Hvað táknar sagan?

Hvað táknar sagan?

Svo er með táknin allt í kringum okkur, í kirkjum, í myndlistinni, í tónlist, í umferðinni – þau krefjast þess af okkur að við setjum okkur inn í ákveðinn hugarheim, skiljum samhengið og tilganginn. Þá opnast augu okkar, já það sem var hulið verður okkur augljóst – svo vísað sé í yfirskrift sýningarinnar hér.

Kirkjur eru margar alsettar táknum. Neskirkja er ekki í hópi þeirra litríkustu en hér höfum við þó stóran kross á altarisveggnum og klæðin eru með einföldum myndum sem merkja eitthvað meira en útlínurnar segja til um.


Augljós

 

Öðru máli gegnir um Torgið. Þar mætir myndlistin okkur í allri sinni fjölbreytni. Hugmyndalistin rær á svipuð hugarmið og verkin sem prýða helgidóma heimsins. Listafólkið skilur okkur eftir með hugrenningar og vekur okkur til umhugsunar um heiminn og okkur sjálf. Það á sannarlega við um kirkjugluggana hennar Þórdísar. Gaman hefur verið að ræða við gesti og gangandi hér í safnaðarheimilinu, fólk sem sækir hingað í gleði og sorg, til uppfræðslu og samfélags og staðnæmist fyrir framan bjarta lýsandi fletina.

 

„Augljós“ er yfirskriftin en það er þó eitt einkenni tákna að þau eru hreint ekki augljós. Þau vísa þvert á móti til einhvers veruleika, einhvers samkomulags getum við sagt að ríki um gildi, hugsanir, fyrirbæri sem verkið með einhverjum hætti, bendir á.


Táknin í umferðinni

 

Svo ég hverfi nú aðeins aftur til hversdagsleikans, þá sjáum við hvergi annan eins aragrúa tákna og í umferðinni. Já, nútíminn er stöðugt á ferðinni. Við erum jú oftar en ekki sannfærð um að við eigum að vera einhvers staðar annars staðar en við erum.

 

Á slíkum háskaslóðum sem gatnakerfið er, þá er eins gott að fá skýr skilaboð um hvað má og hvað má ekki. Merkin við veginn, ljósin, grænu, gulu og rauðu, strikin á veginum, allt eru þetta skínandi dæmi um það hvað tákn geta verið mikilvæg. Og svo þegar eitthvað er í ólagi þá blikka einfaldar myndir í mælaborði. Þrýstingur í dekkjum, tími á olíuskipti svo ekki sé nú talað um það þegar eldsneytið er á þrotum. Já, er ekki drægnikvíði eitt af nýyrðum okkar tíma? Það er nú við hæfi að ferðalangar eins og við nútímann erum óttumst að draga ekki alla leið.

 

Guðspjallið sem hér var lesið, Jóhannesarguðspjall, kallar kraftaverk Jesú, einmitt þetta – „tákn”. Það hefur á sinn hátt sömu merkingu og skiltin við vegarkantinn, frásögn er sett fram sem skilur eftir sig ýmsar hugrenningar. Já, það að breyta vatni í vín er vissulega nokkuð sem gárungar gera grín að. Í íslensku bíómyndinni Guðaveigar er einmitt tilbrigði við það stef þar sem ungbarnasund leynir á kraftaverki sem augljóslega vísar til þessa frásögn.

 

Trúin leitar í táknin og það kemur svo vel fram í lexíunni þar sem Móse getur ekki séð Guð og lífi haldið. Þessi hugmynd að almættið sé ósýnilegt skapar frjóan jarðveg fyrir tákn og merkingar sem vísa í annan veruleika.


Óvenjulegt kraftaverk

 

Þetta „tákn“ er þó óvenjulegt miðað við öll hin sem Jóhannes og hinir guðspjallamennirnir greina frá. Hér er ekki manneskja læknuð jafnvel lífguð við, heldur er atburðurinn gerður til að bjarga andliti gestagjafanna. Já, það er nú ekki gaman ef veislubirgðirnar klárast og samkvæmið er langt því frá að vera búið.

 

Brúðkaup þetta er eins og inngangur að því sem koma skyldi. Svo segir Jóhannes að þetta hafi verið fyrsta táknið sem Jesús vann, en svo mörg munu þau hafa verið að allar heimsins bækur dygðu ekki til þess að telja þau upp, eins og segir svo undir lok guðspjallsins.

