Trú og vísindi

Trú og vísindi

Í reynd verð ég að segja að Dawkins hafi farið offari í málflutningi sínum, talað með fordómafullum og meiðandi hætti og gengið afar langt í fullyrðingum sem hann ýmist rökstuddi ekki eða byggði á röngum forsendum að mínu mati.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
08. júlí 2006

Viðbrögð við málflutningi prófessors Richard Dawkins

Inngangur Fyrir skemmstu var haldin ráðstefna hér á landi undir heitinu Trúleysi á Íslandi. Að ráðstefnunni stóðu Samfélag trúlausra (SAMT) og Atheist Alliance International (AAI) ásamt skyldum íslenskum félagasamtökum um efahyggju og trúleysi. Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni var Richard Dawkins, prófessor í líffræði við Oxford-háskóla í Bretlandi, en hann hefur verið framarlega í flokki þeirra sem á grundvelli vísindahyggju og efahyggju tala mjög harðlega gegn trú og trúarbrögðum.

Það sem knýr mig til þessara greinaskrifa er sá málflutningur sem Richard Dawkins viðhafði í viðtali í Kastljósinu 25. júní síðastliðinn. Í máli sínu lýsti Dawkins afar neikvæðri skoðun sinni á trú og trúarbrögðum og trúuðu fólki almennt. Í reynd verð ég að segja að Dawkins hafi farið offari í málflutningi sínum, talað með fordómafullum og meiðandi hætti og gengið afar langt í fullyrðingum sem hann ýmist rökstuddi ekki eða byggði á röngum forsendum að mínu mati. Sem trúaður maður og sem prestur á ég afar erfitt með að láta mál hans framhjá mér fara athugasemdalaust. Það er í þágu sanngjarnrar og heiðarlegrar umræðu að ég sé mig knúinn til þess að bregðast við máli hans í eftirfarandi orðum því hér er sannarlega þörf á opinskárri umræðu. Í því ljósi reyni ég að halda máli mínu innan skynsamlegra marka. Umræðan um trú og vísindi er alls ekki ný af nálinni og hefur staðið lengi í einni eða annarri mynd. Sem fyrr er það kirkjunni og trúuðu fólki nauðsynlegt að skorast ekki undan heldur standa vörð um sannfæringu sína og taka þátt í þessu samtali.

Í stuttu máli kom fram í áðurnefndu viðtali sú skoðun Dawkins að það sé illskiljanlegt að trú skuli vera til umræðu meira eða minna og eiga jafn sterk ítök í fólki á öld sem ætti að vera öld skynsemi og framfara í vísindum; það sé ótrúlegt að eðli manns og heims skuli enn skoðað í ljósi trúarlegra hefða eins og þær birtast til dæmis í sköpunarfrásögum Biblíunnar þar sem vísindin hafi í reynd kollvarpað slíkum bábiljum fyrir löngu. Að mati Dawkins er trú í reynd hættulegt fyrirbæri sem byggist á fáfræði og skorti á sjálfstæðri hugsun; ali á fjandskap milli fólks og hópa sem séu andstæðrar trúar; laði fram hið versta í fari mannsins og leiði af sér sundrungu, ófrið og styrjaldir; það megi jafnvel spyrja sig hvort trúin sé „rót alls hins illa“. Í því sem fer hér á eftir vil ég reyna að bregðast við þessum fullyrðingum í ljósi þess hvernig Dawkins setur þær fram. Ef vel ætti að vera yrði það langt mál að fjalla um öll þau atriði sem Dawkins tæpir á og þótt ég komi víðar við þá vil ég einkum staðnæmast við hugtakið „trú“ í máli Dawkins og þann biblíuskilning sem lýsir sér í máli hans.

Hin hræðilega trú Dawkins er eindreginn rökhyggju- og vísindahyggjumaður og því á fyrirbærið „trú“ (e. faith) engan veginn rétt á sér í hans huga. Í þessum efnum verður að gera greinarmun á trú og trúarbrögðum (e. religion), sem Dawkins virðist ekki gera með greinilegum hætti. Þegar um trú er að ræða er átt við hina innri trúartilfinningu eða trúarsannfæringu sem beinist að því sem trúað er á. Trúarbrögð eru hins vegar hin ytri umgjörð sem trúnni er sett á meðal hinna trúuðu og birtist meðal annars í helgisiðum og trúarlegri iðkun.

Í áðurnefndu viðtali skilgreinir Dawkins trú á eigin máli sem „process of non-thinking“. Ég skil hann þannig að trúarleg hugsun sé með öðrum orðum hugsunarleysi í besta falli en í versta falli hugsanavilla, þ.e. hugsunarferli sem byggist á fáfræði og/eða staðleysum. Dawkins segir að hann kenni í brjósti um það fólk sem svo sé ástatt um. Það sem gerir trú að slíku hugsanaleysi er sú staðreynd að hana er ekki unnt að réttlæta og á Dawkins þá við að trúna sé ekki hægt að réttlæta á rökrænan hátt.

