Birtingarhátíð

Birtingarhátíð

Þrettándinn, birtingarhátíð lausnara vors, er síðasti dagur helgra jóla og bera okkur þessa sögu um vitringana frá Austurlöndum. Við þekkjum hana öll, hún er svo yndisleg og gæðir boðskap jólanna undursamlegum ljóma. Þeir koma eins og út úr heimi ævintýranna með konungsgersemarnar sínar leiddir af stjörnu að jötunni lágu. Helgisagnirnar segja þá komna frá Afríku, Persíu og austar enn úr Asíu. Þar með eru þeir gerðir fulltrúar mannkynsins alls í auðlegð sinni og margbreytileika og undirstrikað enn frekar þetta að fögnuður jólanna skal veitast öllum lýðum, öllum heimi, frelsarinn er fæddur öllum heimi til lausnar.

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.

Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: Hvar á Kristur að fæðast?

Þeir svöruðu honum: Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:

Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.

Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.

Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var.Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.

En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt. Matt. 2. 1-12

Þrettándinn, birtingarhátíð lausnara vors, er síðasti dagur helgra jóla og bera okkur þessa sögu um vitringana frá Austurlöndum. Við þekkjum hana öll, hún er svo yndisleg og gæðir boðskap jólanna undursamlegum ljóma. Þeir koma eins og út úr heimi ævintýranna með konungsgersemarnar sínar leiddir af stjörnu að jötunni lágu. Helgisagnirnar segja þá komna frá Afríku, Persíu og austar enn úr Asíu. Þar með eru þeir gerðir fulltrúar mannkynsins alls í auðlegð sinni og margbreytileika og undirstrikað enn frekar þetta að fögnuður jólanna skal veitast öllum lýðum, öllum heimi, frelsarinn er fæddur öllum heimi til lausnar.

Eins og endranær er Matteus að tefla fram andstæðum í guðspjalli sínu, benda á að það voru heiðingjar, sem þekkja Krist og játa hann fyrst er hann birtist, en þjóð Guðs sem þekkti fyrirheitin í Biblíunni, þekkti hann ekki er hann kom. Þeir sem áttu að skilja, skildu ekki, þeir sem áttu að sjá, sáu ekki. Þetta er rauði þráðurinn í guðspjalli Matteusar og hann lýkur því með kristniboðsskipun Krists, sem rifjuð er upp við hverja skírnarlaug: "Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum." Ríki Krists skal ná til allra lýða, allra þjóða, allar þjóðir, allir menningarheimar skulu sameinast í einum samhljómi og sérhver tunga viðurkenna að Jesús er Drottinn.

Sögupersónur þrettándans þekktu ekki orð Drottins og fyrirheit. En þeir þekktu spor hans í náttúrunni. fingraför höfundarins í sköpunarverkinu, og voru læsir á rúnir þess og tákn sem ber höfundi sínum vitni og eilífri ákvörðun. En tökum eftir því að þeir fundu ekki frelsarann fyrr en þeir höfðu fengið vísbendingu úr Biblíunni, sem leiddi þá til Betlehem. Þeir fengu svarið á sama stað og við, er við leitum Guðs og leitum svara við spurningunum um hin hinstu rök og um leiðsögn á daganna för. Og þeir höfðu auðmýkt til að bera til að ganga inn í fjárhúsið og lúta barninu í jötunni. Það er ekki í stjörnunum sem svörin er að finna, ekki í myndbók náttúrunnar, ekki í fornum spekimálum og véfréttum. Heldur í orði Guðs. Þar talar Guð. Og hvernig svarar hann? Með því að benda á hann sem fæddist í Betlehem, Jesú Krist. En hann sjá aðeins augu og andi auðmýktarinnar og kærleikans. Í honum rætast fyrirheitin, í honum fær hjartað hvíld, og í honum er leiðin færa um torleiði lífs og ævispor og dalinn dimma, hinsta. Því hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Úr austurátt komu vitringarnir þrír með dýrgripi sína og gersemar. En til er líka helgisögn um fjórða vitringinn, sem varð viðskila við hina. Hann varð fyrir töfum á leiðinni, hungraðir urðu á vegi hans og hann gaf þeim af gersemum sínum, sem hann hafði ætlað að hylla með nýfædda konunginn. Öðru sinni var það ranglætið og ofbeldið sem tafði för hans, hann kom þar að sem fangar voru seldir mansali og það rann honum svo til rifja að hann keypti þá frjálsa. Eitt sinn varð hann illa úti þegar hann ætlaði að skakka leikinn þar sem ræningjar réðust á varnalausan ferðamann. Og oft tafðist hann við að hlusta á þá sem einmana voru og enginn hafði tíma aflögu fyrir. Loks náði hann til Betlehem. Þá hafði engin stjarna sést á himni um hríð, og hin heilaga fjölskylda var horfin úr bænum, sumir sögðu að hún hefði flúið land. Slyppur og snauður og vonsvikinn stóð hann í yfirgefnu fjárhúsinu. Síðar, það fylgir ekki sögunni hvort það var brátt eða að löngum tíma liðnum, er lífsferð hans var á enda og augu hans lukust aftur í dauða þá sá hann birtuna sem eitt sinn hafði ljómað til hans frá stjörnunni skæru í austri, nú lýsti hún af ásjónu manns sem hann hafði aldrei séð, en þekkti þó. "Ég náði aldrei að gefa þér gersemarnar mínar," sagði hann afsakandi. En Jesús sagði við hann: "Þú gafst mér þær og miklu meir. Það sem þú gjörðir einum þessara minna minnstu systkina, það gjörðir þú mér." Vitringurinn fjórði var kominn á leiðarenda.