 

Tákn þetta, stendur reyndar vel undir nafni, það er fullt af skilaboðum, myndum og skírskotunum í sögu og menningu þeirra sem frásögnina heyrðu í fyrstu. Já, á tákninu eru margar dyr og lyklarnir að þeim eru ef til vill ekki í hendinni heldur þarf að leita í vösum og jafnvel undir mottunni til þess að geta opnað þær upp á gátt.

 

Lúther var hugfanginn af þessu guðspjalli. Í hans túlkun er vatnið á kerjunum tákn fyrir hina gömlu tíma – þá sem hann kenndi við lögmálið. Það er að sinna hinni réttu hegðun út á við – láta aðra sjá og skynja það að góð verk eru unnin, fremur en að hjálpa og líkna náunganum í einlægni og af kærleika. „Eruð þið tilneydd að sýna umhyggju hið ytra og er það ykkur ekki að skapi?“ spyr hann fyrir hönd Jesú. „Gott og vel ég mun gera bragðið sætara og betra og breyta því í vín svo að umhyggjan verði bæði gleði ykkar og yndi.“

 

Það er þetta sem hann sér í þessari umbreytingu. Með orði Guðs breytist inntak allra hluta. Vatn breytist í vín. Kristinn maður fylgir ekki lögmálinu af þrælsótta og hlýðni – nei hann vinnur sín kærleiksverk af gleði og sannfæringu. Ramminn utan um allt þetta, brúðkaupið, er einmitt sá vettvangur þar sem ástin á að móta samskipti fólks og það er hún sem gefur þeim samskiptum gildi. Og vettvangurinn er hin gleðiríka hátíð þar sem fólk samgleðst og fagnar því kærleikssambandi sem þar er vígt.


Stjórnarskrá kristninnar

 

Já, þetta er guðspjall gleðinnar enda á orðið fagnaðarerindi svo vel við um þann boðskap sem kristin kirkja flytur. Ekkert stendur kristinni trú nær en kærleikurinn sem við eigum að bera hvert til annars. Hér fáum við boðskapinn góða um kærleika og virðingu handa hverjum manni en þó fyrst og fremst kærleika Guðs til mannanna, það er einmitt textinn í Rómverjabréfinu sem hér var lesinn og fróðir menn hafa kallað „stjórnarskrá kristninnar“:

 

„Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“

 

Sannarlega er full ástæða til þess að hamra á þessum skilaboðum. Freistingin stóra er einmitt sú að draga í dilka, flokka og sundurgreina hverjir eru verðugir og hverjir ekki. Við þekkjum söguna og við vitum það að innan kirkjunnar hafa menn líka misstigið sig í þessum efnum.

 

Það væri þó afar ósanngjarn dómur að halda því fram að flokkadrættir og fordæming lýsi afstöðu kristinna manna til náungans. Nei, þau eru fremur undantekningin. Þetta er orðað í pistlinum. Að sýna virðingu er einmitt það að fagna og hampa sérstöðu þeirra sem í kringum okkur standa.


Hvað táknar sagan?

 

Já, hvað táknar sagan? hvað táknar vínið? Það gleður og kætir. Svo endist það miklu betur en aðrir vökvar í því umhverfi þar sem sagan verður til. Jafnvel vatnið í körunum í Kana fúlnaði fljótt og í það settust alls kyns kvikindi er það stóð þar langan tíma í mollunni. Þar sjáum við annað merki þess hversu magnaður gjörningur Krists var í Kana. Hann tók það sem var hversdagslegt og endist skamma hríð og breytti því í veigar sem vísa til hátíðar og þess sem varir miklu lengur.

 

Svo er með táknin allt í kringum okkur, í kirkjum, í myndlistinni, í tónlist, í umferðinni – þau krefjast þess af okkur að við setjum okkur inn í ákveðinn hugarheim, skiljum samhengið og tilganginn. Þá opnast augu okkar, já það sem var hulið verður okkur augljóst – svo vísað sé í yfirskrift sýningarinnar hér.

 

Hvort tveggja er inntak Guðs ríkisins og við erum öll hluti af því samfélagi. Þar er hátíðin og þar er endingin, dýrðin og eilífðin. Fögnum því og verum glöð, lifum eins og sannir lærisveinar Krists og njótum þess að sitja til borðs í hinni stórkostlegu veislu sem okkur er öllum boðið til.