Gleðilegan mæðradag, mig langaði í dag til að tileinka predikun dagsins öllum mæðrum og þá hafandi í huga allar þær fjöldbreyttu myndir sem móðurhlutverkið birtist í. Hlutverk sem á skilið viðurkenningu og virðingu á öllum tímum.
Ég alla vega get staðið hér og játað það að ég var afar lánsöm með mína móður, sem reyndar kvaddi okkur allt of
snemma árið 2018 eftir langvinn veikindi og ég þakka fyrir hana á hverjum degi,
hún gaf mér svo ótal margt og var á allan hátt kletturinn í mínu lífi alveg þar
til hún kvaddi. Ég get sagt það af heilum hug og af heilu hjarta að án hennar
væri ég ekki sú sem ég er í dag.
Önnur játning svona strax í upphafi. Ég elska nú orðið að nota chatgbt eða gervigreindina, er reyndar orðin það miðaldra, að ég byrjaði bara að nota hana fyrir nokkrum mánuðum og hef haft bara nokkuð gaman af.
Svo mér til gamans á föstudaginn var bað ég chatgbt að skrifa eitthvað fallegt um mæður. Mig vantaði einhverjar hugmyndir fyrir ræðu dagsins og ekki misskilja mig þar, það er svo sannarlega hellingur sem hægt er að skrifa um móðurhlutverkið í heild en mig langaði aðeins að sjá hvað gervigreindin kæmi upp með.
Hún kom með nokkrar skemmtilegar greinar (svona smá hliðarnóta hér, þessar greinar komu vegna þess að ég skrifaði orðið sönglög vitlaust, enn eitt miðaldramúvið, var að leita að fallegum lagatextum eða ljóðum um mæður og skrifaði orðið sömglög með emmi) en þá birtust þessar sjö greinar, sem voru í raun mun skemmtilegri en það sem ég leitaðist eftir í upphafi þannig að þessi misritun mín bar betri ávöxt en ég hafði vonast eftir:
En greinarnar hljóma svona:
1. grein – Mamma hefur alltaf rétt fyrir sér.
Undantekningar mega aðeins koma til greina ef mamma sjálf viðurkennir að hún hafi haft rangt fyrir sér (og það gerist sjaldan).
2. grein – Mamma veit alltaf hvar hlutirnir eru.
Ef þú finnur ekki sokk, treyju, hleðslutæki eða sjálfsmynd, spurðu mömmu.
3. grein – Mamma er fyrsta hjálp við líkamlegum og tilfinningalegum áföllum.
Hvort sem það er sár á hné eða brotið hjarta, mamma lagar það með umhyggju og heitu tei.
4. grein – Mamma má alltaf fá síðustu sneiðina af köku.
Eða allt stykkið, ef hún vill. Þetta er ekki samningsatriði.
5. grein – Ef mamma segir „Ég er ekki reið, bara vonsvikin“…
…þá hefur þú klúðrað einhverju og ættir að biðjast afsökunar strax.
6. grein – Mamma á frídag alla daga – en fær hann bara einn formlega.
Mæðradaginn sem er heilagur. Það á að dekra við mömmu, bjóða henni kaffi og segja henni hversu frábær hún er (sem hún er alltaf).
7. grein – Mamma er ofurhetja í dulargervi.
Hún getur verið að vinna, elda, hlusta, hugga, finna sokkinn þinn og bjargað deginum – allt á sama tíma.
Mér finnst þetta bara alls ekkert svo óraunhæft hjá gervigreindinni, eflaust væru einhverjir hér til að mótmæla mér en mér finnst þetta lýsa vel í hnotskurn hvað það felst í því að vera mamma.
Allt frá því að þú færð litla barnið þitt í
fangið eftir allt erfiðið við að koma því í heiminn og þú leggur það á brjóst
og veist á þeirri stundu að þú munt alltaf gera allt sem í þínu valdi stendur
til að standa vörð um þetta barn og elska það án skilyrða.
