Þörf eða græðgi - annar hluti

Þörf eða græðgi - annar hluti

Afstaða okkar til náttúrunnar er fyrst og síðast út frá sjónarhorni neytandans, okkur skortir á vissan hátt siðferðilega afstöðu til náttúrunnar. Í góðærinu var hún gróðavon þó að nóg væri af öllu, í kreppu verður hún blóraböggull sem tekur á sig syndir okkar mannanna.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
10. ágúst 2010
Flokkar

Þessi staður angar af sögu, sögu sem er svo stór og mikilfengleg að þegar maður keyrir hina þráðbeinu braut framhjá Laufskálum og Víðinesi í faðm þessa helgidóms fyllist maður lotningu vegna þess að hver þúfa minnir á að hér voru örlög okkar ráðin í svo mörgu og um svo margt. Hér lifðu menn og konur sem þurftu einatt að taka afdrifaríkar ákvarðanir og inna erfið verk af hendi án þess að að vita hvort þau nytu sjálf afleiðinganna eða töpuðu öllu sínu já og jafnvel lífinu. Stundum er erfitt að gera sér í hugarlund þá 900 ára atburðarrás sem hefur orðið frá dögum Jóns biskups Ögmundssonar og fram til þessa dags þegar maður keyrir inn í þennan gróðursæla dal því hvergi á landinu er þögnin jafn djúp og hér á Hólum. Hvort það er skjólið af byrgðunni eða lognið á eftir sögustorminum sem ræður, mun ósagt látið en hver svo sem ástæðan er þá er þögnin hér eins og sú sem verður að góðu dagsverki loknu, eins og Guðslaun fyrir áræði og dug. Og það erum við sem fáum að njóta þessarar kyrrðar, ekki Guðmundur góði og svo sannarlega ekki Jón biskup Arason né heldur Guðbrandur Þorláksson sem opnaði okkur leiðina að heilagri ritningu sem hann lét prenta á okkar tungu, hann teiknaði líka fyrsta kortið af Íslandi svo við gætum skynjað umhverfi okkar og staðsetningu og ekki var það Halldóra dóttir hans sem naut hinnar djúpu þagnar því hún byggði heila kirkju hér á staðnum eftir að sú fyrri fauk í miklu fárviðri, án vitundar Guðbrands gamla sem þá var laggstur í kör. Þetta fólk lifði ekki þessa kyrrð sem við njótum hér á þessum stað í dag, þetta eru forfeður okkar og mæður sem mótuðu íslenska sögu og það er sú saga sem gerir okkur líka að því sem við erum í dag og hér erum við í dag, vegna þessa fólks og þeirra verka, verum minnug þess en um leið skulum við íhuga að eftir nokkrar aldir ganga aðrar kynslóðir hér um þetta land og þá eru það við sem höfum mótað þeirra forsögu og lífsforsendur og hvernig ætlum við að fara að því? Það er hin stóra siðferðisspurning vegna þess að hún varðar ekki ánægju augnabliksins okkar heldur ábyrgðina gagnvart náunganum, líka hinum ófædda. Guðspjall dagsins fjallar um þessa ábyrgð. Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ Að þekkja sinn vitjunartíma er hluti af því að vera siðferðilega ábyrgur einstaklingur og þjóð, að þekkja sinn vitjunartíma er að vita hvenær nóg er nóg, hvenær þörf er orðin að græðgi, hvenær sjálfstraust er orðið að hroka, hvenær áræði er orðið að dómgreindarleysi, að þekkja sinn vitjunartíma er að vita hvenær maður þarf að leita út fyrir sjálfan sig að styrk og stefnu, þegar Guð einn hefur svörin og andi Hans kann einn að leiða. Að þekkja sinn vitjunartíma er að staldra við og horfa á umhverfi sitt og aðstæður og meta og þakka það sem er og hefur verið gefið. Að þekkja sinn vitjunartíma er að skynja hreyfingu lífsins, að þekkja sinn vitjunartíma er að skynja sjálfan sig á ferð, að þekkja sinn vitjunartíma er að skilja að ferðin hefst og endar hjá Guði og ekkert á maðurinn nema þá von. Í 6.kafla fyrra Korintubréfs eru eftirfarandi orð postulans: “Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf. Já það sem líkaminn og náttúran eiga sameiginlegt er að þau hýsa anda lífsins, þau eru sköpunarverk Guðs og eins og við eigum okkur ekki sjálf heldur þiggjum lífsneistann frá Guði er náttúran hvorki eign okkar né sjálfrar sín, hún kemur frá Guði, hún er lifandi, eins og spámaðurinn Jesaja lýsir svo undursamlega þar sem hann segir: “Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega eru mennirnir gras.” Við erum komin langt í allri þekkingu á líkamsrækt og heilbrigðu líferni, í þeim fræðum hljómar slagorðið líkaminn er musteri andans gjarnan sem rök fyrir því að taka sér tíma og rúm til að þjálfa líkamann og styrkja hann, með það fyrir augum að varna sjúkdómum og ótímabærri hrörnun og bæta lífsgæði líðandi stundar. það getur enginn véfengt þessi rök og þessa hvatningu, hún er í raun jafn augljós og það eitt að draga andann og drekka vatn. Samt eigum við erfitt með að yfirfæra þessi augljósu sannindi yfir á náttúruna það er eins og hún sé eilíf og ódauðleg og auðlindir hennar óþrjótandi, að engar ár megi vernda eins og æðarnar okkar sem bera blóð til lífsnauðsynlegra líffæra, eins og eitt fjall eða landssvæði sé lítils virði þó það fóðri dýraríki sem á sér þar bólstað. Afstaða okkar til náttúrunnar er fyrst og síðast út frá sjónarhorni neytandans, okkur skortir á vissan hátt siðferðilega afstöðu til náttúrunnar. Í góðærinu var hún gróðavon þó að nóg væri af öllu, í kreppu verður hún blóraböggull sem tekur á sig syndir okkar mannanna. Ég gleymi aldrei mótrökum manna sem vildu virkja á Kárahnjúkum, eins þjóðhagslega hagkvæmt og það síðan reyndist eða þannig, þeir horfðu háðskum augum á mann og spurðu “ heyrðu vinan hefurðu einhvern tímann komið þangað”? Hvað er með þetta lattedrekkandi lið í Reykjavík, hvað er það að æsa sig yfir landssvæði sem það þekkir ekki bofs og mun aldrei heimsækja? Nei við höfum ekki öll komið á Kárahnjúka en við höfum heldur ekki hitt öll börn þriðja heimsins okkur hlýtur samt að varða um að þau haldi heilsu og lífi og við munum heldur aldrei hitta barnabarnabarnabarnabörn okkar en okkur varðar samt um að þau fái að lifa í sömu guðdómlegu kyrrðinni og við skynjum á þessum degi og megum þakka formæðrum og feðrum sem litu á verkefni lífsins sem langtíma skuldbindingu. Enn og aftur á að höndla með náttúruna eins og gjaldeyri, selja líkama hennar og blóð án þess að hafa fullvissu um þá framtíð sem bíður hennar, vandamál okkar er að við þekkjum ekki okkar vitjunartíma, það er grundvallar vandamál þjóðarinnar og þeirra sem með völdin fara. Náttúran er líka náungi okkar, munum það, hún hefur anda og líf og hún gefur og hún tekur og hún lifir og hún deyr og líf okkar er samtvinnað henni. Hugsaðu þér, meira að segja byggingarefnið í þessari elstu steinkirkju landsins sem þú situr inn í, kemur úr fjallinu hér fyrir ofan staðinn, kirkjan öll er byggð úr þessum djúprauða sandsteini sem hefur elst svona vel og varðveitt þennan merkilega helgidóm og þessa mögnuðu sögu forfeðra okkar sem unnu hörðum höndum í þegnskylduvinnu við að hlaða steininn og það eina sem þeir þáðu í laun var örlítið neftóbak og brjóstbirta og hér sitjum við og öndum að okkur leifum siðbreytingar og prentbyltingar sem þykkir steinveggirnir hafa varðveitt. Í nýútkominni ljóðabók Ísaks Harðarsonar er ljóð sem ber heitið Náðin, 21 öld síðar, ljóðið er eftirfarandi: Stag- bættur himinninn margvafinn upp á kefli svo draga má út ( eftir þörfum) og hafa sem þak