Að þessu leyti tel ég Dawkins misskilja gróflega grundvallareðli þess „að trúa“ og að mínu mati ber sá misskilningur vitni um að hann skortir í reynd þá heimspekilegu þekkingu sem þarf til þess að ræða um trú með öðrum hætti en hann gerir.

Það sem Dawkins virðist ekki átta sig á, eða kýs að minnsta kosti að líta framhjá, er að trú á ekki heima á hinu rökræna sviði mannlegrar hugsunar. Trú er ekki hægt að rökstyðja með vísindalegum hætti. Ef það væri hægt að skjóta rökrænni kjölfestu undir trú þá er ekki lengur um trú að ræða heldur sannanlegar staðreyndir. En eðli þess „að trúa“ leyfir einfaldlega ekki slíkt. Það finnur engin trú eftir rökrænum leiðum. Ég mundi aldrei geta sannfært Dawkins á rökrænan hátt um upprisu Jesú Krists frá dauðum einfaldlega vegna þess að þar er um trúaratriði að ræða, veruleika sem eingöngu er hægt að nálgast í gegnum trú. Páll postuli segir réttilega að prédikunin um Krist krossfestan og upprisinn sé slíkum mönnum hneyksli og heimska (1Kor 1. 23). Ég neita því ekki en bendi á að þeir þurfa að átta sig á eðli þess „að trúa“.

Og hvað er þá trú? Það hefur verið sagt að trú sé það sem þú lætur þig varða með ýtrustum hætti, það sem hefur dýpst áhrif á þig og ákvarðar hvernig þú hugsar og breytir í lífinu. Innan trúarbragðafræða hafa komið fram ófáar skilgreiningar á „trú“. En segja má að í innsta eðli sínu sé trú hið sama og að treysta; að trúa er að leggja traust sitt á eitthvað. Dawkins er ekki trúlaus að mínu viti. Hann trúir á skynsemina og vísindin og burði þeirra til að ljúka upp leyndardómum heimsins og mannsins og hann skilgreinir heiminn og sjálfan sig í ljósi þeirrar trúar.

Þótt hér sé tæpt á miklu í stuttu máli þá má segja að í kristnu samhengi sé trú það að leggja traust sitt á boðskap Jesú Krists eins og hann kemur fram í orðum hans og verkum og reyna að raungera hann í eigin lífi eins og manni er framast unnt. Að trúa er því ekki fólgið í því að skilja eða vita eitthvað merkilegt og mikið, ekki heldur í því að vera eitthvað merkilegur heldur einfaldlega í því að treysta. Hver sá sem ætlar sér að reyna að skilja Jesú Krist í krafti eigin skynsemi og rökhyggju mun aldrei kynnast honum. Nefna má upprisuna aftur – og önnur trúaratriði almennt – því hún kemur upp um hvern þann sem ætlar sér að nálgast Jesú Krist – og trú almennt – á vitsmunalegan hátt. Ágústínus kirkjufaðir (354–430) sagði eitt sinn: „Skilningur er laun trúarinnar. Reyndu því ekki að skilja til þess að geta trúað, heldur trúðu til þess að skilja.“ Það eru orð að sönnu. Trú er með öðrum orðum sannfæring um það sem þú færð ekki séð en laun trúarinnar er að sjá það sem þú ert sannfærður um (sbr. Heb 11.1). Þó að trúarbrögð feli í sér tiltekna þekkingu á átrúnaðinum þá finnur trú sem slík sér ekki leið í gegnum huga mannsins heldur hjarta hans, þ.e. í gegnum tilfinningar og innri skynjun. Og í þessu samhengi er einnig vert að geta um hina hlið þessa máls en hún er sú að efinn er einmitt uppspretta trúarinnar. Efinn hefur á öllum tímum nært trúna því ef við þyrftum ekki að efast um neitt þá þyrftum við einskis að leita og engra svara væri þörf og þá hefðum við enga ástæðu til þess að trúa nokkru.

Að þessu leyti hafna ég algerlega þeim skilningi sem Dawkins leggur í „trú“ og það „að trúa“ og þeim málflutningi sem af honum leiðir. Dawkins skoðar trúna eingöngu í ljósi öfgakenndra birtingarmynda hennar í nútímanum og alhæfir út frá því. Ég tel skilning hans á trú alrangan og í besta falli byggðan á misskilningi eða vanþekkingu og í versta falli fordómafullu skilningsleysi.

Öld skynseminnar

Dawkins telur að 21. öldin eigi að vera öld skynseminnar og því sé ekkert pláss fyrir niðurrifsafl á borð við trú. Það var einnig sagt að 20. öldin yrði hin glæsta öld framfara, skynsemi og göfgunar mannsins vegna þróunar vísindanna. En það fór nú á annan veg.

