Roðaskinið

Roðaskinið

Jólin 2006 einblíndi ég á vitringana, þá var uppsveifla hagkerfisins í hámarki og mér lá einhvern veginn á hjarta að segja fólki að það væri hægt að vera andlega sinnaður þó maður ætti peninga
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
25. desember 2012
Flokkar

Einhver gæti spurt sig, er hægt að semja endalaust margar prédikanir út frá einum og sama textanum? Er hægt að semja nýja jólaprédikun á hverju ári? Svarið er bæði já og nei. Sérhver prédikun er bæði ný og gömul, eins og jólin sjálf, þau eru bæði ný og gömul. Þau eru tengsl við hið liðna og við hið ókomna. Ekki vegna þess að fagnaðarerindið taki breytingum frá ári til árs, heldur vegna þess að þú tekur breytingum frá ári til árs. Líf þitt er á stöðugri ferð eins og jörðin í kringum sólu, þú finnur ekki hreyfinguna sjálfa en þú nemur skil dags og nætur. Í þessari líkingu má segja að þú sért jörðin og jólin sólin. Sagan sem er þarna með sitt ljós og sitt líf hvernig sem allt fer og hvar sem þú ert staddur. Og samt getur hún mætt þér með svo margvíslegum hætti. Eins og sólin sem allir þrá en birtist okkur þó með svo ólíkum hætti, í öllum sínum litbrigðum, allt eftir því hvað við erum stödd. Síðastliðinn mánuð höfum við hér aðeins séð roðaskin hennar á Vaðlaheiði líkt og væri hún feimið barn á fyrsta skóladegi. Sólin og jólin eru systur tvær sem ylja og gleðja en varpa líka ljósi á vonbrigði og sársauka, óréttlæti og illsku. Þær afhjúpa með andstæðu sinni, eins og barnið sem sér hégómann í fyrirvaraleysi bernsku sinnar, já eins og í ævintýrinu góða hans HC Andersen.

Jólaguðspjallið er eins og sólin þú getur verið staddur þar sem þú greinir aðeins roðaskinið frá jötunni og þú getur líka verið á þeim stað þar sem geislar hennar baða þig frá hvirfli til ilja. Þú getur slegist í för með einni persónu þetta árið en annarri það næsta. Ég man þegar ég var barnshafandi um jól árið 2007 og sat við skriftir á jólaræðunni, þá var það þungun Maríu sem átti hug minn allan, ferðalagið sem hún tókst á hendur í sínu viðkvæma ástandi og aðstæðurnar sem henni voru búnar við fæðingu barnsins. Allt í einu upplifði ég þessa fjárhúsfæðingu langt frá því að vera rómantíska og þó hún hafi kannski verið bráðnauðsynleg upp á það að gera að fjárhirðarnir finndu sig heima þá var mér um og ó í hormónastríði mínu og þráhyggju yfir því að vera örugg með mína nútímatækni. Það er skemmst frá því að segja að ég sat uppi með fullkomna fæðingu, lazyboy stól, hjúkrunarfræðing á vakt en þó örugglega jafn mikið tilfinningaumrót eins og hefði ég fætt í fjárhúsi. Lífið hefur nefnilega oft tilhneigingu til að vera dýpra en okkar ytri aðstæður tjá . Jólin 2006 einblíndi ég á vitringana, þá var uppsveifla hagkerfisins í hámarki og mér lá einhvern veginn á hjarta að segja fólki að það væri hægt að vera andlega sinnaður þó maður ætti peninga. Vitringarnir eru nefnilega svona fulltrúar þeirra sem eiga og mega í guðspjallinu, þeir höfði mestu veraldlegu völdin inn í fjárhúsinu þetta örlagaríka kvöld og þar af leiðandi var ábyrgð þeirra meiri, auðvitað höfðu allir val sem voru þar inni en þeirra val stóð á milli þess að hlúa að ímynd sinni eða sálarheill. Þeim auðnaðist sem betur fer að hlusta eftir lífinu og láta óréttlætið ekki afskiptalaust. Þetta var svona hugleiðing á uppgangstímum.

Síðustu jól talaði ég um engla og raddir englanna og tengdi þær við brjóstvitið góða sem okkur er öllum gefið að hlýða. Ég man hins vegar ekki alveg hvenær eða hvort ég hafi nokkurn tímann fjallað sérstaklega um fjárhirðana, þó má vera að það hafi gerst skömmu eftir hrun þegar lopapeysur og landbúnaður og sjálfsþurftarbúskapur ýmisskonar varð okkar svar við breyttum aðstæðum. Það er yfirleitt eitthvað eitt sem fangar athygli manns hverju sinni og það sem ræður þeirri athygli er jafnan sá tími og þær aðstæður sem maður lifir hver og ein jól.