yfir höfuð vor þanin og tætt yfir hjörtu vor brunninn og blóðsprengd.

Blá saklaus himinninn, ó eilífa skjólshús mannsins deyjandi í sínum vélum. Þetta ljóð er aðvörun um afleiðingar þess að horfa á umhverfi sitt, menn og lífríki sem neysluvöru, uppfyllingu ánægjustunda, skjótfenginn gróða, þetta er ljóð sem við viljum ekki að verði að veruleika 21 öld síðar. Af því að við erum siðferðisverur, við búum yfir hinum góða vilja sem er Guð í hjarta hverrar manneskju, já Guð sem bíður þess að fá að leiða okkur í gegnum trú og bæn. Í því er hin eilífa náð fólgin sem allir menn eiga hlutdeild í vegna dauða og upprisu Jesú Krists, þess vegna komum við líka hvert öðru við og þess vegna komum við líka komandi kynslóðum við, sem og öllu sköpunarverki Drottins, því Jesús Kristur sigraði dauða og synd í eitt skipti fyrir öll og það verður aldrei endurtekið heldur lifir sú náð kynslóð fram af kynslóð, Jón biskup Ögmundsson naut þeirrar náðar, sem og Guðmundur góði, Jón Arason, Guðbrandur Þorláksson og Halldóra dóttir hans og í þeim sannleika býr von okkar hér og nú í kyrrð þessa dags og þeim sannleika megum við treysta. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.