Hvers vegna fasta?

Hvers vegna fasta?

Það er sjaldgæft að Íslendingar fasti í trúarlegum tilgangi. Allmargir munu þó fasta á kolvetni eftir að Ásmundarkúrinn sló í gegn en það gera menn til að grenna sig. Ungar stúlkur sem búa sig undir fegurðarsamkeppnir þessa dagana freistast líka stundum til að fasta í von um enn meiri spóaleggi og spannarlöng mitti. Það er heldur ekki í trúarlegum tilgangi í hefðbundum skilningi þó að verið sé að dýrka fegurðargyðjuna.

Það er sjaldgæft að Íslendingar fasti í trúarlegum tilgangi. Allmargir munu þó fasta á kolvetni eftir að Ásmundarkúrinn sló í gegn en það gera menn til að grenna sig. Ungar stúlkur sem búa sig undir fegurðarsamkeppnir þessa dagana freistast líka stundum til að fasta í von um enn meiri spóaleggi og spannarlöng mitti. Það er heldur ekki í trúarlegum tilgangi í hefðbundum skilningi þó að verið sé að dýrka fegurðargyðjuna.

Ég bjó einu sinni veturlangt á eyjunni Kýpur, fyrir botni Miðjarðarhafs. Grískir íbúar eyjunnar tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni og þar er lögð áhersla á að fasta. Tvo daga vikunnar, á miðvikudögum og föstudögum, var fiskur eða grænmeti á borðum í stað kjöts. Á föstutímanum fyrir jóla og páska fastaði eldra fólkið í fjölskyldunni samviskusamlega og snerti hvorki kjöt, egg né mjólkurvörur. Aldalöng föstuhefð olli því að til voru ýmsir gómsætir fösturéttir sem léttu mönnum föstuna en eigi að síður virtist þetta þverrandi siður á eyjunni.

Grikkirnir sem ég bjó hjá álitu það til dæmis rangt af kirkjunni að krefjast þess að menn föstuðu á mjólkurvörur því að það útilokaði börn frá því að fasta. Um þetta spannst nokkur umræða meðal foreldra í skólum, færðist þaðan til fjölmiðla og endaði á því að erkibiskupinn var beðinn að tjá sig um málið. Hann sló bæði í og úr en niðurstaðan varð sú að 7 ára drengurinn á heimilinu þurfti ekki að fasta á mjólkurvörur á föstudaginn langa.

Mér þótti þessi áhersla á matinn sérkennileg. Ég hafði aðeins einu sinni fastað sjálf og drakk þá aðeins vatn í sólarhring en notaði matartíma til bæna og íhugunar. Þetta var á skólamóti í Vatnaskógi um bænadagana og reyndi ekki teljandi á orku mína. Ég leit því svo á að ef menn föstuðu ætti það að vera til þess að hafa meiri tíma til að íhuga eða biðja.

Eftir því sem lengra líður þykir mér þó meira til um þá hugmynd að fasta með því að neita sér um eitthvað gott í nokkrar vikur. Að fasta með því að borða einfaldan mat snýst um að forðast óhóf og veislur á þeim tíma ársins sem við íhugum síðustu daga Krists, þjáningar hans og dauða. Meinlætið minnir okkur á það sem Kristur þurfti að líða.

Þegar páskahátíðin sjálf gengur í garð á Kýpur, klukkan tólf á miðnætti, fara allir sem vettlingi geta valdið í kirkju til að sjá þegar ljósið kviknar á altarinu og berst þaðan um alla kirkjuna. Fólk faðmast og kyssist og segir: Kristos anestí, Kristur er upprisinn. Síðan fara menn heim og þá býður hátíðarmatur sem ekki hefur sést á borðum lengi: Páskasúpa með eggi og lambakjötsbitum. Sjö vikna meinlæti kennir fólki að meta hátíðarmatinn enn betur.

Það er eitthvað sem við getum líka lært af föstunni. Hún kennir okkur að meta það sem við höfum og gleðjast yfir því. Með því að fækka aðeins á allsnægtaborðinu í nokkrar vikur getum við glaðst betur og fagnað betur því að Kristur er upprisinn.