Inngangur Ósjaldan er það svo að þegar frásaganir úr Biblíunni eða efni henni tengt, er til umræðu, að sannleiksgildi og réttmæti þess er dregið í efa. Sumir hrista höfuðið þegar minnst er á upprisuna, kraftaverkin og efast jafnvel um boðun og verk Jesú. Þetta hendir líka þá sem vinna við að greina og túlka texta Ritningarinnar. Oft vaknar hjá þeim spurningin: „Hvernig á maður að trúa þessu?“ Sumir afgreiða hana einfaldlega með fullyrðingunni: „Við verðum einfaldlega að trúa!“ Ef til vill kemur einmitt fram í þessari spurningu og þessu svari, sá vandi sem við glímum við þegar trúin er annars vegar. Hann endurómar nefnilega þá hugmynda– eða vandræðasögu sem hugtakið „trú“ hefur gengið í gegnum. Við skulum því huga eilítið að þessari flóknu en oft spennandi sögu.
Stutt yfirlit um sögu trúarhugtaksins
Trúarhugtakið í Nýja testamentinu. Bein þýðing á gríska hugtakinu í Nýja testamentinu fyrir trú eða pisteuein er traust. En það hefur í Nýja testamentinu tvöfalda merkingu. Fyrir það fyrsta beinist traust þar að einhverju sem maður á eða hefur. Maður treystir þannig maka sínum, náunga, yfirmanni, stjórnvöldum og Guði.
Í annan stað beinist sögnin að trúa, í Ritningunni, að gjörð þ.e. „Ég vil treysta honum“ þ.e. Guði eða Kristi, sem má útleggja svo að „ég vil leggja mig fram við að álíta það satt og rétt sem Guð segir og gerir fyrir mig og leitast við að taka tillit til þess og fara eftir því.“ Á þennan máta er trúin skilgreind sem traust til Guðs og/eða Jesú Krists. Það gefur því að skilja að trúarhugtakið er miðlægt í Nýja testamentinu og allar götur síðan í kirkjunni.
Trúarhugtakið í fornkirkjunni. Þegar í fornkirkjunni færist áherslan þó nokkuð til. Þannig vildi einn helsti guðfræðingur fornaldar, Origenes – sem var uppi á árunum 185 til 254 og starfaði í Alexandríu í Egyptalandi – tengja trúarhugtakið við það, að álíta að eitthvað væri satt og rétt eða það að taka eitthvað trúanlega.
Þessi skilningur náði mikilli útbreiðslu og var útfærður nánar tveimur öldum síðar, af einum helsta guðfræðingi vesturkirkjunnar, Ágústínusi (354–430). Ágústínus var biskup í Hippo og starfaði á landsvæði sem nú er í Alsír og Túnis. Ágústínus batt trúna við þekkingu manna á boðun, starfi og örlögum Krists, en hann áleit að hún næði fyrst markmiði sínu í kærleikanum. Ástin gæfi trúnni nefnilega fyrst merkingu og inntak. Þrátt fyrir að skírnarnáðin opnaði einstaklingnum leið trúarinnar í samfylgdinni við Guð, þá þróaðist hún að mati Ágústínusar ekki af sjálfsdáðum heldur þyrfti að rækta hana.
Trúarhugtakið á miðöldum Í framhaldi af vangaveltum Ágústínusar, tvöhundruð árum síðar, kenndi Gregorius páfi mikli – sem var uppi 540 til 604 – að undanfari trúarinnar væri auðmýktin. Hún gerði trúna fyrst að meðvitaðri lífsafstöðu. Gregorius kvað því skýrt á um, að trúna bæri að leggja að jöfnu við að álíta eitthvað vera satt, takið eftir, ekki einhvern, heldur eitthvað. Trúin er hjá honum því færð af sviði persónulegra sambanda eða persónulegs sambands manns og Guðs þ.e.a.s. að trúa á einhvern þ.e. á Guð, yfir á svið þess kenningarlega eða trú á eitthvað þ.e. kenningar um Guð. Trúin er þar með skilin sem traust á kenningum.
