Fjögur tákn

Fjögur tákn

Það merkilega er að Jesús er enn að gefa tákn! Okkur eru gefin mörg tákn og stórmerki til að vekja og glæða trúna á hinn krossfesta og upprisna frelsara. Svo sannarlega eru okkur gefin tákn, það hef ég svo margoft upplifað.
fullname - andlitsmynd Arna Grétarsdóttir
25. janúar 2011
Flokkar

Við skulum biðja: Helgur andi gef skilningi mínum ljós, vilja mínum kraft og hjarta mínu frið þinn og kærleika. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

”Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Fullyrðir Jesús í guðspjalli dagsins. Þetta er merkileg fullyrðing, staðhæfing þar sem hann bendir á vanhæfi manneskjunnar til að trúa án þess að sjá eða fá sannanir. Kannski fjallar þetta um vanhæfni okkar til að játast sköpun okkar sem tilfinningaverur. Það er auðvelt fyrir okkur að horfa framhjá því að við erum sköpuð í Guðs mynd þar sem hugur og hjarta, sál, andi, líkami og vit þurfa að starfa saman í jafnvægi. Að ná jafnvægi mennskunnar er að horfast í augu við það að tilfinningar eru raunverulegar án þess að við getum nokkurn tíma mælt þær eða sannað eða jafnvel ekki einu sinni komið orðum yfir þær. Tilfinningar krefjast næðis, kyrrðar og eftirtektar. Trú er djúpstæð tilfinning sem þarf stundum að vekja með táknum. Þetta vissi Jesús og það er kannski þess vegna sem hann gefur þessi tákn sem við lesum um í Jóhannesarguðspjalli sem og í hinum guðspjöllunum í kraftaverkafrásögnum.

Og vissuð þið? Það merkilega er að Jesús er enn að gefa tákn! Okkur eru gefin mörg tákn og stórmerki til að vekja og glæða trúna á hinn krossfesta og upprisna frelsara. Svo sannarlega eru okkur gefin tákn, það hef ég svo margoft upplifað. En oftar en ekki, líða táknin framhjá án þess að við tökum eftir þeim. Í dag langar mig að fara með ykkur inn í sögu fjögurra tákna.

Fyrsta tákn: Trúuð kona með krabbamein bað heitt til Guðs um að lækna sig og margt gott og bænheitt fólk bað með henni og fyrir henni. Konan læknaðist ekki, hún dó af meini sínu. Maðurinn hennar missti trúna í nokkur ár, Guð gat ekki verið til. Börnin þeirra sem voru uppkomin trúðu, vissu og fundu að Jesús gaf tákn og stórmerki þegar hann sagði við þau: Móðir ykkar lifir. Hún lifir hjá mér, í ríki mínu og henni líður vel.

Annað tákn: Eiginmaðurinn missti trúna í nokkur ár. Það voru erfið ár. Mikil reiði og vanlíðan. Sorg og söknuður. Einmannaleikinn var samt verstur. Það fékk enginn að sjá hvernig honum leið. Andlit sorgarinnar fékk enginn að sjá. Hann var bara ekki alinn þannig upp að bera ætti tilfinningar sínar á torg, hvað þá að tala um þær. Hann ákvað nokkrum árum seinna þegar hann var hættur að vinna að fara í kirkju. Hann hafði heyrt að það ætti að minnast látinna, en hann fór eiginlega bara af því að félagar hans fóru stundum. Þetta var í nóvember. Eftir stundina var tendrað á kertum og þá var það sem presturinn sem var ung nývígð kona gekk til hans og snerti öxl hans og sagði eitthvað við hann. Röddin var eitthvað svo mild, kærleiksrík og umhyggjusöm. Tárin runnu niður kinnarnar og hann grét hljóðum tárum, aldraður maðurinn í faðmi unga prestsins. Þetta var heilög stund bæði fyrir manninn og prestinn. Efinn hafði lætt sér inn í huga mannsins. Efi sem lét hann ekki í friði það sem eftir var vetrar. Hann fór að fara í kirkjuna sína og fékk að hafa efann og tala um efann. Efinn dvaldi hjá honum í nokkur misseri. Tákn og stórmerki! Jesús hafði gefið tákn! Jesús snerti hann og gaf honum efann.

Þriðja tákn: Altarisgangan var afgerandi, eiginmaðurinn hafði oft setið á kirkjubekknum án þess að þiggja altarissakramentið. Ungi presturinn tilreiddi altarissakramentið sem fyrr og tók eftir því að þennan sunnudag stóð maðurinn upp. Hann gekk að grátunum og þáði fyrirgefandi náðarmátt Drottins í fyrsta sinn eftir andlát konu sinnar. Nú táruðust bæði presturinn og maðurinn. Tákn og stórmerki! Undur og stórmerki þegar efinn breyttist í trúarvissu. Orð Jesú höfðu heyrst og voru meðtekin: „Sonur minn, barnið mitt, segir Jesús við ekkilinn, konan þín lifir, hún lifir hjá mér, í ríki mínu og henni líður vel. Því máttu treysta og trúa. Þér er fyrirgefið og nú skaltu fyrirgefa sjálfum þér. Yljaðu þér við minningarnar um góða eiginkonu, þær verða ekki teknar frá þér. Síðar munuð þið mætast á ný.“

Fjórða tákn: Ungur maður ákvað að fara til kirkju þennan sunnudagsmorgun. Hann hlustaði á guðspjallið um konungsmanninn sem trúði svo heitt að hann bað Jesús um að lækna son sinn sem var deyjandi. Jesús gerði það. Ungi maðurinn sat á kirkjubekknum. Vissi eiginlega ekki af hverju hann var þarna, hafði bara farið með öðrum. Hann hlustaði á sögu mannsins sem missti konuna sína. Honum varð hugsað til móður sinnar, ekki gat hann hugsað sér að missa hana. Það var eitthvað sem bærðist innra með honum. Sagan af ekklinum snerti hann á einhvern hátt. Honum varð hugsað til vinar síns sem missti mömmu sína fyrir stuttu. Hann fann hvernig samúð, kærleikur og hlýja streymdu um hann, hann vissi eiginlega ekki alveg hvað þetta var, en hann ákvað að hringja í vin sinn þegar heim var komið. Undur og stórmerki! Jesús hafði með trúarsögu ekkilsins snert unga manninn og vakið með honum kærleika og umhyggju.

Guð gefi, kæri kirkjugestur sem hér situr í dag, að þú sjáir hvernig þú hefur verið snert/ur af Jesú með táknum og stórmerkjum. Táknin og stórmerkin finnast nefnilega í sögu þinni, og í sögu þess sem situr við hlið þér, fyrir aftan þig eða framan. Sagan mín og þín er full af táknum og stórmerkjum þar sem líf okkar hefur verið snert af Jesú.

Guð opni augu þín. Guð gefi þér nýja sýn, Guð gefi þér nýtt líf í Jesú Kristi.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Predikunin var flutt í sameiginlegri guðsþjónustu íslenska og norska safnaðarins í Nordberg kirkju og því var miðað við textaröð norsku kirkjunnar (Jóh. 4.46-54.)