Vissulega hafa vísindin fært stórum hluta mannkyns, þó engan veginn öllum, miklar umbætur, en þau hafa líka fært mannkyninu öllu margvísleg ný drápstæki og ollið miklum náttúruspjöllum eins og síðar verður vikið að. Hvað gera vísindin á 21. öldinni? Munu þau bæta fyrir mistökin á 20. öld eða munu þau gera skilyrði mannkynsins til lífs endanlega að engu? Vísindahyggja Dawkins getur ekki svarað þessum spurningum. Svörin fást í siðferðivitund manna á meðal, jafnt trúarlegri sem veraldlegri, og í flóknu samspili stjórnmála, vísinda og trúarbragða. Dawkins spyr sig að því hvernig standi á því að hindurvitna á borð við frásagnir Biblíunnar um sköpun og tilurð heimsins sjái enn stað í hugsun fólks; slíkt geri lítið úr glæstum veruleika heimsins eins og vísindin lýsa honum og það sé með öllu óþolandi og óskiljanlegt.

Hvað með sköpunarfrásagnir Biblíunnar? Vissulega neita ég ekki þeirri staðreynd að ýmsir túlka orð Biblíunnar bókstaflega og þar á meðal sköpunarfrásagnir hennar og ég mæli því síst bót að gengið sé um Biblíuna með þeim hætti. Í þessum efnum alhæfir Dawkins hins vegar enn og aftur að mínu mati í ljósi bókstafstrúarhyggju sem gjarnan kemur fram með öfgakenndum hætti og nær aðeins í Norður-Ameríku. Slíkur málflutningur ber vitni um mjög þröngan skilning á trúarlífi fólks og á Biblíunni af hálfu Dawkins. Hann velur aðeins það úr trúarlífi fólks sem fellur vel að hugmyndum hans um trú og því næst deilir hann mjög hart á útvalinn „sannleika“ sinn um trúna.

Það sem kemur hins vegar ekki fram í máli Dawkins er að innan kristinnar trúarhefðar og guðfræði eru ríkjandi stefnur og straumar og ólíkar túlkanir og ólíkur skilningur á Biblíunni og þar á meðal sköpunarfrásögunum. Ég veit til dæmis ekki um neinn þjóðkirkjuprest sem mundi í einhverri alvöru halda fram bókstafskenndum skilningi á sköpunarfrásögunum og þeirri mynd sem þar er dregin upp af tilurð heimsins. Innan evangelískrar-lútherskrar trúarhefðar er ekki litið framhjá því að Biblían er mannanna verk og sprottin úr tilteknu sögulegu og menningarlegu samhengi. Hún er skrifuð á tímabili sem spannar árþúsund og ber vitni um heimsmynd, siði og menningu sem ekki er hægt að fallast á í dag. Að þessu leyti krefst biblíulestur tiltekinnar þekkingar og boðskap biblíunnar þarf að túlka á hverjum tíma. Hitt er annað mál að Biblían ber vitni um trú og reynslu raunverulegs fólks á sögulegum stað og tíma. Þannig er túlkunin fólgin í því að fanga þann tímalausa, trúarlega boðskap á bak við annars sögulega skilyrtan umbúnað. Það þarf því ekki röklegt vit til þess að nálgast boðskap og sannindi Biblíunnar heldur trú. Enginn er betur til þess fallinn að ljúka upp fyrir manni dyrum Biblíunnar en Jesús Kristur. Það er þá sem Biblían verður raunverulega lifandi þegar innihald hennar er skoðað og túlkað í ljósi kærleiksboðskapar Jesú Krists, sem raunar Dawkins sjálfur segist hafa mætur á.

Án þess að fara lengra út í þessa sálma vil ég segja í þessu samhengi að sköpunarfrásagnir Biblíunnar eru ekki náttúruvísindi eins og Dawkins heldur staðfastlega fram að þær séu heldur ljóðræn framsetning á trú fólks og reynslu þess í heimi sem það reynir að skilja og staðsetja sig í. Þær frásagnir eru vissulega bundnar tiltekinni heimsmynd og sögulegu samhengi. En þær ber að mínu viti að nálgast fyrst og síðast sem trúarjátningu sem tjáir að lífsanda heimsins er að finna í og hjá algóðum Guði sem skapaði heiminn og manninn í kærleika sínum til samfélags við sig. Sköpunarfrásagnirnar geyma með öðrum orðum ekki uppskrift að sköpunarferlinu né segja þær til um það hvernig Guð skapaði heiminn heldur einfaldlega að hann skapaði heiminn og að við trúum því að upphafið sé hjá Guði; að það sé æðri máttur á bak við það sem er. Það eru þau sannindi og sá boðskapur sem sköpunarfrásögur Biblíunnar flytja og þau rúma öll þau vísindalegu sannindi um heima og geima sem fólk gengur að vísum í nútímanum, hvort sem við fjöllum um þróunarkenningu Darwins eða hugmyndir þess fræga eðlisfræðings Stephen Hawkins um að tíminn sé aðeins mannleg ímyndun. Því er það að kenningar vísindanna valda mér, í senn trúuðum manni og skynsemishyggjumanni, engri togstreitu.

Rót alls hins illa?