Það kemur því lítt á óvart, að samkvæmt Gregoriusi ber kirkjunni sem stofnun að tryggja öryggi kenninganna með samþykkti sínu. Gregorius var nú einu sinni páfi og hann vildi ákveða hvaða kenningum menn ættu trúa og hverju ekki. Eitthvað sem ekki bara valdhafar vilja ákveða fyrir aðra. Alla vega verður þróunin sú, að á miðöldum færist áherslan meir og meir í þá átt að leggja trúna að jöfnu við að samþykkja kenningar kirkjunnar, í stað þess að virða traustið sem eðli hennar.
Trúarhugtakið í guðfræði siðbótarmanna Það er fyrst á 16 öld að biblíuleg merking hugtaksins trú er aftur sett, af Marteini Lúther (1483–1546), í forgrunn: Trúin er gjöf og inntak hennar er fyrirgefning Guðs og traustið til miskunnar hans.
Það má alveg spyrja af hverju Lúther noti í þýðingu sinni á Ritningunni hugtakið „trú“ í stað „trausts“. Það getur verið vegna þess að hugtakið traust var þegar á 13. öld í þýsku of bundið við „trauen“ og „vertrauen“ eða við giftingu og giftingarathöfnina. Hugtakið trú eða „Glauben“ þýddi aftur á móti í fornþýsku „það að taka eitthvað gilt“ og þá í merkingunni að treysta einhverjum sem sé persónu. Það að þykja vænt um einhvern. Auk þess var gefið með hugtakinu að þeim, sem maður trúði eða hafði trú á og treysti, lofar maður. Af þessu leiddi að maður leyfði þeim sem hann treystir þ.e.a.s. Guði, að gera visst og forða manni frá öðru. Þetta mætti orða svo að trúartraustið myndaði rammann utan um lífið og persónuleg gæði þess, eins og ást, vináttu, lífsgleði, hamingju o.s.frv. Þannig gat Lúther nýtt sér á ný hugtakið trú í biblíuþýðingu sinni. Við sjáum að áherslan færist aftur frá trú á eitthvað, þ.e. umfjöllun um Guð, yfir á einhvern þ.e. trú á Guð.
Það er ljóst af ofangreindu að trúin er meira en einungis tilfinningaleg afstaða eða þekkingarlegt atriði. Ef við tökum dæmi þá giftist maður vegna ástar á maka sínum en ekki bara vegna skynsamlegra raka. Hjartað leiðir hér svo að segja hugsunina. Vegna þessa er hugtakið ást oft notað í Ritningunni þegar talað er um samband Guðs og manns. Þannig er tengslum safnaðarins við Krist lýst í Efesusbréfi (Ef 5.21nn) með hugtökum sem eiga við brúður og brúðguma. Og á öðrum stað er talað um söfnuðinn sem brúði (Op 21.9) og Guð eða Krist sem brúðguma (Jes 62.5; Mt 9.15). Í krafti þessara mynda bera t.d. nunnur giftingarhring. Það kemur því lítt á óvart að kristið fólk eins og Franz frá Assisí (1181/2–1226) og Nikolaus Ludwig Zinzendorf greifi (1700–1760) semji ástarljóð til að lýsa trúarsambandi sínu við Guð.
Trúin og fyrirhugunin En úr þessu má þó ekki gera kenningar sem trúin á að lúta í stað þess að þær varpi ljósi á veruleika trúarinnar. En það varð því miður raunin. Þau sterku tengsl sem eru á milli náðar Guðs og trúar mannsins, í guðfræði Páls postula og svo hjá Lúther, leiddu til ýmissa vangaveltna: Menn vildu draga fram að náð Guðs væri fullkomin gjöf og algjörlega óverðskulduð, af því ályktuðu sumir að maðurinn hlyti að vera frá upphafi útvalinn af Guði til að meðtaka náðina algjörlega óverðskuldaða. Þetta leiddi svo suma út í óbiblíulegar og óevangelískar ófærur sem komu fram í kenningum um tvöfalda útvalningu. Menn kenndu að Guð hafi ákveðið – og það fyrir sköpun alls – hverjir hlytu eilífa sælu í ríki hans og hverjir ekki.
