Lífið mætir dauðanum

Lífið mætir dauðanum

Við erum ekki aðeins Íslendingar heldur líka Gyðingar, við erum öll Rómverjar, öll fjandmenn Guðs - en samt líka lærisveinar sem er boðið til lífs í heilagleika. Júdas býr í okkur öllum - en líka Jesús Kristur.

Fyrr í kvöld var stór hópur af fólki í safnaðarheimilinu og naut skírdagsmáltíðar. Það var vel lyktandi, bragðgóð fjölréttamáltíð sem bar með hráefnum sínum og samhengi vitni um skírdagsmáltíðir aldanna. Jesús Kristur bauð til borðs og máltíðar þegar hann bjóst við dauða sínum. Gagnvart dauða koma kristnir menn saman til samfélags, veislu. Lífið mætir dauðanum.

Og svo er líka máltíð í kirkjunni. Jesús er við borðið, er sjálfur lífið. Á aðfangadegi dauðadags njótum við samfélags, veislu – og lífið mætir dauðanum.

Útburður og nakið borð Í lok þessarar athafnar berum við út úr kirkjunni alla gripi, ljósastjaka, biblíu, handbók, sálmabók, bikara, brauðhús, dúk, þerrur – allt það sem er á altarinu. Veisluborð kirkjunnar verður strípað öllu því, sem á því er í messunni. Af altarinu verður allt tekið, myrkur tæmingar leggst að. Af hverju? Tákn hins heilaga eru tekin burtu þegar föstudagurinn langi sækir að.

Það er of einfeldningslegt að túlka píslarsöguna aðeins sem réttarmorð í fornöld. Píslarsaga Jesú Krists er lykilsaga og varðar allt líf og alla menn. Hún varðar sköpun Guðs og þar með menn. Hvers konar óréttlæti er þáttur píslarsögunnar, hernaður gegn náttúrunni er líka af hinu illa. Mannréttindabrot eru verk óhelgi, mismunun fólks vegna kynferðis, litarháttar og trúar sömuleiðis. Þegar nafn hins heilaga er notað í þágu óttans er borð veislunnar nakið og engum til lífs og gleði. Þegar við leyfum hinu illrætta að vera þá er lífi spillt.

Píslarsagan er ekki aðeins saga um vonda menn fyrir nær tveimur árþúsundum, sem voru illir í garð eins manns. Hún er fremur saga um okkur öll, líka möguleika allra manna til að snúa baki við því, sem við þó erum, eigum að vera og erum kölluð til. Við erum ekki aðeins með lærisveinum Jesú við borð skírdagsins, heldur líka í hermönnum, sem veittust að honum. Við erum líka prestarnir, sem ekki vildu horfast í augu við að Guð talaði orð lífsins. Við erum ekki aðeins Íslendingar heldur líka Gyðingar, við erum öll Rómverjar, öll fjandmenn Guðs - en samt líka lærisveinar sem er boðið til lífs í heilagleika. Júdas býr í okkur öllum - en líka Jesús Kristur.

Bæði og... Þegar við berum allt af altarinu viðurkennum við, að í okkur býr möguleiki sem í ákveðnum aðstæðum er hægt að beita og misnota. Að vera mennskur er ekki aðeins að gera gott heldur líka gera mistök og fremja afbrot. Þegar við berum út af altarinu táknum við fyrir sjálfum okkur, að við erum ekki aðeins vinir Jesú, heldur líka andstæðingar hins góða. Þegar við menn viðurkennum stöðu okkar og hið eiginlega ríkisfang er Adam nálægur og ábyrgur.

Heilagur... Í messulok verða fimm afskornar rósir lagðar á nakið borðið. Föstudagurinn verður þeim langur og til fjörtjóns. Blómin munu slúta fram yfir brún og verða æpandi tákn fram á páskamorgun. Rósir á altari eru mál elskunnar. Þær eru tákn sára Jesú en líka meina heims og manna. Gróa sárin - verða páskar? Kemur lausnin heims og þín? Páskarnir eru að baki písl, líf eftir dauða.

Þegar okkur er boðið til borðs Jesú hljómar boðskapur hans um að hann sé brauð og bikar lífsins. Þegar við göngum til borðs Jesú viðurkennum við að hann gefur líf, talar orð lífsins, er lífið sjálft. Við játum að heimurinn er góður og í góðum höndum, að vonin er sterkari en hið vonda, að lífið er sterkara en myrkrið. Við borðið mætir lífið dauðanum. Guð geymi þig þessa bænadaga, varðveiti þig og veiti þér líf gegn dauða. Amen

Íhugun í skírdagsmessu í Neskirkju 28. mars, 2013.