Vín verður til

Vín verður til

Já, vínið endist og það sem meira er – það er ekkert smáræðis mál að búa til vín.

Ein þeirra spurninga sem við prestarnir fáum að svara reglulega í fermingarfræðslunni fjallar um vínið sem útdeilt er í altarisgöngunni. Það er ekki að furða. Á okkar tímum vitum við að áfengi er stórhættulegt og þeim mun yngri sem neytendur þess eru þeim mun meiri líkur eru á því að vínið verði þeim að falli. Fyrir því eru mörg og sorgleg tilvik.

Óáfengi

Já, fáum við vín í altarisgöngunni? spyrja fermingarbörnin og það er ekki nema von þótt við verðum stundum svolítið kindaleg sem svörum því vissulega er svarið við spurningunni, já. Þið fáið vín en sem betur fer er til óáfengt vín og við kaupum mikið af því í kringum fermingarnar. Börnin fá sumsé vín að drekka en það er ekki með neinu áfengi í – sem hljómar kannske undarlega en þannig er það nú samt.

Vandinn við slíkar guðaveigar er hins vegar sá að þær endast illa. Ólíkt flestum víntegundum sem þola langa geymslu, verða jafnvel betri eftir því sem þær fá að standa lengur, þá stendur skilmerkilega hvenær síðasti neysludagurinn er á hinu óáfenga. Ekki þýðir að bjóða upp á það eftir að þeim tímapunkti er náð þá kemur af því fúlt bragð og ekki viljum við bera slíkt fram fyrir kæra kirkjugesti.

Bóndi er bússtólpi

Já, vínið endist og það sem meira er – það er ekkert smáræðis mál að búa til vín. Ekki er vitað fyrir víst hvenær fyrstu samfélög manna gátu útbúið slíkar veigar en ljóst má vera að harla stutt er síðan, sé litið til þeirra tveggja milljóna ára sem mannkynið hefur verið til í núverandi mynd. Fyrir fáeinum þúsundum ára sem er aðeins andartak í hinu stóra samhengi tókst einhverjum fyrir botni Miðjarðarhafs að brugga áfengi úr vínberjum og svo lukkulegir hafa þeir verið með árangurinn að siðurinn breiddist út til nærliggjandi ríkja.

Samfélag þarf að hafa náð talsverðum þroska áður en fólk fer að geta ræktað bústin vínber, vinna þau eftir kúnstarinnar reglum, láta þau gerjast og koma á kúta eða flöskur þar sem það getur svo staðið í langan tíma. Kunna þarf skil á ýmsu, akuryrkju, framleiðslu og geymslu enda stendur þessi iðnaður, víngerðin í samhengi með einni mestu byltingu sem orðið hefur í sögu mannsins. Það var þegar hann hætti að vera veiðimaður og safnari og tók að stunda landbúnað. Með þeirri breytingu tók fólk upp fasta búsetu, kom sér upp verkaskiptingu, því fjölgaði mikið og náði að þróa með sér margvíslega list, ritmál og fleira sem við tengjum við menningu okkar og þroska.

Við sjáum það í hendi okkar að svo kallaðir frumstæðir þjóðflokkar sem ferðast um og safna rótum og berjum til átu og veiða sér til matar hafa ekki getað þróað með sér slíka verkkunnáttu. Vínið í altarisgöngunni og reyndar brauðið líka, eru unnar matvörur, afurðir landbúnaðar og þróaðra samfélaga. Það hefur líka verið kirkjunnar mönnum mikið hjartans mál í gegnum tíðina að messuvín sé gert úr vínberjum, og brauðið úr hveiti ef því er að skipta. Þetta var auðvitað ægilegt basl hér á öldum áður uppi á Íslandi. Það var hægara sagt en gert að útvega slíka munaðarvöru sem ekki var hægt að framleiða hér á landi. Jón Grænlendingabiskup

Skemmtileg saga hefur varðveist úr tíð Páls Jónssonar Skálholtsbiskups á 13. öld sem tengist þessu. Þeir voru sem oftar í vandræðum með messuvínið og áttu ekki nóg af því fyrir heilaga þjónustugjörð. Þar var í heimsókn biskup norrænna manna á Grænlandi, Jón að nafni og hann kenndi þeim að brugga vín úr krækiberjum. Þeir þóttust hafa himin höndum tekið og sendu bréf til páfa þess efnis hvort ekki mætti nýta krækiberin í þessum tilgangi hér við nyrstu mörk hins kristna heims. Páfi brást hinn versti við og sagði að slíkt kæmi ekki til greina. Vínið skyldi gert úr vínberjum og áfram þurftu Íslendingar að reiða sig á stopular skipakomur til þess að geta gengið til altaris.

Fyrsta táknið

Sú athöfn að breyta vatni í vín er kölluð „fyrsta táknið“ í guðspjalli Jóhannesar. Það munar ekki um það. Kristur átti eftir að lækna veika og meira að segja lífga hinn látna Lasarus frá dauðum en þetta kraftaverk markar upphafið að því mikla starfi. Þessi dularfulla umbreyting varð í einni svipan, ekki í kjölfar óralangs meðgöngutíma í sögu mannsins markar mikil tímamót. Hér er nýtt samfélag í burðarliðnum. Nýtt upphaf á sér stað þar sem fólk er að kynnast einhverju sem er ólíkt öllu því öðru sem fólk hafði kynnst og heimurinn átti aldrei eftir að verða samur.

Vínið í þessu tilviki var frábrugðið vatninu vegna þess að það tengdist hátíðinni og hinu dásamlega samfélagi fólks sem kom saman til þess að gleðjast og fagna. Hér eru þau þáttaskil að við sem tilheyrum ríki Krists erum boðin velkomin að þeim stórkostlega hópi sem kennir sig við nafn hans. Vínið verður eins og boðsmiði inn í þann heim enda var staða þess sérstök á þeim tíma og langt fram eftir öldum. Það táknaði hátíðina, fögnuðinn og gleðina en það er einmitt það sem fagnaðarerindið byggir á. Þetta er í raun bylting, ekki landbúnaðarbylting heldur algerlega nýtt upphaf á hjálpræðissögu mannsins í leit hans að tilgangi og æðri verðmætum.

Það sem endist

Og nú þegar við erum búin að læra svo margt um skaðsemi þess að neyta víns í óhófi vitum við að betra er að sleppa áfengismagninu alveg svo við getum með góðri samvisku boðið fermingarbörnum að borðinu. En þá auðvitað man maður í hverju töfrar vínsins felast á tímum þar sem erfitt var að geyma matvörur í langan tíma. Já, það endist svo miklu betur. Jafnvel vatnið í körunum í Kana fúlnaði fljótt og í það settust alls kyns kvikindi er það stóð þar langan tíma í mollunni. Óáfenga vínið er eins og djúsinn í ísskápnum heima sem rennur út og á vill enginn drekka hann.

Vínið endist betur og þar sjáum við annað merki þess hversu magnaður gjörningur Krists var í Kana. Hann tók það sem var hversdagslegt og endist skamma hríð og breytti því í veigar sem vísa til hátíðar og þess sem varir miklu lengur.

Hvort tveggja er inntak Guðs ríkisins og við erum öll hluti af því stórkostlega samfélagi. Þar er hátíðin og þar er endingin, dýrðin og eilífðin. Fögnum því og verum glöð, lifum eins og sannir lærisveinar Krists og njótum þess að sitja til borðs í hinni stórkostlegu veislu sem okkur er öllum boðið til.