Á dögunum las ég mjög fallega bók sem ber heitið Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry en höfundur hennar er bresk kona að nafni Rachel Joyce. Harold Fry er á sjötugsaldri og nýkomin á eftirlaun. Líf hans hefur fram til þessa verið ferð sem hann hefur ekki náð að fylgja, stór áföll hafa orðið til þess að tilfinningaleg gjá hefur myndast milli hans og eiginkonu hans og þegar sagan hefst er líkt og hann bíði þess eins að ferðinni ljúki. Þá gerist það einn grásprengdan morgunn að Harold berst bréf frá fyrrum samstarfskonu sinni sem hann hafði hvorki séð né heyrt í 20 ár. Sú hafði eitt sinn reynst honum haukur í horni en bréfið er kveðja hennar af sjúkrabeði þar sem hún liggur dauðveik af krabbameini. Harold verður svo snortin af bréfinu að í máttleysi sínu tekst honum að hripa nokkrar línur niður á blað sem hann býr sig svo undir að póstleggja. Hann leggur af stað í mokkasíum, í skyrtu og með bindi og það sem átti að verða skottúr í næsta póstkassa endar á því að verða þúsund kílómetra ganga yfir England endilangt. Þessi ferð verður til þess að vekja Harold aftur til lífsins. En það gerist ekki með tilbreytingunni einni eða hugrekkinu til þess að gera hið ótrúlega, heldur fyrst og fremst með þeirri vakningu sem verður í tilfinningalífi hans þegar hann fer að endurmeta fortíð sína og lifa tilfinningar sem hann hafði löngu sett í súr. Fyrst í stað er það trúin á það að hann geti fengið vinkonu sína til að lifa í biðinni, sem rekur hann áfram. En þegar hann loks mætir á hjúkrunarheimili hennar, í sínum gatslitnu og samanlímdu mokkasíum, mörgum kílóum léttari, illa lyktandi, með ritjulegt skegg og leðurhúð eftir langar samvistir við sólina og sér að líf hennar er við það að fjara út, neyðist hann til að endurmeta tilgang ferðarinnar. Það var eitt sem rak hann áfram og annað sem hann uppskar og það sem hann uppskar var endurnýjuð ást á lífinu. Lífi sem hafði líka leikið hann grátt.

Jesúbarnið fæðist í heiminn til að hafa nákvæmlega þessi áhrif á okkur, það kemur ekki til þess að bjarga okkur frá áföllum og sorgum, ekki til þess að veita okkur líf sem er alltaf baðað geislum sólar, ekki til þess að deyfa sársauka okkar, heldur til þess að minna okkur á tilgang lífsins. Þegar við erum ung er það trúin á það að við getum breytt heiminum sem rekur okkur áfram og það er mjög gott og mjög nauðsynlegt, ungt fólk mun alltaf halda áfram að breyta heiminum, það er hlutverk okkar. Þegar við verðum eldri og sjáum að heimurinn heldur áfram að vera flókinn og sár þurfum við að meta tilgang þess sem við höfum gert og reynt og verið. Eins og Harold vinur okkar Fry, hann fór af stað til að bjarga lífi vinkonu sinnar og kom breyttur maður í höfn, með nýja sýn á lífið þá og nú. En hvort sem við erum að leggja upp í þessa ferð, erum hálfnuð eða að nálgast áfangastað er Jesúbarnið alltaf þarna til að segja okkur að lífið sé fyrirhafnarinnar virði. Í einni jólaheimsókn skólanna núna á aðventunni, vatt 10 ára drengur sér upp að mér og spurði, „ ef Jesús er til hvers vegna er hann þá ekki að hjálpa öllum sem eiga erfitt ?“ Góð spurning og viturleg af 10 ára gömlu barni. Harold Fry fékk svarið eftir sína göngu á sjötugsaldri. Jesús kom ekki í heiminn til að forða okkur frá áföllum heldur til að vera með okkur þegar þau ríða yfir og skekja tilveru okkar, hann kom til að vekja okkur til lífsins og til meðvitundar um tilfinningar okkar og viðbrögð. Hann kom til að hjálpa okkur að nýta reynslu okkar til góðs. Hann kom auðvitað til okkar fyrir svo margra hluta sakir en í ár er þetta það sem Jesúbarnið færir mér sérstaklega og mér liggur á hjarta, þetta er sú birta sem við mér blasir þessi jólin og kannski eru hún dálítið eins og roðaskinið yfir Vaðlaheiði.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.