Í vægðarlausri og furðanlega illa ígrundaðri árás sinni á trú og trúarbrögð í Kastljósinu heldur Dawkins því fram, eins og fleiri hafa gert á undan honum, að trúarbrögðum sé um að kenna ófremdarverk og helstu stríð í heiminum og hörmungar af þeirra völdum, einkum í Evrópu. Þetta leiðir væntanlega af því að í eðli sínu reka trú og trúarbrögð, að mati Dawkins, flein á milli þess fólks og samfélaga sem játa ólíka trú og það ali á fjandskap og leiði af sér ófrið og hörmungar.

Það er beinlínis röng fullyrðing hjá Dawkins að segja að trúarbrögðum sé nánast að öllu leyti um að kenna evrópsk stríð og þótt víðar væri leitað. Sannleikurinn er að aðeins örfá stríð má á einhvern hátt rekja til trúarbragða og flest þau verstu hafa ekkert með trú að gera, enda fleira fólgið í sögu og samfélagi mannsins en trú og trúarbrögð ein og fleiri hvatar til athafna. Auðvitað má finna stríðsátök þar sem andstæðar trúarhugmyndir eru snar þáttur í átökunum eins og á Norður-Írlandi og í löndum fyrrverandi Júgóslavíu. Og ekki er hægt að horfa framhjá því að ófriðarbálið fyrir botni Miðjarðarhafsins er að miklu leyti átök á milli trúarbragðahópa (bókstafstrúaðra gyðinga og múslíma) þótt ekki sé það einhlít skýring enda verður að taka fleiri þætti með í víðara samhengi til þess að öðlast fullan skilning á þeim aðstæðum sem þar eru fyrir hendi. En í öllum þessum tilvikum verður að gæta sín á því að rugla ekki saman gjörðum þeirra manna sem kalla sig trúaða (kristna menn, gyðinga, múslíma) og trúnni sjálfri (þar á meðal kristinni trú) en Dawkins gerir sig gróflega sekan um það. Það er miður að Dawkins leyfi sér ekki að íhuga trú og trúarbrögð almennt í öðru ljósi en því sem stafar af því ófriðarbáli.

Þegar þau stríð eru skoðuð sem mestan svip hafa sett á okkar tíma og mest áhrif haft, eins og m.a. fyrri og síðari heimsstyrjöldin, þá er ekki hægt að segja að sá ófriður hafi snúist um trúarbrögð. Það er ekki einu sinni hægt að skoða gyðingahatur Hitlers og hans fylgismanna í trúarlegu ljósi. Hvað hafði „trú“ með hryllingin við Verdun og Somme að gera? Hvað með harmleikinn í Dresden? Þegar trú og trúarbrögðum er kennt um stríð og ófrið er meira eða minna um að ræða yfirvarp þar sem raunverulegar rætur átakanna eru aðrar og margþættari. En því kýs Dawkins að horfa framhjá. Hann hugleiðir ekki frekari forsendur á bak við stríð og ófrið og virðist í engu velta fyrir sér öðrum hugmyndafræðilegum ágreiningi margs konar og stríðandi stjórnmálaöflum, stéttaskiptingu, efnahagslegum óróa og ójöfnuði, kynþáttahatri og kúgun í ýmiss konar mynd, ásókn í landsvæði og auðlindir þess og einfaldlega hreinni mannvonsku.

Sú öld sem nýliðin er reyndist ekki sú glæsta framfaraöld sem spáð var. Þótt heimurinn hafi séð mestu framfarir á sviði vísinda í sögunni þá leysti það ekki öll vandamál heims og manns eins og búist var við – og hefur ekki gert það enn. Heimurinn sá einnig mestu hörmungar sögunnar á 20. öldinni – margir gengu glaðir og ákafir á vígvelli Stríðsins mikla (fyrri heimsstyrjaldarinnar) sem átti að marka lok allra stríða – og enn er ekki margt sem bendir til þess að 21. öldin verði mikið frábrugðin þó hún sé að þessu leyti vissulega önnur og ólík. Hugmyndir um yfirburði vísinda og framfaravonir í krafti þeirra hafa lengi loðað við manninnn. En slík frumstæð vísindahyggja, sem meðal annars birtist í málflutningi Richard Dawkins, gengur einfaldlega ekki upp né heldur sú barnalega tiltrú á yfirburði og getu mannsins sem henni fylgir. Og á það hefur kristin guðfræði bent. Fyrri heimsstyrjöldin kollvarpaði öllum slíkum vangaveltum og sú guðfræði sem mótaðist í þeirri deiglu, og hefur verið kölluð nýguðfræði hér á landi, var mjög neikvæð í garð þess að maðurinn miklaðist af sjálfum sér og benti á að maðurinn væri vissulega mjög svo ófullkominn og betur kominn undir öðru en sjálfum sér. Einmitt í því er sannleikur syndafallssögunnar fólginn – sem ber að umgangast með sama hætti og sköpunarfrásögurnar – þar sem horft er á manninn mjög raunsæjum augum. Páll postuli orðaði það með þeim hætti að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð“ (Rm 3.23). Og maðurinn hefur staðfest þessi sannindi margoft í sögu sinni. Í raun má segja, ólíkt því sem Dawkins vill meina, að þessi staða mannsins sé miklu fremur forsenda trúarhugmynda heldur en afleiðing þeirra.

