Syndarinn heilagi – Cash

Syndarinn heilagi – Cash

Kántrí-rokk í bland við sekt og sýknu, dauða og nýtt líf eru stefin í bíómyndinn “Walk the Line” þar er sögð saga Johnny Cash frá bernsku og þangað til hann er orðin stórstjarna í músíkinni.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
27. febrúar 2006

Kántrí-rokk í bland við sekt og sýknu, dauða og nýtt líf eru stefin í bíómyndinn “Walk the Line” þar er sögð saga Johnny Cash frá bernsku og þangað til hann er orðin stórstjarna í músíkinni.

Johnny Cash er dálítið merkilegt fyrirbæri í Ameríku. Hann sprettur upp úr jarðvegi amerískrar sveitatónlistar hvítra og svartra í Suðurríkjum Bandaríkjanna en nær því að verða sígildur. Hann var sveitamaður sem lenti í sollinum sem fylgdi frægum tónlistarmönnum í Bandaríkjunum og stefndi hraðbyri til glötunar þegar sú ærlega kona June Carter, sjálf þekkt kátrísöngkona bjargaði honum með heilindum sínum.

Hann og reyndar þau bæði spretta upp í íhaldssömu baptistaumhverfi í trúarefnum en hann verður á margan hátt rödd hins róttæka spámanns sem stendur með utangarðsmönnum og storkar valdinu. Þessa vegna verður þessi dimma rödd hans oft svo sterk.

Myndin “Walk the Line” er afskaplega trúverðug lýsing á raunverulegu fólki. Aðalleikararnir frábærir þau Joaqin Phoenix og Reese Witherspoon. Hann syngur meira að segja sjálfur gömlu Cash-lögin og gerir það vel. Þau draga upp trúverðuga mynd af fólki sem berst fyrir lífi sínu, berst við brestina og tekst á við lífið. Glíma þeirra hjóna sýnir líka hvernig heilbrigð trú og æra getur komið fólki til bjargar á ögurstundum.

Það sem í mínum huga gerir Cashhjónin stór er hvernig þau, og þá sérstaklega hún - ná tökum á tilverunni með heilindum sínum. Frá því að að ég var strákpatti hefur mér fundist þessi manneskjulegu heilindi vera undirtónninn í tónlist Johnny Cash. Þessum heilindum skilar bíómyndin “Walk the Line” með ágætum.