Ótti og eldur - Brennuvargar Max Frisch í Þjóðleikhúsinu

Ótti og eldur - Brennuvargar Max Frisch í Þjóðleikhúsinu

,,Ég lánaði þeim eldspýtur. Og hvað með það. Það lánuðu allir eldspýtur, næstum hver einasti maður. Annars væri borgin varla brunnin til ösku. – Svo gerði ég þetta líka í góðri trú og af því að ég treysti þessum mönnum.“
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
26. október 2009

Brennuvargarnir

,,Ég lánaði þeim eldspýtur. Og hvað með það. Það lánuðu allir eldspýtur, næstum hver einasti maður. Annars væri borgin varla brunnin til ösku. – Svo gerði ég þetta líka í góðri trú og af því að ég treysti þessum mönnum.“ Þannig svarar Gottlieb Biedermann fyrir og afsakar gjörðir sínar eða fremur afdrifaríkt athafnaleysi í lok leikritsins Brennuvargarnir í þann mund er húsið hans glæsta logar ásamt gasstöð og nærliggjandi stórhýsum með miklum mannskaða og eignatjóni.

Svissneska leikskáldið Max Frisch samdi fyrstu drög að þessu enn brennheita leikverki eftir valdatöku kommúnista í austur Evrópu. Það dregur dám af henni en ekki síður skelfingum heimstyrjaldarloga og framgangi ógna og ofbeldis nasista er tendraði þá. Það vísar til þess hvernig þýsk stjórnvöld og almenningur og víðar í álfunni litu framhjá ógninni sem yfir vofði. Leikritið bendir þó einkum á þá heimsku og hugleysi sem svo oft ráða för og eru undirrót hörmunga.

Biedermann er efnaður verksmiðjueigandi og hefur borið sig borginmannlega á kránni, barið í borð og sagt að hengja ætti brennuvargana sem ganga lausir í borginni og kveikja í byggingum en munu jafnframt vera lagnir við að koma sér inn á fólk sem sölumenn. Engu að síður hleypir hann ,,sölumanni“ inn fyrir dyr á heimili sínu sem reynist vera umrenningur, Joseph Schmitz, og fyrrum glímumaður í fjölleikahúsi sem kviknaði í.

Biedermanni stendur ógn af gestinum óboðna en veigrar sér við að vísa honum á dyr og er brátt farinn að þóknast honum á alla lund í mat og drykk enda skjallar hann Biedermann óspart og hrósar fyrir næma samvisku og góðmennsku og laðar fram vorkunnsemi Babette, hjartveikrar eiginkonu hans, með bjargarleysi sínu og sorgarsögu. Biedermann má ekkert vera að því í þessum heimilisönnum að hitta og ræða við Knechtling, starfsmann sinn til fjórtán ára, sem hann hefur sagt upp, en hafði þó unnið að merkri uppgötvun fyrir fyrirtæki hans og var nú örvæntingarfullur með mikla ómegð. Biedermann segir þjónustustúlkunni að hann taki ekki þátt í neinum látalátum og Knechtling geti fengið sér lögfræðing eða einfaldlega stungið hausnum í gasofn. Biedermann er jú ,,harður í horn að taka í viðskiptum.“

,,Þú trúir á hið góða í manninum, segir glímukappinn, en fólk trúir ekki lengur á Guð heldur slökkviliðið.“- ,,Þú myndir ekki bjóða mér gistingu ef þú værir illmenni. Og Biedermann ,, sem er húsbóndi á sínu heimili og enginn smáborgari“ býður honum að gista uppi á lofti með þessum orðum: ,,Þú ert auðvitað enginn brennuvargur.“ Þegar hávaði berst ofan af loftinu bregður Biedermanni þó og enn frekar, er hann uppgötvar að járntunnur eru komnar þangað upp og þar eru nú tveir menn í stað eins áður. Sá nýkomni, Eisenring, er þó snyrtilegur ásýndum og vel klæddur enda verið þjónn á fínum veitingastað sem bara sí svona kviknaði í.

