Að vænta vonar

Að vænta vonar

Nýtt kirkjuár gengur í garð með aðventunni. Á fyrsta sunnudegi í aðventu er stóra þemað eftirvæntingin og vonin eftir því sem jólin færa okkur – fæðing Jesúbarnsins og friður með mannkyninu sem Guð elskar.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
28. nóvember 2010

Jesús litli

Nýtt kirkjuár gengur í garð með aðventunni. Á fyrsta sunnudegi í aðventu er stóra þemað eftirvæntingin og vonin eftir því sem jólin færa okkur – fæðing Jesúbarnsins og friður með mannkyninu sem Guð elskar.

Það er létt að skilja hvernig vonin tengist börnum – því börnin bera með sér fyrirheit um framtíð, vöxt og þroska. Í flottu viðtali við Halldóru Geirharðsdóttur leikara sem birtist í sunnudagsblaði Moggans í dag, segir hún frá lífinu sem hún kynntist í Úganda, þar sem stríð og átök hafa rústað lífi íbúanna og sett daglega tilveru úr skorðum. Þar bíður gríðarmikið uppbyggingarstarf sem beinist ekki síst að yngstu kynslóðinni, með þeirri von að hægt verði að leggja grunn að betra og öruggara samfélagi framtíðarinnar.

Halldóra deilir með okkur hvernig aðstæður barna í heiminum eru að vissu leyti innblástur sýningarinnar um Jesú litla, sem nú er sýnd í Borgarleikhúsinu. Sýningin kennir okkur um leið hvers vegna við höldum jólin.

…þetta er í raun tími til að fagna því að börn fæðast, að þau eru framtíðin og við eigum að vera þakklát fyrir það að hvert einasta barn sem fæðist er nýtt tækifæri fyrir heiminn.

Þetta gildir um Jesúbarnið og þetta gildir um öll börn sem koma í heiminn. Við sjáum í Jesúbarninu hvað lítil og varnarlaus börn eru kröftugur vitnisburður gegn því sem er ógnandi og yfirþyrmandi.

Aðventan er tíminn til að íhuga þetta. Við skulum íhuga með hvaða hætti vonin vitjar okkar, í hvaða aðstæðum sem við finnum okkur. Aðventan nærir vonina eftir að lífið haldi áfram, að allir dagar séu góðir dagar, að myrkrið víki fyrir ljósinu sem kemur í heiminn.