Ég tel það ekki réttlátt af Dawkins að kalla trú og trúarbrögð formálalaust til saka fyrir ófremdarástand manns og heims í dag með þeim hætti sem hann gerir. Hann spyr hvernig heimurinn væri án trúarbragða! Vel mætti spyrja á móti hvernig heimurinn væri án vísinda. Kristin kirkja – og trúarbrögð almennt – er að sjálfsögðu ekki sæmd af öllu því sem hefur viðgengist í hennar nafni í sögu sinni, hvorki fyrr né síðar. Því neitar enginn heilvita maður sem þekkir þá sögu. Hún getur ekki hvítþvegið hendur sínar fremur en veraldleg yfirvöld í sögu og samtíð. Og margt má við hana athuga enn í dag. En enn og aftur má ekki rugla saman gjörðum þeirra manna sem kalla sig kristna og kristinni trú og kristnum boðskap. Það er ekki hægt að alhæfa um trú almennt í ljósi misbeitingar hennar, ekkert frekar en um vísindi. Trúnni hefur verið og mun verða misbeitt og notuð til réttlætingar á óhæfuverkum en það segir að mínu mati meira um manninn heldur en sjálfa trúna. En ef það á að munnhöggvast með þessum hætti þá þurfa vísindin líka að svara fyrir sig. Hvernig væri heimurinn án kjarnorkunnar og eyðileggingarmáttar hennar? Hvernig væri heimurinn í dag án gróðurhúsaáhrifa og þeirra skelfilegu afleiðinga sem við blasa þeirra vegna og eru bein áhrif iðnbyltingarinnar og tæknivæðingar heimsins? Hvernig heim erum við að skapa börnunum okkar og komandi kynslóðum þegar horft er til framtíðar með augum vísinda? Er sú framtíðarsýn sem vísindahyggjan býður upp á í dag jafn glæst og sjálfsögð og Dawkins vill vera láta? Þetta eru gildar spurningar sem brenna á mörgum. Og það má lengi spyrja. En hvernig sem spurt er þá er það ætíð sama mannlega röddin á bak við þau orð – veikburða, breysk og rám. Og hver er til svara? Ég þekki bara einn. Og það er alls ekki Richard Dawkins. Ég veit ekki hvað framtíðin geymir í skauti sér, en það er allt í lagi því ég veit hver geymir framtíðina. Það nægir mér að treysta þeirri vissu.Í vægðarlausri og furðanlega illa ígrundaðri árás sinni á trú og trúarbrögð í Kastljósinu heldur Dawkins því fram, eins og fleiri hafa gert á undan honum, að trúarbrögðum sé um að kenna ófremdarverk og helstu stríð í heiminum og hörmungar af þeirra völdum, einkum í Evrópu. Þetta leiðir væntanlega af því að í eðli sínu reka trú og trúarbrögð, að mati Dawkins, flein á milli þess fólks og samfélaga sem játa ólíka trú og það ali á fjandskap og leiði af sér ófrið og hörmungar. Það er beinlínis röng fullyrðing hjá Dawkins að segja að trúarbrögðum sé nánast að öllu leyti um að kenna evrópsk stríð og þótt víðar væri leitað. Sannleikurinn er að aðeins örfá stríð má á einhvern hátt rekja til trúarbragða og flest þau verstu hafa ekkert með trú að gera, enda fleira fólgið í sögu og samfélagi mannsins en trú og trúarbrögð ein og fleiri hvatar til athafna. Auðvitað má finna stríðsátök þar sem andstæðar trúarhugmyndir eru snar þáttur í átökunum eins og á Norður-Írlandi og í löndum fyrrverandi Júgóslavíu. Og ekki er hægt að horfa framhjá því að ófriðarbálið fyrir botni Miðjarðarhafsins er að miklu leyti átök á milli trúarbragðahópa (bókstafstrúaðra gyðinga og múslíma) þótt ekki sé það einhlít skýring enda verður að taka fleiri þætti með í víðara samhengi til þess að öðlast fullan skilning á þeim aðstæðum sem þar eru fyrir hendi. En í öllum þessum tilvikum verður að gæta sín á því að rugla ekki saman gjörðum þeirra manna sem kalla sig trúaða (kristna menn, gyðinga, múslíma) og trúnni sjálfri (þar á meðal kristinni trú) en Dawkins gerir sig gróflega sekan um það. Það er miður að Dawkins leyfi sér ekki að íhuga trú og trúarbrögð almennt í öðru ljósi en því sem stafar af því ófriðarbáli.Þegar þau stríð eru skoðuð sem mestan svip hafa sett á okkar tíma og mest áhrif haft, eins og m.a. fyrri og síðari heimsstyrjöldin, þá er ekki hægt að segja að sá ófriður hafi snúist um trúarbrögð. Það er ekki einu sinni hægt að skoða gyðingahatur Hitlers og hans fylgismanna í trúarlegu ljósi. Hvað hafði „trú“ með hryllingin við Verdun og Somme að gera? Hvað með harmleikinn í Dresden? Þegar trú og trúarbrögðum er kennt um stríð og ófrið er meira eða minna um að ræða yfirvarp þar sem raunverulegar rætur átakanna eru aðrar og margþættari. En því kýs Dawkins að horfa framhjá. Hann hugleiðir ekki frekari forsendur á bak við stríð og ófrið og virðist í engu velta fyrir sér öðrum hugmyndafræðilegum ágreiningi margs konar og stríðandi stjórnmálaöflum, stéttaskiptingu, efnahagslegum óróa og ójöfnuði, kynþáttahatri og kúgun í ýmiss konar mynd, ásókn í landsvæði og auðlindir þess og einfaldlega hreinni mannvonsku. Sú öld sem nýliðin er reyndist ekki sú glæsta framfaraöld sem spáð var. Þótt heimurinn hafi séð mestu framfarir á sviði vísinda í sögunni þá leysti það ekki öll vandamál heims og manns eins og búist var við – og hefur ekki gert það enn. Heimurinn sá einnig mestu hörmungar sögunnar á 20. öldinni – margir gengu glaðir og ákafir á vígvelli Stríðsins mikla (fyrri heimsstyrjaldarinnar) sem átti að marka lok allra stríða – og enn er ekki margt sem bendir til þess að 21. öldin verði mikið frábrugðin þó hún sé að þessu leyti vissulega önnur og ólík. Hugmyndir um yfirburði vísinda og framfaravonir í krafti þeirra hafa lengi loðað við manninnn. En slík frumstæð vísindahyggja, sem meðal annars birtist í málflutningi Richard Dawkins, gengur einfaldlega ekki upp né heldur sú barnalega tiltrú á yfirburði og getu mannsins sem henni fylgir. Og á það hefur kristin guðfræði bent. Fyrri heimsstyrjöldin kollvarpaði öllum slíkum vangaveltum og sú guðfræði sem mótaðist í þeirri deiglu, og hefur verið kölluð nýguðfræði hér á landi, var mjög neikvæð í garð þess að maðurinn miklaðist af sjálfum sér og benti á að maðurinn væri vissulega mjög svo ófullkominn og betur kominn undir öðru en sjálfum sér. Einmitt í því er sannleikur syndafallssögunnar fólginn – sem ber að umgangast með sama hætti og sköpunarfrásögurnar – þar sem horft er á manninn mjög raunsæjum augum. Páll postuli orðaði það með þeim hætti að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð“ (Rm 3.23). Og maðurinn hefur staðfest þessi sannindi margoft í sögu sinni. Í raun má segja, ólíkt því sem Dawkins vill meina, að þessi staða mannsins sé miklu fremur forsenda trúarhugmynda heldur en afleiðing þeirra. Ég tel það ekki réttlátt af Dawkins að kalla trú og trúarbrögð formálalaust til saka fyrir ófremdarástand manns og heims í dag með þeim hætti sem hann gerir. Hann spyr hvernig heimurinn væri án trúarbragða! Vel mætti spyrja á móti hvernig heimurinn væri án vísinda. Kristin kirkja – og trúarbrögð almennt – er að sjálfsögðu ekki sæmd af öllu því sem hefur viðgengist í hennar nafni í sögu sinni, hvorki fyrr né síðar. Því neitar enginn heilvita maður sem þekkir þá sögu. Hún getur ekki hvítþvegið hendur sínar fremur en veraldleg yfirvöld í sögu og samtíð. Og margt má við hana athuga enn í dag. En enn og aftur má ekki rugla saman gjörðum þeirra manna sem kalla sig kristna og kristinni trú og kristnum boðskap. Það er ekki hægt að alhæfa um trú almennt í ljósi misbeitingar hennar, ekkert frekar en um vísindi. Trúnni hefur verið og mun verða misbeitt og notuð til réttlætingar á óhæfuverkum en það segir að mínu mati meira um manninn heldur en sjálfa trúna. En ef það á að munnhöggvast með þessum hætti þá þurfa vísindin líka að svara fyrir sig. Hvernig væri heimurinn án kjarnorkunnar og eyðileggingarmáttar hennar? Hvernig væri heimurinn í dag án gróðurhúsaáhrifa og þeirra skelfilegu afleiðinga sem við blasa þeirra vegna og eru bein áhrif iðnbyltingarinnar og tæknivæðingar heimsins? Hvernig heim erum við að skapa börnunum okkar og komandi kynslóðum þegar horft er til framtíðar með augum vísinda? Er sú framtíðarsýn sem vísindahyggjan býður upp á í dag jafn glæst og sjálfsögð og Dawkins vill vera láta? Þetta eru gildar spurningar sem brenna á mörgum. Og það má lengi spyrja. En hvernig sem spurt er þá er það ætíð sama mannlega röddin á bak við þau orð – veikburða, breysk og rám. Og hver er til svara? Ég þekki bara einn. Og það er alls ekki Richard Dawkins. Ég veit ekki hvað framtíðin geymir í skauti sér, en það er allt í lagi því ég veit hver geymir framtíðina. Það nægir mér að treysta þeirri vissu.

