Hér fylgir lesning um kristni og íslam, þessi nàskyldu trúarbrögð sem hafa tekist à um aldir, og gera enn eins og frèttir sýna.
Múhameð fæddist í borginni Mekku, sem liggur nokkurn veginn á miðjum Arabíu- skaganum, árið 570 e.Kr. að því er talið er. Aðeins stuttu eftir fæðingu Múhameðs lést faðir hans og móðir hans lést er hann var 6 ára. Að lokum tók frændi hans, Abu Talib, hann í fóstur, ól hann upp og gerði að kaupmanni. Eftir að Múhameð óx úr grasi hóf hann störf hjá Hadiga, ríkri konu sem stundaði kaupmennsku og var frá Mekku eins og hann. Brátt fékk hún ofurást á hinum unga Múhameð og bauð honum hönd sína. Múhameð þáði boðið og varð hjónaband þeirra hamingjusamt samkvæmt heimildum þótt Múhameð hafi aðeins verið 25 ára en Hadiga 40 ára er þau gengu í það heilaga. Þau eignuðust saman tvo syni og fjórar dætur. Það var síðan í föstumánuðinum eða ramadan árið 610 samkvæmt almanaki kristinna manna, að Múhameð fyrst fékk þær vitranir sem áttu eftir að breyta lífi hans og gangi sögunnar. Á þessum tíma ársins hafði Múhameð fyrir sið að draga sig út úr skarkala heimsins og leita hvíldar og íhugunar í helli fyrir utan Mekku. Þar stundaði hann bænir og föstu og gaf fátækum ölmusu. Hann hafði lengi haft áhyggjur af þeirri kreppu sem honum fannst arabískt samfélag vera komið í.
Síðustu árin áður en hann fékk sína fyrstu vitrun hafði ættbálkur hans, Quaraysh-ættbálkurinn, komist vel í álnir og grætt mikið fé á verslun. Mekka var orðin að verslunarmiðstöð en þangað barst varningur og auðæfi hvaðanæva að. Ein af ástæðunum fyrir því var helgistaður sem arabar sóttu til af öllum Arabíuskaganum. Helgistaðurinn var ævaforn steinn sem féll af himnum ofan í grárri forneskju og mikil helgi hvíldi á. Allar leiðir lágu því til Mekku.
Á Arabíuskaganum og í Mekku var upplausnarástand í trúmálum um þessar mundir. Aröbum þótti gyðingdómur persneskra gyðinga og kristni kirkjunnar í Býsans mun glæsilegri og frambærilegri átrúnaður en þeirra eigin heiðindómur. Sumir trúðu því að æðsti Guð á meðal hinna fjölmörgu guða, er arabar tilbáðu, væri sá hinn sami og gyðingar og kristnir tilbæðu. Hét hann Allah, en Allah á arabísku þýðir Guð. Þeir skildu ekki af hverju hinn æðsti Guð hefði ekki sent þeim spámann eða ritningu eins og hann hafði gert bæði fyrir gyðinga og kristna. Gyðingar og kristnir menn, sem komu í einhverjum erindum til araba eða bjuggu á Arabíuskaganum, gerðu líka óspart grín að aröbum með þeim orðum að Guð hefði ekki haft áhuga á að senda þeim neina sáluhjálp því að þeir væru svo ómerkilegir. Ekki varð það til að efla sjálfstraust araba að út um allan Arabíuskagann áttu ættbálkarnir í gegndarlausum styrjöldum og smáskærum hver við annan þar sem blóðhefndin hélt morðum og mannvígum gangandi. Mörgum hugsandi arabanum þótti þess vegna sem arabar væru glötuð þjóð, útskúfuð frá hinum siðmenntaða heimi og yfirgefin af Guði sjálfum.
Allt þetta breyttist aðfaranótt hins 17. Ramadanmánaðar árið 610 e.Kr. þegar Múhameð vaknaði skyndilega, lamaður af óendanlega máttugri nærveru æðri máttar.