Þetta er kenning sem mætir okkur enn í dag og það í ólíklegustu myndum og jafnvel án tengsla við kristna trú. Í mörgum auglýsingum er því til að mynda haldið fram að ef einhver á þetta eða hitt þá sé viðkomandi í hópi útvaldra: Þar sem við hin, sem ekki eigum, eru úti í kuldanum eða í hópi útskúfaðra. Og horfum inn í veislusali neyslunnar með tóm veski og lokuð vísakort.
Slíkum útvalningar-kenningum – hvort sem þær eru settar fram í afhelguðu eða trúarlegu samhengi – höfnum við. Það er Guð sem dæmir en ekki menn.
Hann hefur, eins og kemur skýrt fram í skírninni, tekið manninn að sér. Og ekkert getur tekið hann úr náðarhendi Guðs. Í þetta höldum við en ekki kenningar um hvernig beri að deila út náð Guðs. Það er firra að álykta að menn gæti tekið sér vald yfir því sem Guð hefur þegar gefið okkur í Kristi.
Trúin og mennskan
Af þessu stutta yfirliti er ljóst að við megum ekki vanvirða það að trúin er persónulegt samband milli Guðs og manns. Hún spannar alla veru okkar ekki bara hluta hennar. Og er eins kjarni persónu okkar, leyndardómur sem við getum ekki leyst í upp formúlur og sagt þetta er ég, eða þetta er trúin. Hún er í eðli sínu leyndadómur, en hið sama á við um vináttu, hamingju, ást, o.s.frv. Við getum bara talað um trúna eins og hún birtist í lífinu eða lífi okkar. Þess vegna segjum við, þegar trúin er annars vegar, alltaf sögur henni tengdar. Og takið eftir, hún er bara til staðar í þeim samböndum sem ég á í, við sjálfan mig, náunga minn og Guð. Við getum aldrei fjallað um trúna, og þá líka vináttu, ástina o.s.frv. út af fyrir sig eða handan þessara tengsla. Þau eru auk þess í innsta eðli sínu óhöndlanleg, en koma fram í daglegu lífi okkar. Við getum talað um þennan leyndardóm sem við erum í kjarna okkar og nálgast hann vissulega á ýmsan máta en aldrei leyst hann upp í formúlur.
Og ef við útfærum þetta frekar má segja að það sama eigi við um tónlistina, menninguna og lífið sjálft. Spurningin er því fyrst og fremst, hverjum maður trúir sem hjálpar manni svo að orða hverju við getum trúað. Kenningar eru afleiðingar af trúnni, en ekki forsenda hennar. Þær taka vissulega breytingum en ekki trúin sjálf. Þess vegna verður að greina á milli kenningar og trúar, en trúin getur þó ekki án kenninga eða umfjöllunar um sig verið. Alveg eins og tónlistinni er erfitt að sinna án þeirra hljóðfæra sem hún er flutt á. Hljóðfærið er ekki tónlistin en þó er erfitt að hugsa sér hana án þess. Hið sama á um trúna. Það þarf að ræða um hana og fjalla um hana skipulega, hún þarfnast þess, þó ekki verði hægt að koma kjarna hennar eða eðli fyrir í einhverri formúlu, frekar en ástinni, vináttu, gleði, hamingju, tónlist eða menningunni og lífinu. Allt á þetta það sameiginlegt að vera í kjarna sínum leyndardómur eins og persóna mannsins, en þrátt fyrir það er hægt að ræða og skrifa mikið um allt þetta, þó að það gangi aldrei upp í þeim lýsingum.