Þegar Eisenring svarar því til varðandi innihaldið í tunnunum að það sé bensín, segir Biedermann einfaldlega. ,,Enga hótfyndni. Maður geymir ekki bensín upp á lofti“ og heldur áfram að reykja vindil. Eisenring gerir þó athugasemdir við það með þessum orðum: ,,Ég myndi nú ekki reykja hér uppi.“ Biedermann hefur samt engan kjark til að ranka við sér. Þegar lögreglumaður stingur höfðinu upp úr loftlúgunni, eins og frelsandi engill, og flytur þau tíðindi, að Knechtling hafi í raun og veru flýtt fyrir sér með því að stinga hausnum í gasofn, þá lætur Biedermann það ekki mikið á sig fá, enda stybban farin að hafa áhrif á hann. Þegar lögreglan furðar sig á tunnunum og spyr um innihaldið svarar Biedermann glaðbeittur: ,,Það er hárvatn.“ Er nema von að gestunum létti og segi sín á milli: ,,Hvílíkur öndvegismaður“ og taki taktfastan dans.

Undir hljómar áhrifarík tónlist Barða Jóhannssonar sem upptaktur komandi ógna. Leikverkið er glæsilega upp sett. Sviðsmyndin er einföld en nær því fram að skapa trúverðuga umgjörð um heimili og veröld Biedermanns sem virðist örugg og fjarri eldslogum í borginni, vernduð af ,,myndugleika hans, dyggðum og ágæti“ en er þó brotgjörn og ótraust þegar á reynir eins og persóna hans og tilvera, glerið og glysið sem umlykur hann.

Ábúðarmikill kór, nærtækur og fjarrænn í senn í stíl við kóra í grískum harmleikjum, flytur í söng og tóni, sem slökkvilið, tíðindi af baráttunni við brennuvarga í borginni. Kórinn birtist jafnframt sem véfrétt er talar inn í samvisku Biedermanns sjálfs, þegar hann vansvefta fer til vinnu sinnar að morgni sléttur og felldur að sjá og hugar ekki að yfirvofandi ógn. Spurn: ,,Hvað ertu að hugsa Biedermann,“ berst frá kórnum og hann svarar: ,, Ég þarf ekkert að hugsa nema það sem ég vil hugsa. Ég vil ekki lifa í stöðugum ótta. Bensín er bensín. Ég lá andvaka, braut heilann, lagði eyrað við loft. Þeir hrutu báðir. -Var svo reyður að ég ætlaði að fleygja þeim út með berum höndum en konan mín hélt ég fengi kvef.“ ,,Hvert er ferðinni heitið“, spyr kórinn? ,, Ef tilhugsun um róttækar breytingar er óttalegri en aðsteðjandi voði hvernig er þá hægt að koma í veg fyrir hann?“

Biedermann hörfar undan og þorir alls ekki að láta vita um hættuna og bægir henni frá sér sem best hann má vegna þess að hann óttast að bæði gestirnir og lögreglan snúist gegn sér og reynir því enn að telja sér trú um að ekki sé allt sem sýnist enda ,,fylgi nýjum vinum nýtt grín.“

Gestirnir leyna Biedermann þó engu, hvorki tunnum, hvellhettu né kveikjuþræði. Þeir ná öllu sínu fram með því að beita þeim þremur aðferðum sem reynst hafa þeim svo vel við að villa á sér heimildir. Gríni, er setur gjörðir þeirra í skoplegt samhengi. Vorkunnsemi er deyfir andstöðu. Og sannleikanum ótrúlega, sem er ekki trúað fyrr en allt er um seinan.

Leikurinn magnast og til úrslita dregur er Biedermannhjónin bjóða ,,vinum sínum“ til kvöldverðar til að tryggja sér vináttu þeirra og komast hjá skelfingum. Ekkju Knechtling er einfaldlega vísað frá, þegar hún í aðdraganda máltíðarinnar leitar ásjár og líður svartklædd um sviðið eins og vofa enda hafa þau hjónin keypt stóran útfararkrans. Kransinn kemur eftirminnilega við sögu í kostulegu og óhugnanlegu borðhaldinu. Sírenuvæl eykur óhugnaðinn og opinská játning gestanna og,,grínið“, að þeir séu í sannleika brennuvargar, sem tali opinskátt um hlutina. Staðsetning húss Biedermanns við gasstöðina og nærliggjandi stórbyggingar hafi gert þeim það alveg ómótstæðilegt. Þegar Biedermann er spurður: „ Hvað heldur þú að við séum?“ svarar hann einfaldlega. „Þið eruð vinir mínir, hvað get ég gert svo að þið trúið mér.“ Hann fær mjög rökrétt svar: ,,Láttu okkur fá eldspýtur sem sönnun þess að þú trúir okkur.“