Börn og trú Þótt ég vildi gjarnan ræða áfram um margt sem kemur fram í máli Dawkins verð ég að láta öðrum það eftir að sinni. Þó get ég ekki skilið við þessa umræðu án þess að fara fáum orðum um viðhorf hans til trúaruppeldis barna því sjálfur á ég börn og finnst það afar miður og meiðandi hvernig hann talar í þeim efnum. Látum það vera að Dawkins telji sig þess umkominn að grafa mig sem trúaðan mann í fúlan pytt fáfræði og hugsunarleysis, en lægst leggst hann þó þegar hann segir að allt trúarlegt uppeldi og fræðsla jafnist á við níðingshátt og andlegt ofbeldi gagnvart börnum. Enn og aftur alhæfir Dawkins á grundvelli öfgakenndra birtingarmynda trúar. Dawkins virðist telja trúaruppeldi fólgið í því og leiða til þess eins að trúarlegur „merkimiði“ sé settur á börn sem stimpli þau ýmist mótmælenda trúar, kaþólskrar trúar, gyðinglegrar trúar o.s.frv. og girði þau með neikvæðum hætti af í hugsun og háttum sem hafi hræðileg áhrif á líf barnsins. Þá sé það sorglegt að mati Dawkins að ala börn á þeirri ranghugmynd að trú og trúarbrögð geti nokkurn tíma jafnast á við mikilfengleika vísinda og vísindalegrar hugsunar.

