Hlutlaus kennari er ekki til

Hlutlaus kennari er ekki til

Aðalatriði þessa máls er að bæði kennarar og nemendur komi til dyranna eins og þeir eru klæddir. Það er beinlínis óheiðarlegt gagnvart öðrum að villa á sér heimildir. Menn sýni síðan náunga sínum virðingu og geri ráð fyrir mismunandi lífsviðhorfi. Það gengur ekki að þvinga hlutleysi upp á fólk.
fullname - andlitsmynd Úlfar Guðmundsson
17. nóvember 2006

Mikil hríð hefur verið að undanförnu í blöðum af hálfu trúboða Siðmenntar og einhverra fleiri um hlutleysi kennara og skóla.

Ég þekki þessa hugsun þeirra vel og fylgdi henni nokkuð stranglega sjálfur meðan ég var við kennslu en ég kenndi í 25 ár frá 1972 til 1997. Að vísu kenndi ég minnst kristin fræði en þá alltaf dálítið og lagði ég mig fram um að kenna eins og hver annar kennari og að það kæmi ekki fram að ég væri prestur þó allir vissu það. Ég viðhafði aldrei tilbeiðslu í kennslustundum.

Ég hef hins vegar farið með bænir og faðir vor hafi ég verið kallaður sem prestur til skólans. Til dæmis að flytja ávörp við skólasetningu eða skólaslit eða þá að tala við bekki vegna andláts eða slysa sem tengdust nemendum skólans. Þá hef ég einnig verið í „prestafötum“ sem ég notaði yfirleitt aldrei í kennslu.

En með aldri, þroska og menntun hef ég linast í þessari hlutleysishugsun. Ég er sannfærður um að hún er vitleysa. Þess vegna er þessi umræða á nokkrum villigötum vegna þess að hlutlaus kennari er ekki til. Ég veit ekki betur en Kennaraháskólar viðurkenni það. Þetta er vegna þess að kennarinn getur aldrei kennt neitt annað en sjálfan sig. Kennarinn kennir ekki bækur eins og fólk heldur eða einhvern fróðleik. Hann kennir sjálfan sig og gefur af sjálfum sér og þar koma þau skilaboð sem skipta máli fyrir nemandann. Ég var í barnaskóla fyrir 55 árum. Ég man ekki hvað kennarinn sagði en ég man hvernig kennarinn var og fyrir hvað hann stóð. Ég er líka alveg sannfærður um að ef prestur og félagi í Siðmennt væru að kenna börnum, hvor í sinni stofunni og leggðu sig fram um að vera hlutlausir að þá hefðu þeir ekki lengi kennt áður en börnin hefðu það algjörlega á hreinu í sínum huga að presturinn væri trúaður maður en félagi siðmenntar væri ekki kristinnar trúar.

Börnin eru fljót að finna hvað að þeim snýr.

Þetta finnst mér vilja gleymast í þessari umræðu eða þá að fólk vanmeti þennan þátt.

Aðalatriði þessa máls er að bæði kennarar og nemendur komi til dyranna eins og þeir eru klæddir. Það er beinlínis óheiðarlegt gagnvart öðrum að villa á sér heimildir. Menn sýni síðan náunga sínum virðingu og geri ráð fyrir mismunandi lífsviðhorfi. Það gengur ekki að þvinga hlutleysi upp á fólk. Þannig eiga múslimastúlkur að klæðast eins og þær vilja og alveg út í hött að setja skorður við klæðaburði þeirra eins og gert hefur verið í Frakklandi og hugsanlega víðar. Nú er okkar samfélag að verða fjölþjóðlegt og því þurfum við að hugsa um þetta og vanda okkur í samskiptum hvert við annað. Þar fer best á því að hver og einn sé eins og hann er og vill vera. Annað verður bara vitleysa.

Við kristnir menn höfum því enga ástæðu til þess að fara í felur með þá hluti sem eru eðlilegir í okkar daglega lífi.