Þegar brennuvargarnir tveir fara við svo búið, birtist sá þriðji á sviðinu, doktorinn, umbótasinninn og hugsjónamaðurinn, sem hefur leynst með hinum. Hann hefur verið með í ráðum þótt hvatir hans séu aðrar en þeirra en getur ekki lengur, tvístígandi, orða bundist, þegar sírenuvæl berst enn og umhverfið logar, og „túlkað athæfið öðruvísi en mögulega glæpsamlegt“ og spyr. ,,Hvað. Léstu þá fá eldspýtur í raun og veru?“ Og Biedermann svarar: ,,Ég lánaði þeim eldspýtur. Og hvað með það...?“

Brennuvörgunum, mögnuðu og margslungnu leikverki Max Frisch, verður ekki lýst í fáum orðum og dráttum enda sjón sögu ríkari. Sýningin og uppfærslan í Þjóðleikhúsinu er vel unnin og vönduð. Verkið er gráglettinn gamanleikur, alvara þess svo mikil að ekki er hægt að tjá hana nema með því að slá yfir í hinn kantinn og gera heimskuna, formyrkvunina og hörmungaratburði hjákátlega. Leikstjóra og leikendum tekst sérdeilis vel að ná þessu markmiði og gervi og leikmynd stuðla mjög að því.

Auðvelt er að hæðast að og hneykslast á viðbrögðum og háttalagi smáborgarans Biedermanns. Vandalaust er að líta háskalega atburði úr öruggum fjarska og afhjúpa úr leikhússal samviskubrigðir og svik sem greiða götu ofríkis og skelfinga svo sem vísað er til í verkinu. Erfiðara er að standa sjálfur frammi fyrir og gegn ginningum og ógnum og dragast ekki inn í kjölsog þeirra og komast undan illum áhrifum. Þannig orkaði Nasisminn á milljónir manna, sem létu undan áróðri hans og ofbeldi er umturnaði kristnum gildum um mannhelgi og lífsvirðingu. Ríkisrekinn kommúnismi hafði víðlíka áhrif með guðleysi sínu, þvingunum og blóðugum byltingum. Og siðblind auðhyggja, kapitalismi, er lymskulegt skaðræðisafl sem leiðir af sér Mammonsdýrkun er setur verðmiða á líf og limi og gerir sér gullkálfa og dansar hratt og glannalega í kringum þá. Styrjaldarátök og umhverfisvá fylgja ljóslega þeim dansi þótt framhjá sé horft. Kjarnorkueldar geta vissulega upptendrast og eytt lífi jarðar ef ekki tekst að eyða þeirri bábilju að öryggi og varnir séu að kjarnavopnum. Efnahagshrun og kreppa sem við Íslendingar glímum við er óneitanlega afleiðing af blindri sjálfumgleði og andvaraleysi gagnvart glöggum viðvörunar - og hættumerkjum.

Leikverkið Brennuvargarnir felur í sér ákveðna undirtóna og spurnir um forsendur siðferðis og kristinna lífsgilda. Er efinn, sem spyr í þverstæðum og vanda andstæða kristinnar trúar? Er það ekki óttinn fremur, sem lamar og hindrar ljós og skynsemi? Eru elska og umhyggjusemi ekki markleysa ef þau beinast að röngum aðilum og greiða götu illvirkja en bregðast þeim sem vanmegna eru og þarfnast bóta á högum sínum? Valda stéttaskipting og félagslegt óréttlæti ekki ólgu og verða oft eldsneyti öfgaafla sem einskis svífast til að ná markmiðum sínum? Fela slíkar andstæður ekki í sér köllun og áskorun um að horfast í augu við þær og leita úrræða til að rétta hlut lítilmagnans og beita til þess bæði kjarki og fórnfúsum kærleika?

Kærleikur er vissulega lítils megandi, ef kjarkur og kraftur fylgja ekki, sem beinast gegn ógnum og illsku. Kvöldmáltíð Biedermanns er engin vináttu- eða kærleiksmáltíð heldur bandalag við illsku og uppgjöf fyrir henni. Gottlieb Biedermann hverfur í eldinn sem hann vildi forðast og brennuvargarnir gleðjast yfir logunum. Jesús Kristur gengur hins vegar frá kærleiksmáltíð sinni móti dauðans vá og voða eftir að hafa dregið upp fyrir vini sína táknmynd af dauða sínum er miðar að því að yfirvinna illskuna alla og skapa kjarkað kærleikssamfélag með vitnisburði þeirra og verkum.

Brennuvargarnir er sígilt og tímabært leikrit. Áleitin sýning þess í Þjóðleikhúsinu á erindi við þá sem vilja vinna gegn heimsku og hugleysi og boða fagnaðarerindi Jesú Krists marktækt inn í samtíðina og láta sig varða forsendur þess og framgang.