Hér vil ég aðeins minna á það sem Dawkins nefnir ekki, nefnilega það að allir einstaklingar alast upp við skilyrðingar frá fyrstu tíð, góðar eða slæmar, með réttu eða röngu. Börn búa strax frá fæðingu í félagslega, sögulega og menningarlega skilyrtu umhverfi. Það umhverfi sem mér var búið skilgreinir mig meðal annars sem Íslending. Trúarlegi þátturinn er eingöngu einn þáttur í margþættu og flóknu ferli persónumótunar. Að alhæfa um barnauppeldi almennt út frá hinum trúarlega þætti eins og Dawkins gerir er fyrst og síðast rangt og ber vitni um vanþekkingu, ef marka má orð hans í umræddum Kastljósþætti. Ef það á að hugsa um barnauppeldi með þessum hætti þá verður að telja allt barnauppeldi níðingshátt. Trúarlega snautt uppeldi er jafn mótandi fyrir barnið og hitt. En hvort leiðir af sér betri einstakling? Ég kann ekki að svara því, enda hugsa ég ekki á þessum nótum, en ég veit það í hjarta mínu að ég reyni að leggja börnum mínum eins gott til og ég get. Að sjálfsögðu viljum við öll hlífa börnunum okkar við því sem við teljum óæskilegt eða beinlínis skaðlegt og einnig vitum við að það er hægt að meiða börn og vinna þeim mikið tjón í uppeldi en Dawkins gengur of langt þegar hann afmarkar hinn trúarlega þátt uppeldis sem jafn mikinn skaðvald og hann vill vera láta. Þegar uppeldi barna er meira eða minna ábótavant þá er þar oftast um aðra skaðvalda að ræða en trú og vísindahyggju. Kristin trú gerir ekki þá kröfu til sjálfrar sín og ritningarinnar að vera altækt og óvefengjanlegt siðalögmál eða uppskrift að áfallalausu og farsælu lífi. Trúarlegar hugmyndir bjóða miklu fremur upp á leiðir til þess að takast á við lífið eins og það er. Þannig hvetur kristin trú alla til þess að horfa á heiminn og sjálfa sig, orð og gjörðir, í ljósi kærleikans sem birtist í persónu Jesú Krists frá Nasaret og leggja traust sitt á hann.

Lokaorð

Það er mjög frumstæður hugsunarháttur og til marks um afar öfgakennda vísindahyggju að kenna trú og trúarbrögðum um flest sem farið hefur miður í sögu mannsins. Hægt er að segja þetta um leið og horfst er í augu við þá staðreynd að saga trúarbragða er ekki glæst og lýtalaus, ekkert frekar en saga vísinda og saga mannsins almennt og yfirleitt. Það má hugleiða trú og trúarbrögð með margvíslegum hætti. Til eru kenningar innan trúarbragðafræða sem kveða á um það að þróun trúarbragða megi einmitt rekja til viðleitni mannsins til að horfast í augu við og sætta sig við eigin ófullkomleika og fallvaltleika og til þess að takast á við hann. Ekki ætla ég að orðlengja um það en held því fram að málflutningur Richard Dawkins beri með sér merki þeirra sömu öfga og hann vill gagnrýna þótt með öfugum formerkjum sé. Og þar fyrir utan sér hann ekki skóginn fyrir trjánum og nálgast trú og trúarbrögð almennt út frá öfgakenndum birtingarmyndum hennar sem bjaga allt útsýni og útiloka heiðarlega nálgun í þessum efnum. Vitna má í orð Krists sjálfs úr fjallræðunni – sem Dawkins þó hælir – og segja að Dawkins blindist svo af flísinni í augum flestra að hann sjái ekki bjálkann í sínum eigin (sbr. Mt 7.3).