Guðspjallið umtúlkað - umritað í helgisögn. Nú er það okkar hlutverk að umrita guðspjallið og helgisögnina í þann veruleika sem er okkar eigið líf og vegferð og breytni í dag og um ókomna daga.

Ein tilraun til að staðfæra þessa sögu og kröfu guðspjallsins, er kærleiksþjónusta, diakonía kirkjunnar. Hvar er Guð? spyr hrelldur heimur. Hvar er Guð? spyr rótlaus og friðvana kynsloð. Hvar ertu Guð? spyr hinn sjúki og þjáði. Hvar ertu Guð? spyrjum við andspænis áföllum og örlögum, svo hjálparvana og smá. Og þó erum við kölluð til að vera lífsmark frá Guði. Við erum sem kristnar manneskjur kölluð til að vera bænheyrsla þeim sem biður og örvæntir, með okkar trú og von og kærleika. Vegir Guðs eru órannsakanlegir, en oftar en ekki liggja þeir um hendur og hjörtu fólks sem leitast við að auðsýna öðrum kærleika, umhyggju og fyrirgefningu. Þið sem djáknar eru kölluð til að vera slíkar hendur og hugur, návist, náð. Þið eruð kölluð til að líkna og þjóna, biðja og hugga. Og vera kirkju og samfélagi tákn og áminning um þjónustuna við þá sem Kristur kallar sín minnstu bræður og systur. Að elska Guð af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan sig. Það er mikið hlutverk sem fyrir liggur, hlutverk þjónustunnar. Í því er fólgin hin æðsta vegsemd að mati Krists. Hann sagðist sjálfur vera kominn ekki til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds. Um byrði þjónustunnar sagði hann: "Mitt ok er indælt og byrði mín létt." Sporgöngumaður hans á vettvangi þjónustunnar við þá smáu og smáu þessa heims sagði: "Er annað fólk þér byrði? Berðu það ekki á herðunum. Leggðu það þér á hjarta." Það er bænin, að leggja það sem þyngir og þjakar sér á hjarta og fela honum á hendur, sem þekkir allan heimsins harm, og mannsins mein og sár. Allt það tók hann á sig, sárin og sorgina, synd og dauða. Látið bænina í hans nafni bera uppi líf ykkar og þjónustu alla.

Við samfögnum ykkur, þjóðkirkjan tekur ykkur fagnandi til starfa. Guð blessi ykkur, köllun ykkar og starf. Guð blessi samverkafólk ykkar. Guð blessi Akureyrarkirkju sem kallar þig, Ingunn Björk, til þjónustu á vettvangi safnaðarstarfsins, æskulýðs og barnastarfs. Guð blessi Sóltún sem kallar ykkur, Fjóla, Jóhanna Kristín og Jón, til þjónustu við hina öldruðu. Guð blessi þann góða hug og vilja sem þessar ákvarðanir tjá og gefi að kirkjan og samfélagið vaki og eflist í trú sem starfar í kærleika.

Flutt 6. janúar 2002 við djáknavígslu í Dómkirkjunni, Reykjavík. Fjóla Haraldsdóttir, Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir og Jón Jóhannsson vígð til Sóltúns, Reykjavík, Ingunn Björk Jónsdóttir vígð til Akureyrarsóknar.