Sakkeus og Sarkozy

Sakkeus og Sarkozy

Sarkozy þarf ekki að vera fremstur, Sakkeus þarf ekki að vera uppi í tré! Jesús býður honum að sitja með sér, eiga samtal, það er þá sem umskiptin til góðs eiga sér stað. Sakkeus ákveður að gefa af eigum sínum til fátækra og leiðrétta ranglæti sem hann kann að hafa valdið.

Fáar myndir hafa vakið eins mikla athygli síðustu daga og þær sem hafa birst frá samstöðugöngu gegn rasisma og hryðjuverkum sem var farin fyrir sléttri viku í París. Gangan vakti vitaskuld athygli fyrir að vera einn stærsti viðburður síðari tíma þar sem þátttakendur tjá hug sinn og sína samstöðu, en líka fyrir alls konar aðrar sakir.

Stjórnmálaleiðtogar og ráðamenn fóru í fararbroddi, sem sýndi mikilvæg skilaboð um að tjáningarfrelsi, trúfrelsi og öðrum grunngildum lýðræðisins verði ekki teflt í tvísýnu þrátt fyrir árásir og ofbeldisverk. Stundum skiptir nefnilega öllu máli að þau sem ráða og eru í forsvari standi upp fyrir gildum sem okkur finnst þess virði að ræða og að þau séu sýnileg í aðgerðum sem miða að því að skapa samstöðu og samhug.

Í myndum af göngunni rak fólk rak auðvitað augun í hvað það voru fáránlega fáar konur í hópi þjóðarleiðtoga og þar með talið fáar konur í fremstu röð göngunnar. Varla fleiri en Angela Merkel Þýskalandskanslari. Ritvinnslugárungar sendu frá sér myndir þar sem bara kvenkynsleiðtogar voru sýnilegir, þá voru u.þ.b. þrjár hræður sýnilegar, og eina mynd sá ég þar sem andlit Angelu hafði verið sett á öll jakkafötin, þannig að milljónagangan varð að milljón Angelum!

Einnig tók fólk eftir því að ákveðna þjóðarleiðtoga vantaði, Barack Obama fékk skömm í hattinn fyrir að mæta ekki og senda ekki háttsettan sendiboða frá Washington og varla hefur farið fram hjá neinum notenda íslenskra fjölmiðla að okkar eigin Sigmundur Davíð mætti ekki, vegna anna í dagskrá og skamms fyrirvara.

Enn eitt settu myndarýnir fingurinn á, það var að fyrrverandi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, sem var upphaflega staðsettur inni í göngunni sjálfri, kom sér með lægni og slægð inn í fremstu röð og blasir þar af leiðandi við, þegar myndinni af þjóðarleiðtogunum er brugðið upp.

Þetta tiltæki Sarkozy vakti að sjálfsögðu athygli, menn rifjuðu það upp að hann væri lítill vexti og hefði kannski þurft á því að halda að vera í fremstu röð þannig að enginn skyggði á hann eða byrgði honum sýn.

Í kjölfarið tóku einmitt þessir sömu ritvinnslugárungar til starfa og hafa birt myndir af þekktum sögulegum viðburðum, eins og innrásinni í Normandí, falli Berlínarmúrsins, eða þekktum listaverkum eins og plötuumslagi Bítlanna á Abbey Road og Síðustu kvöldmáltíð Leonardos da Vinci, þar sem enginn annar en Nicolas Sarkozy er hluti af senunni.

Tilburðir Sarkozy við að setja sig í fremstu línu, þar sem hann bæði sér og sést vel, kalla fram í hugann söguna af öðrum manni, sem greip til aðgerða til að koma sér fyrir á stað þar sem ekkert skyggði á það sem hann vildi sjá. Svo vill til að í frásögum af þeim viðburði er líka tekið fram að viðkomandi hafi verið lítill vexti, og hafi átt í erfiðleikum að sjá það sem fram fór, fyrir mannfjöldanum sem var saman kominn. Maðurinn sem ég hef í huga er tollheimtuheimtumaðurinn Sakkeus sem við heyrum um í guðspjalli dagsins.

Sagan af Sakkeusi er köllunarfrásaga, hún segir í knöppu máli frá umsnúningi og umbreytingu á mannlegu lífi, þar sem manneskjan mætir afli eða krafti sem knýr hana til að horfast í augu við sjálfa sig og leiðina sem hún fylgir. Í kjölfar þeirrar reynslu leggur hún upp í leið sem er vörðuð öðrum vegpóstum.

Við vitum ýmsilegt um Sakkeus af þessari knöppu frásögn, annað getum við dregið ályktanir um af því sem gefið er í skyn. Við lesum að hafi verið auðugur maður og hann hafi verið í starfi sem gaf honum tækifæri á að auðgast, jafnvel á kostnað samborgara sinna.