Ef draga má einhverja álykun af sögu og þróun vísinda þá er það sú að heimurinn er mjög undarlegur og kemur sífellt á óvart. Þó ég sé einungis leikmaður og tæplega það þá leyfi ég mér að segja að vísindalegar uppgötvanir hafa sannarlega sýnt fram á það. Og þetta á jafnt við um manninn og reynslu hans af sjálfum sér og heiminum. Eðli mannsins er ekki útreiknanlegt og það er ekki einfalt og sjálfsagt að útskýra alla mannlega reynslu í ljósi vitsmunalegrar getu hans sjálfs. Slík smættarhyggja á ekki rétt á sér. Að sjálfsögðu er málflutningur manna á borð við Richard Dawkins aðeins ein hlið þess margþætta viðfangsefnis sem trú og vísindi eru bæði hvort í sínu lagi og hvort með öðru. Til eru þeir sem hafa aðra skoðun og annað sjónarhorn. Það er vert að geta hér um einn slíkan fyrir þá sem vildu afla sér innsæis og þekkingar í þessum efnum út frá fleiri hliðum. John Polkinghorne er samlandi Dawkins sem hefur skrifað mikið um trú og vísindi og snertifleti þeirra. Polkinghorne hefur áratuga reynslu á sviði vísinda sem virtur kennilegur eðlisfræðingur við Cambridge-háskólann, en hann hefur einnig verið vígður prestur innan Anglíkönsku kirkjunnar í Bretlandi síðan árið 1982. Polkinghorne gengur út frá því að innan vísinda og trúarbragða sé fengist við ólíkar hliðar eins og sama raunveruleikans og í ritum sínum hefur hann sýnt fram á hvernig vísindi og trú geta varpað ljósi hvort á annað í skoðun sinni á eðli manns og heims.

Í samtali trúar og vísinda leiðir það til lítils að láta rekast áfram af þeirri afstæðishyggju sem lætur sér nægja að segja að þú hafir þína skoðun og ég mína; og allra síst af þeirri oft á tíðum hrokafullu nauðhyggju sem heldur einni skoðun og túlkun fram yfir aðra á grundvelli þess sem talið er rétt og rangt. Mannleg þekking hefur alla tíð verið ofurseld lögmáli óvissu og í guðfræðilegri íhugun um eðli manns hefur það löngum verið viðurkennt að mannlegri getu er takmörk sett.

Með fullri virðingu fyrir vísindalegum kenningum og nauðsyn þess að fræða um þær þá þætti mér sem trúuðum manni það afar illt verk og rangt að hampa yfirburðum mannshugans í skjóli þeirra en svipta manninn um leið þeim mikilvæga þætti í mennsku sinni sem trúin er og láta þar við sitja. Ég hef ekki spádómsgáfu og veit ekki hvernig heiminum farnaðist án þessa eða hins. Ég veit ekki hvernig heimur án trúar og/eða trúarbragða væri einfaldlega vegna þess að slíkur heimur hefur aldrei verið til. Ég mundi mögulega treysta mér til þess að segja eitthvað um það hvernig heimurinn væri án vísinda því að slíkur heimur hefur verið til. En ég ætla ekki að gera það því það ber merki um heimsflótta í mínum huga.

Það sem ég ætla hins vegar að gera er að halda áfram að segja sonum mínum frá Guði og Jesú og kærleikanum í hans nafni. Ég mun halda áfram að reyna að vekja þeim traust til lífsins í gegnum bænina; og ég mun halda áfram að kenna þeim að horfa á heiminn með augum Guðs og ganga um hann af virðingu og alúð og að elska náungann eins og sjálfa sig. Ég læt enga átölulaust væna mig um níðingsskap gagnvart börnunum mínum.

Að síðustu vil ég enn og aftur leggja áherslu á þá skoðun mína að málflutningur Richard Dawkins er herskár og hrokafullur og byggist á fordómum í garð trúar og trúarbragða. Hann sækir forsendur sínar í öfgakenndar birtingarmyndir þeirra og bókstafskennda guðfræðilega hugsun sem er hvergi nærri alls staðar við lýði og alhæfir út frá þeim. Má það heita undarlegt að slíkt komi frá upplýstum og menntuðum manni á borð við hann.

Sem trúaður kristinn maður vil ég segja þetta að lokum: Ég hef takmarkaða þekkingu á vísindum og gengst við mínum eigin ófullkomleika í því sem öðru. En ég réttlæti ekki trú mína, trú mín réttlætir mig!