, en barnið skildi það auðvitað enn síður. Nærtækast var þá að taka dæmi úr Orðskviðunum; orð sem birtir þann veruleika er mann langar að tileinka sér. Eða, sagt á einfaldari hátt: Hvernig langar þig að vera?

Svo valdi fjölskyldan sér kjörorð. Dóttirin, sem er lífsglöð og bjartsýn að eðlisfari, kaus sér orðin Glatt hjarta gjörir andlitið hýrlegt (Ok. 15.13), en minn kappsami sonur vildi gera eftirfarandi að sínu kjörorði: Fel þú Drottni verk þín, þá mun áformum þínum framgengt verða (Ok. 16.3). Ég valdi mér hins vegar orð, sem stuttu áður höfðu talað sterkt til mín við minn daglega biblíulestur: Í hjarta hyggins manns heldur viskan kyrru fyrir (Ok. 14.33).

Í hjarta hyggins manns heldur viskan kyrru fyrir. Hvílík einkunn, hvílíkur fjársjóður! Svona langar mig að vera. Þessi orð minna mig á hvatningu Jesú: Verið í mér, þá verð ég í yður (Jh. 15.4) og líka það sem hann sagði um sjálfan sig: Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar (Mt. 11.29).

Viskan felst sem sagt í því að ”vera í Jesú”, honum sem er spekin Guðs holdi klædd. Þegar ég er í Jesú heldur viskan kyrru fyrir í hjarta mínu. Þar með finn ég þessa sálarhvíld sem allir hljóta að þrá, þennan innri frið sem stundum er kallaður hamingja.

Og hvernig er ég ”í Jesú”? Einfaldlega með því að sækjast eftir samfundum við hann, sem er unnusti sálar minnar, bjóða honum góðan daginn að morgni og kveðja hann síðastan að kvöldi og finna hann þannig umljúka líf mitt í vöku og svefni.

Að þessu er engin töfraformúla, aðeins þrá hjartans eftir lífgjafa sínum. Ég anda spekinni að ofan að mér allan liðlangann daginn, finn lífið streyma til líkama og sálar við hvert andartak, lífið frá anda Guðs. Hvert andvarp verður bæn, léttir hins beiska ofsa og eigingirni hjartans, innöndunin lærdómur í hógværð og lítillæti.

Þannig fæ ég að líkjast Jesú meir og meir, skref fyrir skref, einn dag í einu. Fyrsta dag vikunnar, sunnudaginn, get ég einbeitt mér að hugleiða hvað það merkir að spekin að ofan er hrein og beðið Guð að hreinsa líf mitt: Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hrein, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll (Sl. 51.9). Á mánudegi er gott að einbeita sér að friðseminni og hafa í huga fyrirheit pistils dagsins: En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja (Jk. 3.18).

Þriðjudaginn mætti tileinka þriðju einkunn spekinnar að ofan, ljúfmennskunni, sbr. Fl. 4.5: Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Á miðvikudegi skyldum við æfa okkur í að vera sáttfús eða sveigjanleg, eins og þýða mætti gríska orðið eu-peiqes. Lúther gefur merkinguna ”að láta sér segjast”. Hefur einhvern tíma verið sagt við þig: ”Sá vægir sem vitið hefur meira”?

Fyrir fimmtudagana er verkefnið miskunnsemi og góðir ávextir, með aðvörunarorð Jakobs í huga: Því að dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi (Jk. 2.13). Einkunnarorð föstudaganna er óhlutdrægni, að fara ekki í manngreinarálit (sbr. Jk. 2.1-4) og á laugardögum er upplagt að æfa sig í að vera hræsnislaus, að sýna flærðarlausa elsku (Rm. 12.9).

Allt kemur þetta saman í eitt: Að láta með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki – að viskan sem með ástundun og elsku til Jesú heldur kyrru fyrir í hjartanu verði sem lífgefandi vatn í barmafullum bikar er flæðir yfir, öðrum til góðs.

Hvernig langar þig að vera?

Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum (Jes. 32.17-18).

Hugleiðing í árdegismessu í Hallgrímskirkju mi. 16. júlí 2003 kl 8.