Við lesum að hann var utangarðs hjá samferðafólki sínu, líklegast vegna þess að hann þjónustaði erlend yfirvöld, gekk erinda óvinaþjóðar.

Við sjáum að hann var líklega samgróinn viðmóti umhverfisins sem afgreiddi hann sem ómerkilegan og lítils virði. Augu annarra voru orðin að hans eigin augum sem hann virti sjálfan sig með og dæmdi sig óverðugan, ekki tækan í samfélag fólks, deildi ekki með þeim kjörum, gleði eða sorg.

Þetta neikvæða viðhorf Sakkeusar til sjálfs sín - kannski í samblandi við sterka sjálfsbjargarviðleitni - lætur hann finna leið til að ná fram því sem hann hefur hug á, því að sjá Jesú sem er á ferð í borginni hans. Hann notar leið sem hann kann nú þegar vel á, finnur sér stað sem hann er alveg einn á, vel yfir aðra hafinn, kemur sér vel fyrir og þykist öruggur með sjálfan sig. Þarna er hann, viss um að enginn sjái hann, hann er ekki upp á aðra kominn, hann þarf ekki að láta af sjálfsmyndinni sinni, þessari sem setur hann alltaf á kantinn og út fyrir hópinn, og bíður eftir því sem koma skal.

Það sem gerist, kemur á óvart. Bæði Sakkeusi og fólkinu í kringum hann. Jesús spottar hann, nemur staðar og sér Sakkeus, í hvaða aðstæðum hann er og á hvaða stað hann hefur kosið að setja sig. Jesús sér í gegnum hann, myndum við segja, og brýtur upp munstrið sem Sakkeus hafði komið sér svo þægilega upp. Hann býður honum að stíga niður vegna þess að það verður hann að gera til að opna sig fyrir því sem er að fara að gerast, opna sig fyrir nýjum hlutum og nýrri sýn á sjálfan sig og hlutverk sitt.

Nýtt hlutverk í lífinu. Köllun til að snúa við, breyta sér, leggja til hliðar það sem er fullreynt, útrunnið, það sem hindrar vöxt og þvælist fyrir því að það nýja og óvænta fái pláss og getið notið sín.

Þetta er viðsnúningurinn í sögunni um Sakkeus, þetta er tækifærið hans til að láta af viðteknum hætti, laga neikvæðu samskiptin sín við samferðafólkið og hætta að láta þau móta sjálfsmynd sína og viðbrögð.

Þetta er tilboð sem stendur okkur öllum til boða og við getum öll þurft á því að halda. 12 spora starfið sem verður kynnt hér í safnaðarheimilinu á eftir snýst um þetta, það er fyrst og fremst vinna með eigin tilfinningar og hvernig áhrif þær hafa á sjálfsmynd okkar og líðan.

Við getum öll upplifað okkur svolítið týnd, ekki við stjórnvölinn í eigin lífi eða þá verið haldin þörf fyrir að ráða, taka pláss, troða okkur í fremstu röð, inn í atburði sem tilheyra okkur ekki. Og við getum þurft að setja vinnu við okkur sjálf í forgang.

Jesús kemur til að leita að hinu týnda og frelsa það. Það er boðskapur sögunnar um Sakkeus og það er það sem við tökum með okkur þegar við heyrum hana.

Sarkozy þarf ekki að vera fremstur, Sakkeus þarf ekki að vera uppi í tré! Jesús býður honum að sitja með sér, eiga samtal, það er þá sem umskiptin til góðs eiga sér stað. Sakkeus ákveður að gefa af eigum sínum til fátækra og leiðrétta ranglæti sem hann kann að hafa valdið.

Þetta er viðsnúningurinn sem við þurfum öll að upplifa, bæði í okkar persónulega lífi og á stóra sviði heimsþorpsins okkar. Myndin af þjóðarleiðtogunum í París minnir okkur á að þeir eru fólk sem getur með samtali og samskiptum snúið við hlutum sem hafa skaðað og eru að skaða samfélagið og líf fólks. Myndin er áminning um að halda vöku sinni í baráttunni gegn kynþáttahatri, fátækt og öðru ranglæti. Til þess eru leiðtogar þjóðanna kallaðir og við eigum ekki að búast við minna af þeim.

Komum niður úr trénu sem við höfum komið okkur fyrir í, örugg með sjálfum okkur og örugg frá hinum. Þiggjum boð Jesú um að setjast niður og eiga samfélag og samtal, heyrum kallið til að þjóna, elska og muna eftir fátækum, leyfum þessu tilboði að umbreyta okkur og móta til góðs.