Aðventan og jólin eru tímar andstæðna. Þetta eru tímar myrkurs hér á norðurhveli en við bæði tölum og syngjum um ljósið sem aldrei fyrr. Þetta eru tímar kulda og nepju en við glæðum þá hlýju og innileik. Þetta eru tímar gæftaleysis, gjarnan brælu á miðum, hvorki sá menn né uppskera um þetta leyti, búpeningur er kominn í hús og lítið um að vera í hinum gömlu atvinnugreinum. Samt er annríkið aldrei meira.
Án þessara merkisviðburða ársins væri árstími þessi tímabil lítilla fregna og fárra gleðilegra tíðinda. En það er hann sannarlega ekki.
Aðventan – sem einnig er nefnd jólafasta – hafði til skamms tíma það hlutverk að skapa eins sterka andstæðu við sjálfa jólahátíðina og mögulegt var. Í kaþólskum sið neituðu menn sér um kjöt og annan munaðarvarning um þetta leyti í anda þess sem rómarkirkjan boðaði. Mikið lifandis skelfingar ósköp hefur verið gaman að gæða sér á jólasteikinni að undangengnu slíku tímabili.
Í lútherskum sið, gátu menn vissulega leyft sér að naga kjöt – tja það gerðu menn víst ekki fyrr á 17. öld – eftir að leifar hins gamla siðar voru að mestu horfnar. En í stað hinna boða og bannsetninga um það hvað mátti gera fyrir skrokkinn kom boðskapur um strangt aðhald sálarinnar. Menn skyldu verja aðventunni til þess að íhuga það hvernig þeir lifa lífinu. Menn áttu að iðrast og leita sátta við náungann. Menn áttu að íhuga endimörk tímans og takmörk tilverunnar. Jólafastan var alvarlegur tími þótt auðvitað hafi undiralda hins hagnýta undirbúnings verið sterk. Gilti einu hversu djúpt menn gátu sokkið í eigin hugsanir, það þurfti að prjóna vettlinga, steypa kerti, reykja kjöt og gera hreint.
Í þessum anda hefur Jón biskup Vídalín predikun sína á jólanóttina með þeim orðum að nú sé jólafastan að baki og þá séu menn fyrst tilbúnir að hlýða á fagnaðarríkan boðskapinn um fæðingu frelsarans. Þetta kemur fram í postillunni sem gefin var út 1718-20. Og í predikun á þriðja sunnudegi í aðventu – sem var einmitt á sunnudaginn var – segir hann „Þú fellur í þær syndir er Guð hefur þér áður fyrirgefið, og það oftar en einu sinni. Það er illa gjört. Lát þig það af hjarta angra og synda ei þanninn framar að þú ekki uppausir brunn miskunnarinnar [...]“
Það er einmitt þetta sem meistarinn segir: „Lát þig það af hjarta angra“ sem tengist jólaföstu í lútherskum skilningi. Vertu ekki alltaf svona sjálfbyrgingslegur, maður og reyndu að íhuga hvað þú hefur margt misjafnt á samviskunni! Þá fyrst ertu tilbúinn að fagna og gleðjast. Þá fyrst skilurðu hvers virði það sem sem þér hefur verið gefið.
Og í byrjun 20 aldar minnir Pétur Pétursson biskup á það í prédikun á 3. sunnudegi í aðventu að gæta að boðskap Jesú sem hann flytur til fátækra: Meðan vér hugleiðum þess vora andlegu fátækt, þessa voru andlegu þörf, er frelsari vor oss andlega nálægur.
Svona tala fáir í dag. Egill Helgason flutti reyndar bráðskemmtilegan pistil í sjónvarpinu í gær þar sem hann talaði á svipuðum nótum. Hann benti á það að helsta vandamál okkar Íslendinga um þetta leyti sé að finna gjafir hvert handa öðru. Við eigum svo lifandis skelfingar ósköp mikið af öllu, alls staðar og erum helst í vandræðum með að koma öllu því dóti fyrir einhvers staðar. Áður en Egill flutti þessa hugvekju var hann sagður ætla að leika pokaprest – en ég sá nú ekki betur en að Agli væri hjartans alvara.
Andstæða jólaföstu og jóla er engin í dag. Á aðventunni föstum við ekki fyrir jólin – við hitum okkur upp fyrir jólin. Við förum á jólahlaðborð og kjögum svo að sjálfu hátíðarborðinu næstum búin að fá nóg af hamborgarhrygg, pursteik, kalkúnum, möndlugraut, valdorfsalati, hnausþykkum sósum og hverju því öðru sem þar kann að vera að finna. Börnin okkar hafa byrjað hvern einasta dag desembermánaðar á því að fá sér súkkulaðimola úr dagatalinu. Hvern hinna síðustu þrettán morgna hafa þau fengið innpakkað fínerí.
Hvað er þá orðið eftir af jólaföstunni? Jú, hún hefst í janúar, er það ekki? Þá hellist yfir landann einhver óbeit á ástandinu á skrokknum, menn leggjast í vanlíðan yfir keppunum og vömbinni, yfir óhófinu og bruðlinu. Reikningarnir reynast hærri en menn áttu von á og leikföngin farin að bila, nýjasta dótið er fljótt að missa glansinn. Heimabíóið, flatskjárinn, myndavélin, æ, það er eitthvað tómlegt við þetta allt.
Þá koma Vídalínar okkar tíma – líkamsræktartröllin og næringarráðgjafnarir. Þau horfa beint í augun á okkur og segja: „Lát þig það af hjarta angra!“ Hversu oft og hversu mikið hefur þú syndgað maður? Komdu nú og ekki seinna en strax til okkar og við skulum reyna að koma þér aftur í form. En að loknum þeim föstutíma eru engin jól. Engin hrynjandi sögunnar, hefðanna og trúarinnar tengist þeim ósköpum. Oft fjarar áhuginn út. Tíminn er ekki nægur – að ógleymdum þeim blankheitum sem margir kannast við í kjölfar jólanna.
Hér hefur verið fjallað um andstæðurnar sem eru svo ríkur þáttur í hinu hefðbundna aðventu- og jólahaldi. Andstæðurnar skerpa á. Andstæðurnar geta komið í veg fyrir flatneskju, óhóf og hugsunarleysi. Andstæðurnar eru nauðsynlegar til þess að við getum fundið nafn á hlutina, gefið þeim réttan stað og skynjað hvers virði þeir eru. Segir ekki klisjan að inúítar þekki ekkert eitt orð yfir snjó? Veit ekki hvort það er rétt enn hugmyndin held ég að sé sú sama. Þeir sem lifa, hrærast og deyja uppi á jöklinum þekkja ekki hið gagnstæða og finna umhverfi sínu því ekkert nafn.
Grímur Lárusson yrkir í fallegum jólasálmi „Þó að úti hríðin herji, hamslaust alla skeki og berji innst í minni sál er sól.“
Ofsinn í veðrinu, kuldanum og élinu sem lemur á öllum þeim sem hætta sér út er af öndverðum toga en sólin sem skín innst í sálinni.
Hávaðinn í umhverfinu okkar, hömluleysið og vitleysisgangurinn þarf ekki að vera hótinu skárri en versti hríðarbylur. Það þarf sterk bein og þykkan skráp til þess að komast óskaddaður og óbarinn út úr slíkum hamförum. Eða hvað? Líklega þarf fyrst og fremst kyrran huga, hreina trú og sannan kærleika til Guðs og náungans til þess að mitt í öllu því umróti ríki heiðríkja, stilla og blíða innst í sálu okkar.
Vonandi verður slík heiðríkja í sálmum okkar yfir jólin.