Þú veist líka að þú verður aldrei fullkomin móðir, það er það enginn, algjörlega óraunhæft markmið, þú átt eftir að gera ótal mistök en þú átt eftir að elska, elska svo mikið að það er ekkert sem þú munt ekki gera fyrir barnið þitt og þú munt reisa múra þína umhverfis það og vernda og vaka yfir því þar til það er nógu fullorðið til að standa á eigin fótum og jafnvel þá læturðu múrana ekki alveg niður falla heldur ert þarna örlítið til hliðar en samt alltaf tilbúin að grípa þegar á bjatar í lífi barnsins þíns.
Já kæru vinir.
Í dag stöndum við saman til að fagna og
gleðjast, en líka til að hugleiða það hvað það þýðir að vera mamma.
Mæðradagurinn er ekki bara dagur fyrir blóm og kort, heldur líka fyrir hjartað. Fyrir dýptina í því hlutverki sem svo margar konur taka að sér með ást, með seiglu, með tilfinningu fyrir einhverju stærra en þær sjálfar.
Mamma! Það er orð sem er fullt af merkingu. Fyrir suma
vekur það upp hlýja minningu um mjúkan faðm, hlátur úr eldhúsinu, rödd sem
sagði: „Ég trúi á þig.“
Fyrir aðra er það orð sem getur valdið sársauka, því ekki allir ólust upp við móðurást sem var örugg, hlý eða nærandi. Og sumir sakna mömmu sinnar svo djúpt að það er eins og hluti af þeim sjálfum hafi horfið með henni.
Þess vegna viljum við í dag heiðra allar mömmur í sinni fjölbreyttustu mynd.
Við heiðrum mömmurnar sem vaka allar nætur með
veik börn í fanginu og mæta samt í vinnu eða skóla daginn eftir. Við heiðrum
þær sem bera áhyggjur í hjartanu en brosa samt svo börnin sjái bara styrk.
Við heiðrum stjúpmæður sem elska börn sem þær fæddu ekki sjálfar, en velja að mæta þeim á hverjum degi með hjartað opið.
Við heiðrum fósturmæður og ættleiðingamæður sem taka á móti lífi með trausti og hlýju.
Við heiðrum ömmur sem hafa stigið inn í móðurhlutverk aftur þegar lífið kallaði á það.
Og við heiðrum mæður sem hafa misst barn og bera þögn sorgarinnar með þeim styrk sem aðeins móðir þekkir.
Við heiðrum líka þær sem hafa misst mömmu sína og þær sem sakna móðurhlutverksins sem þær fengu aldrei að upplifa eins og þær þráðu.
Við gleymum ekki þeim sem ólust upp við skugga sem ekki fengu öryggi eða ást í móðurhlutverkinu sem þeim var ætlað. Þær bera líka sögur og styrk.
Og ég vil líka segja hér í dag: Að vera mamma
er ekki alltaf einfalt hlutverk. Það er að elda kvöldmat stundum með tár í augunum
af þreytu. Það er að segja „allt í lagi“ þegar hjartað er að bresta. Það er að
hugsa, þrátt fyrir allt: „Ég vil það besta fyrir barnið mitt“, aftur og aftur,
ár eftir ár, í gegnum breytingar og áskoranir.
Mæðradagurinn á ekki aðeins að vera fyrir hinar
fullkomnu augnabliksmyndir. Hann á líka að vera fyrir raunsæið. Fyrir
erfiðleikana. Fyrir kraftinn. Fyrir ófullkomleika hins mannlega hjarta sem
elskar, lærir, brestur, heldur áfram.
Til allra mæðra í lífi, í minningu, í anda.
Til þeirra sem ganga með barnið sitt í kviðnum. Og þeirra sem ganga með barnið sitt í hjartanu. Til þeirra sem hafa misst.
Til þeirra sem gefa sig alla í móðurhlutverkið,
dag eftir dag, ár eftir ár. Þessi dagur er tileinkaður ykkur. Takk fyrir að
elska. Takk fyrir að gefa. Takk fyrir að vera.
Amen.