Kynlíf og kristilegt æskulýðsstarf

Kynlíf og kristilegt æskulýðsstarf

Það eru skilaboð kirkjunnar til ungs fólks og til allra, að við séum dýrmæt sköpun Guðs. Við tölum um kynlíf, líkama okkar og kynverund á opinberan og heiðarlegan hátt til vega á móti þeim skilaboðum sem dynja á ungu fólki um að verðgildi þeirra sé metið á grundvelli útlits eða kynferðislegar hlutgervingar.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
25. október 2014
Meðhöfundar:

Þessa helgina er haldið árlegt Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar en það er stærsti viðburður ársins í kristilegu æskulýðstarfi. Í ár er mótið haldið á Hvammstanga og sækja það yfir 600 ungmenni á aldrinum 13-17 ára. Yfirskriftin í ár er JÁ! og vísar hún í umræðuefni mótsins en fjallað verður um kynhegðun og kynheilbrigði. Í fræðslunni, sem að koma Sigga Dögg kynfræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir sálfræðingur hjá Barnahúsi, verður m.a. tekið á álitamálum á borð við klámmenningu, kynferðisofbeldi og notkun getnaðarvarna. Safnað verður fyrir verkefni sem fellur undir alnæmisverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar sem stuðlar að forvörnum, aðhlynningu og stuðningi við alnæmissjúka og börn sem misst hafa foreldra af völdum sjúkdómsins.

Umræða um kynlíf og kynheilbrigði við unglinga innan kirkjunnar skiptir höfuðmáli og tengist eðli þess erindis sem kirkjan á við manneskjur. Kirkjan boðar mannsmynd sem byggir á mannhelgi og kærleika og nálgast kynlíf á þeim forsendum að það sé heilög tjáning á jafningjatengslum. Í starfi kirkjunnar er þeirri mannsmynd haldið á lofti í skírninni, sem boðar að manneskjan sé heilög og megi ekki meiða, í fermingunni, þar sem unglingum er vísað veg elsku í stað ótta og í hjónavígslum, þar sem jafningjar mætast í ástarjátningu og gangast undir ástríka þjónustu hvert eða hvort við annað.

Kirkjan hefur margvíslegum hlutverkum að gegna í heiminum og hún er í eðli sínu ekki eingöngu stofnun, heldur samfélag fólks sem lifir við margvíslegan veruleika. Þess vegna er það brýnt að ávarpa aðstæður fólks og fjalla um þann veruleika sem við búum við sem manneskjur. Kirkjunni er í raun ekkert mannlegt óviðkomandi.

Kristin kirkjan hefur um aldir verið í vandræðum með að ræða um kynlíf og kynverund fólks og í þeim vandræðagangi kallast á annarsvegar tvíhyggju hugmyndir, þar sem veruleikin er aðgreindur í efni og anda, og hinsvegar karlægar hugmyndir feðraveldisins. Hin andlegi heimur í hefðbundinni framsetningu kirkjunnar er karlægur og dyggðum prýddur á meðan hinn efnislegi heimur er tengdur hinu kvenlega, líkamlega og lastafulla.

Konur voru álitnar freistarar hinna staðföstu karlmanna og holdið bar að berja með boðum og bönnum. Þessi karlaveldisheimur er svo inngróinn í menningu okkar, samfélagsgerð og trúarhugmyndir að hann er útgangspunktur allrar umræðu og réttlætir það kerfisbunda ofbeldi sem okkur birtist til þessa dags í garð kvenna og hinsegin fólks.

Þess vegna þarf kirkjan að tala um kynlíf. Það er staðreynd að kristin guðfræði er holdleg í eðli sínu og að Jesús Kristur birtist okkur sem manneskja af holdi og blóði. Holdtekningin er staðfesting á því að líkaminn er góður, að upplifun okkar af eigin líkama er jákvæð og að veruleikinn er óskiptur og rúmar alla, sama hvaðan þau koma eða hver þau eru.

Það eru skilaboð kirkjunnar til ungs fólks og til allra, að við séum dýrmæt sköpun Guðs, að Guð kom í heiminn og gerðist hold til að skilja og skynja hvað það er að vera manneskja. Við tölum um kynlíf, líkama okkar og kynverund á opinberan og heiðarlegan hátt til vega á móti þeim skilaboðum sem dynja á ungu fólki um að verðgildi þeirra sé metið á grundvelli útlits eða kynferðislegar hlutgervingar.

Það er ekki auðvelt að vera ung manneskja að stíga sín fyrstu skref í þessum veruleika og hér ber kirkjan ábyrgð í því hvernig hún nálgast umræðuna um líkamann og allt sem honum fylgir. Ef við forðumst umræðu eða berum á borð algild svör, gerum við meira ógagn en gagn og þá bregst kirkjan því erindi sem henni er falið af Jesú Kristi að reynast fólki skjól. Það þarf að afnema skömmina og kirkjan hefur tækifæri til að vera leiðandi í þeim efnum hafi hún nægilegt hugrekki til.

JÁ! Kynlíf er okkur af Guði gefið til að tjá ást, gefa og þiggja, sem jafningjar og guðsbörn. Þessvegna á kristin kynlífssiðfræði erindi við manneskjur og getur samtímis umfaðmað ólík fjölskylduform og hafnað ofbeldisfullum birtingarmyndum kynhegðunar eða menningu sem gerir lítið úr manneskjum á grundvelli kynhegðunar.

Slagorðin á Landsmóti ÆSKÞ eru: JÁ! ég vil elska og virða; JÁ! ég vil gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins; og JÁ! ég þori, get og vil.

Sigurvin Lárus Jónsson Sunna Dóra Möller Höfundar eru prestar.